Morgunblaðið/mbl.is 26.09. segir frá morgunfundi Landsbankans í 25.09.
"Mistök hafa verið gerð í framkvæmd peningastefnunnar hér á landi undanfarin ár, að sögn Yngva Arnar Kristinssonar, framkvæmdastjóra verðbréfasviðs Landsbankans.
........ uppkaup á gjaldeyri og lækkun bindiskyldu hafi aukið peningaframboðið. Stýrivaxtahækkanir hafa elt verðbólguvæntingar og ekki náð að hemja þær og því eru stýrivextir orðnir hærri en annars hefði þurft, -----------.................... mikið álag hafi verið á peningastefnunni vegna stóriðjuframkvæmda og breytingar á húsnæðislánakerfinu hafi magnað vandann. ............................Ekki sé hægt að útiloka að í næstu uppsveiflu verði óvæntar kerfisbreytingar, td. aðlögun verðtryggðra vaxta að erlendum verðtryggðum vöxtum sem myndi örva enn frekar eftirspurn. Kjósi menn áfram miklar fjárfestingar með háu atvinnustig er ef til vill raunsætt að breyta verðbólgumarkmiði Seðlabankans, .............................Að sögn Yngva Arnar hefur peningastefnan ekki náð markmiði sínu, það er að að halda verðbólgu sem næst 2,5%. Velti hann því upp hvort um mistök sé að ræða við framkvæmdina, ofþenslan sem fylgir stóriðjufjárfestingum sé óviðráðanleg eða hvort útbreiðsla verðtryggingar geri peningastefnuna óvirka.
Að sögn Yngva Arnar ýta háir vextir undir streymi erlends fjármagns inn í landið og að háir stýrivextir styrki gengi krónunnar og magni viðskiptahalla.Þetta eru áhugaverðar niðurstöður og greining frá sérfræðingnum sem vert er að taka mið af þegar málin eru krufin. "
Seðlabankinn í krísu
Það er hiklaust afstaða mín að efnahagsstjórnin sé komin á tímamót og ekki geti gengið lengur að hjakka í fari Seðlabankans - sem eykur á vandann en leysir hann ekki. Landsbyggðin þolir allra síst þessa hringekju þar sem aðgerðir gegn þenslu koma fram einkum og aðallega þar sem engin þensla er.Það er sérstaklega ástæða til þess fyrir okkur sem viljum standa fyrir jafnræði íbúa og búsetufrelsi á landsbyggðinni að verja Íbúðarlánasjóð – fyrir þeirri árás sem stendur nú yfir. Það hefur ekkert farið dult að bankarnir vilja sjóðinn feigan – og þeirra innkoma á íbúðlánamarkaðinn á síðasta ári var ekki góðgerðastarfsemi í neinum skilningi. Hins vegar hefur hún haft um margt jákvæð áhrif á möguleika – unga fólksins til að koma sér rýmilega fyrir – þrátt fyrir verulega greiðslubyrði og hæga eða enga eignamyndun í 90% veðsettu einbýli í Reykjavík. Lánaþensla hefur hins vegar orðið einn af stóru verðbólguvöldunum – ásamt stóriðjuframkvæmdum og vaxtaokrinu – sme hvað bítur í skottið á öðru. Gamalkunnug tilfinning frá verðbólguárunum á 7.-9. áratugnum lætur á sér kræla. Við eigum ekki að þola - né búa til lengdar við slíkan vítahring.
Sérfræðingarnir sem hafa lært “gamla” hagfræði – þurfa þróa ný svör sem passa inn í það opna hagkerfi – með frjálsu flæði fjármagns – sem hefur orðið til hjá okkur á síðustu örfáum árum. Gömlu líkönin passa ekki inn í þessar áður óþekktu aðstæður.
Þess vegna virðist það allt of billegt hjá Ingva og fleirum að slá því fram að Evrutenging muni ekki duga - þar sem fyrirtækin greiða Evrulaun og búa við Evrufjármagnskostnað. Það virðist ekki rökstutt í frásögn Morgunblaðsins af máli Ingva að það muni skapa einhverja kostnaðarþenslu sem verði fyrirtækjunum ofviða. Meðan ekki er lagt fram trúverðugt líkan – með aðra lausn álít ég það afar mikilvægt að efnahagssérfræðingar allra opinberra aðila einbeiti sér að því að leita góðra röksemda fyrir greiningum og tillögum og hætti því bulli sem felst í því að réttlæta pólitíska duttlunga Davíðs Oddssonar. Við þurfum miklu frekar að sjá grundaða tilraun til að leita lausna – eins og Samtök Iðnaðarins og reyndar núna Samtök Atvinnulífsins einnig - sem og ASÍ - hafa verið að reyna að kalla fram. Ingvi þarf að sýna okkur betri rök til að slá þessa leið Evróputengingar út af borðinu.
Ingvi segir; skv. mbl.is; "Tenging við evru myndi valda óbærilegri spennutreyju
„Margir hafa komist að þeirri niðurstöðu að ókostirnir við núverandi peningastefnu séu það miklir að heppilegast sé að hverfa aftur til fastgengisstefnu og þá helst til aðildar að evrusamstarfinu. Með því værum við að tengja hratt vaxandi íslenskt atvinnulíf við hægt vaxandi hagkerfi Evrópu," að sögn Yngva Arnar.Segir hann að vandi efnahagsstjórnarinnar hér á landi felist í of hröðum vexti, það er að hemja eftirspurn sem veldur hærri verðbólgu hér á landi en í nágrannalöndunum. Lágir vextir evrusvæðisins myndu að sögn Yngva Arnar magna enn frekar hagvöxt hér á landi.„Líklegt er því að á tiltölulega skömmum tíma yrðu kostnaðaraðstæður hér á landi algjörlega komnar úr takti við kostnað í samkeppnislöndum og engin leið til að leiðrétta það nema með niðurfærslu launa. Sú leið er ekki fær," að sögn Yngva Arnar.Hann segir að föst og órjúfanleg tenging við evruna við þessar aðstæður muni því ekki færa okkur stöðugleika heldur verða óbærileg spennitreyja fyrir íslenskt efnahagslíf."
Þessi staða er þannig að það að reyna að finna leið út úr vandanum er meira en umræðunnar virði. Án umræðu og leitar er ekki líklegt að málin leysist. Alténd er Davíð Oddsson – hinn sanni upphafsmaður vandans - ekki líklegur til að færa okkur lausnina við næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans.