Ekki gott að stinga upp hugmyndum
Góður maður á Austurlandi hafði samband við mig og sagði mér að það hefði etv. verið frekar óheppilegt fyrir mig að kynna hugmynd um jarðgöng á Austurlandi; Austurstjörnuna sem tengja mun Neskaupstað/Eskifjörð við Hérað með göngum undir Fönn. Vinurinn sagði að þetta væri ekki gott í kosningabaráttu og alls ekki í prófkjöri vegna þess að þetta kallaði á “afstöðu til málefnis.” Svo væru menn þarna fyrir austan seinteknir og alls ekkert hrifnir af því að “menn að norðan” væru að skipta sér af þeirra málum. Mér til uppörvunar heldur vinurinn því fram að það sé líklegt að menn muni eftir mér að 4 árum liðinum - vegna hugmyndarinnar – en hvergi nærri víst að það verði jákvætt fyrir mig þá.
Þegar niðurstaðan liggur fyrir í heild má auðvitað segja að þetta var samt “flopp - - - - í flestum skilningi.” Hvernig sem þetta nú fór þá held ég að Samfylkingin í NA-kjördæmi geti þakkað mínu framboði verulegan hluta af því lífi sem varð vart við í kring um prófkjörið. Ég verð hins vegar var við að harðasta liðið kring um KLM og bæjarfulltrúa SF á Akureyri er hins vegar ekki þakklátt fyrir þá athygli sem óhjákvæmilega er dregin að þeirri lýðræðisskekkju sem felst í lokuðu prófkjöri - með póstkosningu - þegar einstakir frambjóðendur hafa möguleika á að beita fjöldaskráningum í flokkinn.
Þegar búið var að samþykkja lokað prófkjör þá væntanlega átti það að þýða að prófkjörið væri lokað. Í ljós hefur verið leitt að t.d. frá Siglufirði voru skráðir í SF miklum mun fleiri kjósendur heldur en nemur atkvæðum flokksins í sameinaðri Fjallabyggð við bæjarstjórnarkosningar sl. vor. Á sama hátt barst langur listi með nöfnum kjósenda í Fjarðabyggð – sem skráðir voru til þátttöku í prófkjörinu.
Það er að mínu mati full ástæða til þess að Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar fari yfir þessa reynslu sem nú fæst af prófkjörum á þessu hausti. Það hlýtur þá um leið að verða verkefni framkvæmdastjórnarinnar að draga fram tölfræðina sem sýnir okkur hversu margar skráningar voru “gerviskráningar” – í þeim skilningi að viðkomandi hafa verið skráðir úr SF innan þess frests sem prófkjörsnefndin í NA-kjördæmi hefur tekið sér. Kannski fáum við grundvöll til að gera betur næst – en það er að mínu mati algerlega óviðunandi að Samfylkingin gangi til prófkjörs í annan tíma með mismunandi form í hinum ýmsu kjördæmum.