Stórfjölskyldan enn við lýði?
Ánægjulegt að frétta af því að rannsókn KHÍ sýnir fram á að stórfjölskyldan virðist vera enn við lýði. Rannsóknir Ingibjargar Harðardóttur leiða í ljós ýmislegt skemmtilegt fyrir okkur sem erum áhugasöm um samfélagsmál.
MBl. 11.11.2006. Örlygur
Stór hópur eldri borgara er ánægður og telur sig við góða heilsu og framlag þeirra til samfélagsins er mjög mikið þótt það hafi lítið verið rætt til þessa, að sögn Ingibjargar Harðardóttur, lektors við Kennaraháskóla Íslands, sem rannsakað hefur framlag eldri borgara til samfélagsins. .....Felst þetta m.a. í stuðningi við börn, barnabörn og barnabarnabörn í formi barnagæslu, fjárhagslegs stuðnings o.fl.
....Rannsóknin var unnin af Rannsóknastofnun KHÍ og studd af Sparisjóðunum. Í spurningakönnun meðal eldri borgara kom fram að framlag þeirra er margþætt en nefna má að 62% þeirra aðstoða við barnagæslu og rúmlega þriðjungur þeirra sinnir barnagæslu tvisvar í viku eða oftar. Í viðtalskönnun við eldri borgara í tengslum við rannsóknina kom oft fram að afi eða amma kæmu til bjargar hjá barnafjölskyldum þegar veikindi herjuðu á heimilin.„Það er því ansi hætt við að samfélagið fyndi mjög mikið fyrir því ef þessa nyti ekki við,“ segir Ingibjörg.
Könnunin leiðir í ljós að nokkuð algengt sé að eldri borgarar styrki afkomendur sína eða aðra fjárhagslega m.a. hafa 46% þeirra lánað peninga, rúmlega fjórðungur hefur keypt nauðsynjar, s.s. fatnað, húsbúnað og slíkt og fjórðungur hefur styrkt til þátttöku í einhvers konar tómstundastarfi og námskeiðum. Einnig hefur 21% lánað veð í húsnæði sínu.
Í könnun meðal almennings kom fram að algengast var að einstaklingar í aldurshópnum 16–24 ára hefðu þegið fjárhagslegan stuðning frá eldri borgurum. .......
Rannsóknin var þríþætt. Í fyrsta lagi voru tekin viðtöl við 21 eldri borgara um framlag þeirra sjálfra til samfélagsins og niðurstöður þeirra voru meðal annars nýttar til að semja spurningar í spurningakannanir.Tvær kannanir voru síðan framkvæmdar, annars vegar fyrir 1.200 einstaklinga á aldrinum 67 til 85 ára og hins vegar fyrir 1.350 einstaklinga á aldrinum 16 til 75 ára. 66% Íslendinga töldu framlag eldri borgara til samfélagsins mikið.
Þetta, eins og svo margvíslegar aðrar rannsóknir, hjálpar okkur við að skilja hvernig samfélagið okkar er. Sjálfur hef ég reynslu sem styður þetta sem hér er vísað til. Mamma og tengdamamma hafa á árum áður létt undir með okkur við gæslu dætranna – og í einhverjum tilfellum höfum við notið þess að vera bökkuð upp með einhverjum fjármunum (eða óbeint með veðheimildum). Þannig er Ísland í dag. Fjölskyldusamhjálp er verðmæti sem okkur ber að viðhalda og virða.
Vonandi tekst okkur sem enn erum á góðum aldri að leggja að mörkum fyrir foreldrakynslóðina á meðan enn er ráðrúm til að bæta líf þeirra og þannig “lífi við árin” þeirra; svo gripið sé til klisju sem heyrist þegar rætt er um lífsgæði fólks á efri árum.
Við sem alin erum upp í bændasamfélaginu höfum mörg hver á hinn bóginn verið krafin um verulegt vinnuframlag – á meðan við vorum enn á barns- og unglingsaldri. Sumum mundi þykja nóg um það í dag.