NA-land með Akureyri sem meginkjarna- studdan af Skagafirði, Fjallabyggð og Þingeyjarsýslum – og með annan meginkjarna á Mið-Austurlandi (Héraði/Fjarðabyggð) – hefur hiklaust möguleika á að byggja upp sjálfbærni í atvinnu og þjónustulegu tilliti.
Til þess þarf ákveðið að auka sjálfstæði opinberra stofnana og efla þjónustuuppbyggingu á sviði menntunar og heilsugæslu – en um leið þarf að fjárfesta í samgöngum milli svæða og innan svæða og samgögnum til og frá landinu og landshlutanum.
Ríkisvaldið á t.d. alveg hiklaust að taka þátt í fjármagna uppbyggingu mannvirkja og markaðssókn til að flugsamgöngur til og frá Meginlandi Evrópu og Bretlandseyjum verði sjálfbærar og geti dregði að fjölda fólks og viðskiptatækifæra. Ríkisvaldið má ekki vinna gegn því frumkvæði sem heimamenn hafa lagt að mörkum – það er ekki réttur skilningur á hlutverki ríkisins í framtíðarsamfélagi jafnra tækifæra og sjálfbærrar nýsköpunar.
Í þessu málefnaumhverfi sem ég reyndi að stilla upp af minni hálfu var kosið. Miðað við undirtektirnar hef ég enga trú á að kjósendur hafi í sjálfu sér verið að hafna þessum málatilbúnaði – ég álít miklu fremur að mér hafi einfaldlega mistekist að ná eyrum kjósenda.
Þetta hlýtur að vera minn lærdómur öðru fremur. Það er reyndar þrautin þyngri að fá margt nútímafólk á vinstri kantinum til að skrá sig í stjórnmálaflokka. Það vissu formælendur lokaðrar póstkosningar auðvitað – og þeir vissu líklega líka að menntað fólk í opinberum störfum í heilbrigðisþjónustu og í menntakerfinu og við nýsköpun kann að vera viðkvæmara fyrir þessu í sínu umhverfi.
Niðurstaða mín af þessum vangaveltum og með nánari skoðun er sú að það var ekki kosið um pólitík í prófkjöri Samfylkingarinnar í NA-kjördæminu og með vísan til þess sem er að koma í ljós annars staðar á landinu – og bendir til hins sama og etv. ennþá frekar.
Við sitjum uppi með munstur klíkustarfs og flokkadrátta. Málefnaauglýsingar frambjóðenda eru örfáar – en liðsafnaður “Sturlungaaldar” í pólitíkinni er allsráðandi. Hver er með hverjum skiptir öllu – en fyrir hvað fólk stendur og að hverju það vinnur hverfur í skuggann.
Þessu verður að breyta ef pólitíkin á að hjálpa til við að efla samfélagið – gegn um menntir og nýsköpun – í stað úreltra sjónarmiða sem eru enn föst í atvinnuháttum “kreppu og eymdar” á liðinni öld.