Sósíalistaflokkur Íslands með raunhæfa húsnæðisstefnu - einn flokka
24.09.2021
Eina stjórnmálaaflið sem hefur sett fram metnaðarfull markmið í húsnæðismálum er Sósíalistaflokkurinn:
Bygging 30 þúsund íbúða á næstu 10 árum er bæði raunsæ og þörf hugmynd - en meirihluta þeirra íbúða þarf að leggja grunn að á næstu 3-5 árum til að vinna inn í þann skort sem er raunverulegur.
Neytendarekin húsnæðissamvinnufélög og sjálfseignarfélög sem rekin eru sjálfbær og án hagnaðarsjónarmiða geta hiklaust orðið lykill að langtímalausn – með virku samstarfi við sveitarfélögin og launþegafélög - og með styðjandi lagaramma ALþingis.
Það er gríðarlega áríðandi að hin nýja forysta launþega - forysta ASÍ og endurnýjuð forysta opinberra starfsmanna – leggist á eitt með hagsmunum félagsmanna sinna. Það er einnig áríðandi að BHM og Kennarasambandið viðurkenni að húsnæðisöryggi er kjaramál – líka þeirra sem glíma við námslánabyrðina eins og henni hefur verið hlaðið á flestar menntastéttir landsins. Á mesta uppbyggingarskeiði áranna frá 1950 fólst hrein bylting fyrir margar fjölskyldur opinberra starfsmanna sem komu yfir sig öruggu húsnæði í byggingarsamvinnufélögum undir verndarvæng stéttarfélaga sinna.
Það er bókstaflega þjóðarnauðsyn að neytendavæða íbúðabyggingar og rekstur húsnæðis fyrir fjölskylduþarfir og hemja gróðasókn spákaupmanna og siðleysi fjármálakerfisins.