Í morgun brá svo við mér til mikillar gleði að Óðinn Árnason var mættur í morgunsundið. Hann var kominn heim frá Benidorm - þar sem hann hafði dvalið í einhverjar vikur. Óðinn er eins og margir Akureyringar vita heill og sannur jafnaðarmaður - eða krati - eins og margir vilja nota merkimiðann.
Í prófkjörsbaráttunni hefur mér fundist Óðinn illa fjarri - þrátt fyrir að nokkrir öndvegis-morgunsundmenn hafi lagt mér lið - bæði í orði og verki. Pétur P. sá í morgun að yfir mér hafði heldur betur hýrnað;
Batna hagur Bensa fer/ bætist nú í Flokkinn,/
því krataskepnan komin er ,/ kolmórauð á skrokkinn.
Fagna ég heimkomu Óðins - og tel að baráttan sé hiklaust á réttri leið þegar menn koma heim frá útlöndum - gagngert til að kjósa Benedikt í 1. sætið.