Framtíðarhugsun - fortíðardraugar Síðustu 12 árin hefur setið ríkisstjórn sem ákvað að stýra opinberum fjárfestingum einkum í stóriðju og álframleiðslu; - og hafa runnið tugir milljarða úr opinberum sjóðum beint og óbeint til að stuðla að þeirri þróun.
Ríkisábyrgðir eru mikilla fjármuna virði fyrir Landsvirkjun og fyrir þau álfyrirtæki sem kaupa þannig niðurgreidda orku. Undirbúningur og rannsóknir hafa verið unnar á kostnað ríkisins og opinberra fyrirtækja – sem ekki er verið að greiða til baka í eðlilegri verðlagningu orkunnar.
Á síðustu árum þenslunnar hefur íslenskt frumkvæði í hátækni og þekkingargreinum sem og hönnun - átt erfitt uppdráttar. Fyrirtæki á borð við Marel, Össur og Promens ná ekki að byggja sig upp á Íslandi eins og stjórnendur þeirra og eigendur hafa óskir um – vegna efnahagsástandsins – og hátæknifyrirtækin neyðast til að flytja úr landi.
Á ársfundi Vaxtarsamnings Eyjafjarðar árið 2006 flutti Geir A Gunnlaugsson áhugavert erindi (Geir sem eitt sinn var framkvæmdastjóri Reyðaráls og reyndi að koma af stað 120þús tonna álveri á Reyðarfirði). Í máli sínu rakti Geir hvernig efnahagsstefnan og stjórnvaldsaðgerðir - ma. risa-stóriðjuframkvæmdir og undirbúningur 3ja álvera til næstu 10 ára – hefðu búið til aðstæður hágengis og ofurvaxta – og óstöðugleika sem beinlínis kæmi í veg fyrir æskilega þróun til hins nýja hagkerfis þekkingar og hátækni.
Að óbreyttu taldi Geir að þessi mikilvægu fyrirtæki Össur, Marel og Prómens kynnu að skreppa saman og með ákvörðunum og væntingum um 3 álver framundan væri fyrirsjáanlegt að engin ný fyrirtæki í sviðum þekkingariðnaðar og hátæknilausna mundu geta fótað sig. Stjórnvöld settu opinbera peninga í að skekkja viðskiptaumhverfið álframleiðslunni í hag og á kostnað nýja hagkerfisins.Geir taldi sig geta sýnt fram á að ofannefnd stórfyrirtæki og önnur sambærileg væru miklu verðmætari efnahagslífinu til lengri tíma en álver af sama fjölda.
Ríkisstjórnin hefur vanrækt menntakerfið – þrátt fyrir fjölgun háskólanema.
Skólakerfið okkar hefur verið býsna lítið breytt frá lokum seinni heimstyrjaldar þegar fræðslulög voru endurnýjuð. Það eina sem hefur virkilega tekið stakkaskiptum er verulega hækkað hlutfall fólks úr hverjum fæðingarárgangi fær framgang í gegn um framhaldsskólann og stundar nú nám á háskólastigi. Samt er vinnuaflið á Íslandi með lægra menntunarstig en tíðkast í einstökum samkeppnislöndum. Munar þar mestu um það hversu sérhæft starfsnám og tækninám hefur lengi verið vanþróað hérlendis – enda atvinnugreinar lengi vel mjög hráefnislægar.
Hér var ekki iðnaður – en fiskveiðar töldu sig lítt þurfa á menntun vinnuaflsins að halda; - bara sterka og ólata vinnuþjarka. Sama var til landbúnaðar – en þó má ráða af því hversu mörg ungmenni úr sveitum sóttu framhaldsskóla á síðari hluta 20. aldar að þar hefur menntunarfjandskapur víða verið hóflegur.
Á síðustu missirum hefur innflutningur vinnuafls beinlínis haft í för með sér að allar mælingar á menntun vinnuaflsins sýna að við færumst afturábak – ekki síst þegar okkar eigin menntaða fólk kýs í verulegum mæli að búsetjast erlendis.
Þau ár sem Íslensk Erfðagreining var að byggjast upp sótti það eina fyrirtæki umtalsverðar fjölda hámenntaðs fólks – af íslenskum eða erlendum uppruna – og setti til starfa í Reykjavík og á Akureyri. Nú er þeirra uppbyggingarfasa takmörk sett og engin önnur á sviði erfðatækni hafa umtalsverðan vöxt á dagskrá.
Nú þarf að gerabreyta um stefnu – og byrja á menntakerfinu og rannsókna- og þróunarumhverfi hins opinbera og fyrirtækjanna um leið.
Þau stjórnvöld sem hér setjast að eftir kosningar 12. maí verða að setja það á forgangsdagskrá að fjármagna menntun og rannsóknarumhverfið með miklu stærri fjárhæðum en við höfum áður séð. Stærri fjárhæðum en aðrar þjóðir; - annars vegar vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa hlaðið upp vanrækslu-skuld síðustu 12 árin og hins vegar vegna þess að Íslendingar eru yngri þjóð en allar nágrannaþjóðirnar og Vesturlandaþjóðir yfirleitt – þar sem hér er enn náttúruleg fjölgun og hlutfall unga fólksins af heildarfjölda margfallt hærra en t.d. í Danmörku, Þýskalandi og Hollandi.
Til að taka okkur áleiðis inn í þá framtíð sem við hljótum að stefna inn í er nauðsynlegt að breyta skólakerfinu;
Tillaga 1;
Skólastigin verði stokkuð upp og komið á samfelldu skólastigi frá 4ra til 18 ára aldri barnanna – sem verði gjaldfrjáls og rekinn í frjálsu umhverfi þar sem foreldrar og fagfólkið beri ábyrgð á öllum rekstrinum. Skólinn getur verið rekinn sem ein stofnun eða skiptur í tvo eða þrjá aldurgreinda hluta – en umfram allt þá þarf börnum og foreldrum að vera tryggð samfella í námi og starfi og samskiptum.
Skólinn verður þá um leið vettvangur fyrir íþróttir til árangurs og heilbrigðis og fyrir allar listir á sama skala. Skólamáltíðir þykja líka sjálfsagðar þar sem menn líta á skólann og skólauppeldið sem undirstöðufjárfestingu fyrir hagvöxt framtíðarinnar - og um leið sem vettvang til að byggja upp þann félagsauð og heilbrigði sem lífshamingja komandi kynslóða þrífst á. Öflugust nemendur ættu að geta farið beina leið í háskóla úr þessum skóla (eins og í USA) – en líklegt að þar mundi þykja skorta á almennan og annan þroska þannig að menntaskólaviðkoma kann að þykja nauðsynleg.
Þessu skólakerfi almenningsskólanum þarf að fylgja skilvirk uppbygging verklegs náms, tæknimiðaðs náms og almenns menntaskólanáms til undirbúnings fyrir klassískt háskólanám í ólíkum greinum.
Tillaga 2;
Ríkisvaldið beiti löggjöf og opinberu fjármagni til að efla nýsköpun og hagvöxt sem byggist á þekkingaryfirfæslu frá rannsókna- og þróunarumhverfi í sambýli við háskóla; - þar sem vísindagarðar og þekkingarþorp verða stefnumótsstaðir fyrir viðskiptalífið og fyrir samstarf sveitarstjórna við hið þekkingardrífandi umhverfi.
Tillaga 3;
Ríkisvaldið setji fram skuldbindandi markmið um að hækka þekkingar- og menntunarstig vinnuaflsins og fjárfesti í umgjörð fyrir verulega aukið innlent nám á meistar- og doktorsstigi – um leið og skilgreindum hópum verður markvisst beint til nágrannalanda í slíkt nám.
Einnig verður að skilgreina verulega öflugri farvegi fyrir símenntun og endurmenntun þeirra sem eru á vinnumarkaði; - bæði innan eigin starfsgreina og til að stíga út úr þeim greinum sem eru á fallanda fæti.
Með þessu verður til forsenda fyrir breyttu efnahagskerfi; - þar sem þekkingardrifnar greinar fá stóraukið vægi – þar sem sérhæfðar þjónustugreinar fá vaxtarkraft og hátækni styður sjálfbæra nýtingu umhverfis og auðlinda til lands og sjávar.
Skólastjórnun – er eitt mikilvægast verkefni samfélagsins í nútíð og framtíð
Endursköpun skólakerfisins byggist á því að skólum sé stjórnað af framsýni og þekkingu. Í slíku verkefni eru skólastjórar í lykilhlutverkum – og á sama hátt þarf að kalla eftir miklu ábyrgari og öflugri þátttöku menntastétta. Í þessu verkefni umsköpunar samfélagsins þurfa einstaklingar og stórir hópar stjórnenda að geta stigið upp úr hversdagsmennskunni og þröngri sérhyggju og borið okkur sýn til þeirrar framtíðar sem getur orðið bæði bjartari og betri fyrir okkur öll.
Það eru fleiri en ég sem höfum áhyggjur vegna þess forystuleysis sem hefur reynst viðvarandi í hópi stjórnenda í menntakerfinu á síðustu nokkrum árum.
Á tímum leiðtogastjórnmálanna þar sem þeir félagar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson – ásamt hjálparkokkum – skapaðist andrúmsloft valdbeitingar og þöggunar í ríkisrekstrinum. Jafnframt færðist stjórnun grunnskólans í einstökum sveitarfélögum í sérkennilega nánd við spillingarumhverfi pólitískra ráðninga – innan seilingar eineltis og ómálefnalegra vinnubragða. Nú bregður svo við að enginn einasti skólastjóri gerir beint eða óbeint tilkall til þess að hafa forystuhlutverk í skólamálaumræðunni – enginn sýnir öflugt frumkvæði í skólamálum; - örfáir hafa komið sér niður í flokkspólitík á sveitarstjórnarstigi og gleymt sér í smámálunum og dægurþrætu.
Ég auglýsi eftir þátttakendum í umræðunni; - eftir stjórnendum sem hafa þekkingu og reynslu en umfram allt framtíðarsýn og nægan góðvilja til að leggja að mörkum.
Hér er tómarúm sem þörf er á að fylla.
Gamalt frumkvæði
Fyrir 12 árum síðan flutti ég erindi í RÚV þar sem ég lagði upp röksemdir fyrir uppstokkun skólakerfisins í þeim dór sem ég hér að ofan geri tillögu um. Þegar flutningi erindisins var lokið fékk ég nokkrar símahringingar - sama dag og næstu daga (þetta var fyrir daga netsins og almennrar notkunar tölvupósta),,,,,,
Einn af þeim sem hafði samband við mig var Jón Sigurðsson – þá nýhættur sem skólameistari á Bifröst – og að ljúka doktorsprófi. Jón var afar jákvæður gagnvart hugmyndinni og þeim röksemdum sem ég lagði upp. Hann varð seinna starfsmaður Viðskiptaráðs(Verslunarráðs) og Seðlabankastjóri – og er nú iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokkssins.
Mér þætti áhugavert ef Framsóknarflokkur Jóns væri til með að taka á þessu máli með Jafnaðarmönnum – og kannski Vinstri Grænum. Til þess þarf kannski of harkalegan iðrunarfasa fyrir flesta reyndari þingmenn Framsóknar – amk. yrðu þeir að yfirgefa stóriðjustefnuna og ganga úr vist hjá Sjálfstæðisflokknum.
Í sumarbyrjun 2007
Benedikt Sigurðarson