Málefnaskráin mín fékk góðar viðtökur í öllum hópum meira og minna; - ég setti meira að segja fram nokkrar nýjar hugmyndir sem sumar hafa vakið talsverða athygli. Nefni nokkrar sem hafa fengið viðbrögð.
Ø Sjóbjörgunarsveit eða viðbragðsteymi vegna umferðar og öryggis Norðurhafa sem væri staðsett á Siglufirði.
Ø Þyrla á Akureyrarflugvelli – til björgunarstarfa – í samstarfi við Sjóbjörgunarsveit Norðursvæðisins.
Ø Austurstjarnan (“Austurkrossinn”) sem eru jarðgöng sem tengja Neskaupstað/Eskifjörð annars vegar við Egilsstaði hins vegar og bjóða um leið upp á tengingu við Seyðisfjörð (um Mjóafjörð) með tilheyrandi vetraröryggi.
Ø Áframhaldandi og endurnýjuð uppbygging FSA sem fullkomins varasjúkrahúss og sérgreinasjúkrahúss á Akureyri – með auknu sjálfstæði (sem sjálfseignarstofnun) og um leið möguleikum á að sinna fjölþjóðlegum samningsverkefnum.
Ø Skörp aðkoma stjórnvalda og viðskiptalífsins að uppbyggingu þekkingarþorps við Háskólann á Akureyri.
Ø Ég lagði upp hugmynd um sveigjanleg opinber störf – eða störf án staðsetningar (að Danskri fyrirmynd) og auk þess skarpan fókus á staðsetningu ríkisverkefna og stofnana í nærbýli við Háskólann á Akureyri. Svo skemmtilega vildi til að rétt í kjölfarið lagði Samfylkingin fram svipaða hugmynd á Alþingi – en þingmenn kjördæmisins tóku ekki undir með mér eitt einasta gramm í þessu máli (eru kannski beinlínis á móti því að flytja störf og stofnanir ríkisins út fyrir Reykjavík eins og eisntakir forystumenn flokksins hafa tjáð).
Ø Flugvöllurinn á Akureyri hefur ekki átt neinn baráttumann í röðum þingmanna – þvert á móti hefur smávægilegum lagfæringum aftur og aftur verið slegið á frest með samþykki þeirra og enn hefur ekki þokast varðandi fjármögnun og framkvæmdir til að koma á reglubundnu áætlunarflugi með fólk og fragt allan ársins hring. Séu einhverjar flug-tæknilegar hindranir þá þarf að leiða það í ljós og einhenda sér í að laga það með tilheyrandi tæknibúnaði – eða þá í versta falli að fjárfesta í flugvelli annars staðar sem getur þjónustað NA-land. Hlægilegt að Halldór Blöndal láti núna eins og hann hafi verið að berjast fyrir málefnum Akureyrarflugvallar á Alþingi; heyrðuð þið í kallgreyinu? Það er líka gömul frétt að KEA hafi boðið upp á fjármögnun á framkvæmdinni í samstarfi viða Akureyrarbæ - en gott að Kristján Þór er orðinn liðsmaður verkefnisins :-)
Ø Stórskipahöfn fyrir NV/NA-siglingar og inn-/útflutningssiglingar frá NA-landi vati ég máls á. Þar er mikilvægur hlekkur fyrir sjálfbæra þróun viðskipta og efnahagslífsins í landshlutanum.
Ø Ég lagði upp framtíðarsýn mennta og nýsköpunar og nýrra atvinnuhátta þar sem sérhæfð þjónusta og nýsköpun og hátækni skapi virðisauka framtíðarinnar. Fékk ég undirtektir þingmannanna? Nei ertu frá þér …. Þeir eru enn að mæra stóriðjuna sem einu lausn og tala þannig úr takti við stefnumótun flokksins.
Ø Ég lagði upp vinkil sem kallaði eftir víðtækri sáttargerð um umhverfismál; þar sem náttúrvernd fengi víðtækt svigrúm um leið og framkvæmdir og umhverfisvæn nýting orkugjafa verður afmörkuð við einstök svæði. Ég var þarna í góðum samhljómi við stefnumótun Samfylkingarinnar. Á sama tíma lofsyngja sitjandi þingmenn mistök og yfirgang risaframkvæmdanna – sem hafa átt þátt í að kljúfa samfélag okkar í deilur og hafa skapað efnahagslífinu og öðru atvinnulífi á landsbyggðinni verulega búsifjar.
Ø Ég gekk beint til verks í tillögugerð í skattamálum og tilgreindi þá þætti sem ég vildi taka út og breyta. Matarskattinn og skatta á barnavörur vil ég út – ég vil hætta skerðingu bóta vegna vinnutekna aldraðra og öryrkja og ég vil sjá að öll börn njóti sömu barnabóta og sama fæðingarorlofs - óháð fyrri tekjum foreldranna. Skattleysismörkin til verðmætis á móts við það sem var í gildi 1990-1994 – eða nærri 130.000 – sem væri innleitt í skörpum skrefum á tvennum fjárlögum. Mér kæmi það skemmtilega á óvart ef einhver kjósandi á NA-landi mundi geta tilgreint afstöðu sumra þingmanna í þessum efnum – og ég veit að það þarf að leita með ljósi í gögnum einstakra frambjóðenda í prófkjörum síðustu mánaða til að vita hvort þeir hafa afstöðu í málum sem þessum.
Ø Auk þess sem ég hafði frumkvæði að því að setja Vaðlaheiðargöng á dagskrána í kosningabaráttunni – en eins og allir vita hafa sitjandi þingmenn kjördæmisins allir sameinast um að tefja fyrir þeirri framkvæmd þannig að hún er ekki enn á formlegri dagskrá Vegargerðarinnar og samgönguráðuneytisins. (Það verður því meira en ótrúverðugt þegar sitjandi þingmenn (allra flokka) fara nú að tala um að Vaðlaheiðargöng séu á næsta leyti.)
Ø Ég ræddi stjórnarskrármál, þjóðaratkvæði og auðlindamálin. Ég var einn um það í prófkjörinu hér á NA-landi.
Ø Ég benti á heilbrigðislögin, ráðherraofbeldið og miðstýringuna sem er að lama alla eðlilega þróun og útilokar áhrif fagfólks og heimamanna.Ø Ég ræddi um niðurskurð menntunar á landsbyggðinni – þar sem “reiknitölur” ráðuneytisins afneita heilbrigðir skynsemi og útiloka áhrif vitrænnar póltíkur.
Ø Ég lagði upp gögn sem vísa á þann gríðarlega fjámunaflutning ríkisvaldsins frá landsbyggðinni – í gegn um skatta og gjöld – og þá staðreynd að ríkisvaldið skilar ekki til baka þjónustu og veltu í störfum í neinu réttlátu hlutfalli við dreifingu íbúanna um landið; - dæmi um þetta er framboð háskólaplássa á landsbyggðinni versus Reykjavík og sama má segja um heilbrigðisþjónustuna. Reiknitala framhaldsskólanna dregur ennþá meira af menntunartilboðum í iðngreinum og starfsnámi – til Reykjavíkur og t.d. VMA missir tugi milljóna úr sínum rekstri.
Ø Málefni Háskólans á Akureyri hef ég endurtekið dregið inn í umræðuna - og bent á það dæmalausa einelti sem Þorgerður Katrín og Sjálfstæðisflokkurinn reka gegn skólanum og stjórnendum hans og nemendum. Þær upplýsingar sem ég hef birt á heimasíðunni minni www.bensi.is hafa vakið ahygli og jákvæð viðbrögð margra (amk. utan Samfylkingarinnar). Reyndar eru enn að koma í ljós margvísleg önnur gögn sem styðja það sjónarmið sem ég hef dregið fram. Sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar hafa varla æmt til varnar Háskólanum – enda hann ekki við enda Héðinsfjarðarganganna eða á svæði Kárahnjúka-álversins í Fjarðabyggð.
Ø Ég lagði upp hugmyndir um uppstokkun ráðuneyta með áherslu á sérhæfða þjónustu og stórelflingu vísinda, mennta og nýsköpunar – og endurspeglun á gerbreyttum atvinnuháttum. Ég lagði upp hugmynd um að við færum að fordæmi nágranna – og byggðum upp vaxtarumhverfi fyrir hátækni og rannsóknir og þróunarstarf – sem gæti staðið undir verðmætum störfum okkar barna.
Ø Ég skrifaði grein og áskorun varðandi stöðu innflytjenda á vinnumarkaði - og hvernig þeir væru etv. misnotaðir til að grafa undan mikilvægum kjörum og réttindum íslensks verkafólks. Það var löngu áður en Magnús Þór ákvað að ráðast gegn tilteknum félögum sínum í Frjálslynda-flokknum.
Ø Ég setti púður á að skoða rekstrarskilyrði atvinnugreina – einkum á landsbyggðinni. Benti meðal annars á að ferðaþjónustan og samkeppnisiðnaðurinn era ð sligast undan hágengi og vaxtaokri- sem í raun virkar sem landsbyggðarskattur. Sjávarútvegurinn væri í alvarlegri kreppu ef ekki kæmi til hærri verð en nokkru sinni á mikilvægustu mörkuðum.
Var þessu öllu hafnað? Ég held alls ekki - en það bendir þá einmitt til þess að mér hafi mistekist að kynna málin.