Myndbirtingar og langir listar stuðningsmanna – í auglýsingum frambjóðenda í prófkjörum – eru vísasta leiðin til að breiða yfir málefni og hugmyndagrundvöll frambjóðenda og flokka. Þannig eflist um leið klíkumyndun og ómálefnalegir flokkadrættir – og með sama hætti hverfa í skuggann öll helstu málefni sem flokkarnir sjálfir vilja standa fyrir.
Ég hef skannað kosningaauglýsingar, kynningarefni og heimasíður margra frambjóðenda Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins núna í aðdraganda prófkjöranna. Þar er þetta sorglega augljóst og þeir frambjóðendur sem leggja upp málefni stinga frekar í stúf heldur en að unnt sé að lesa málefnalegan ágreining eða blæbrigði úr áherslum í kynningarefni. Flestir sitjandi forðast að nefna málefni – líka málefni flokksins síns.
Þarna var ég geinilega á vitlausu róli: ég kappkostaði að koma fram með hugmyndir og reyna útskýra um leið fyrir hvers konar pólitík og framtíðarsýn ég vildi standa. Sumir ágætir meðframbjóðendur mínir forðuðust hins vegar að mestu að kynna pólitík – en sóttu sér liðsafnað “gegn mér og mínum áherslum” og þeim öðrum sem vildu rugga bátnum. Það skilaði árangri fyrir sitjandi þingmenn og nánast allt virðist nú óbreytt í framboðinu. En skyldi það nú endilega vera svo þegar grannt er skoðað? (Meira um það síðar.)