Dalsbrautin verður að koma
Nýlegir vatnavextir á Akureyri náðu í gegn um fjölmiðlana – þrátt fyrir önnur og ennþá háskalegri atvik þessa síðustu daga fyrir jólin. Flóðin í Grenilundinum voru stórfelld og mikilvægt að við drögum af þeim lærdóma. Akureyrarbær hefur áður staðið frammi fyrir bráðri leysingu á Suðurbrekkunni – og flóðum sem hafa endað með tjóni og skaðabótamálum. Ekkert hefur hins vegar síðan verið gert með traustum hætti til að koma í veg fyrir að skaði hljótist af aðstæðum sem þessum. Dæmin staðfesta það og þó aðstæður hafi að sumu leyti verið ýktar þarna um daginn þá þarf ekki nema að slá máli á það svæði sem hefur ekkert opið afrennsli til að sjá að slíkt muni endurtaka sig – ef ekkert verður að gert. Þetta ástand má ekki geta edurtekið sig – og það hlýtur því að vera bráð skylda tæknideildar bæjarins og skipulagsnefndar og síðan bæjarstjórnar að leysa þetta afrennslismál varanlega.
Þessi hörmungaruppákoma knýr yfirvöld til aðgerða og ekki kemur til greina að láta einstaka hávaðaseggi kæfa málefnalega umræðu.
Dalsbrautin – er á skipulaginu
Dalsbrautinni hefur lengi verið frestað og sannast að segja hefur skort á málefnalega og hófstemmda orðræðu um málið. Nokkrir hafa farið fram með ógeðfellda viðmiðun og saka fólk um að vilja fórna börnum fyrir umferð bíla – jafnvel bókstaflega. Aðrir hafa lýst því að þeir vilji ekki fá umferðarþunga götu meðfram sínu húsi – jafnvel þó gert hafi verið ráð fyrir Dalsbraut í skipulagi um áratugaskeið. Íbúar og hagsmunaaðilar sem vilja þróun Naustahverfis sem hagstæðasta og um leið vilja létta á Neðri-Brekkunni – hafa látið undan eða ekki sótt málið með nægilegri ákveðni fram að þessu. Sem fyrrverandi skólastjóri í Brekkuskólahverfinu (Barnaskóla Akureyrar) get ég játað að það hefur sýnt sig að hafa verið röng ákvörðun sem við stjórnendur skólans og forráðamenn foreldrafélags tókum að fara ekki út í gagn-söfnun undirskrifta til mótvægis við þær undirskriftir sem fólkið í Lundarskólahverfinu beitti í mótmælum við Dalsbraut. Engum ætti að dyljast að það eru ótvíræðir hagsmunir Naustahverfisins og byggðarinnar neðan Mýrarvegar að Dalsbraut verði byggð – samkvæmt gildandi skipulagi – og það sem fyrst.
Gröfum götuna niður
Ekki getur maður glaðst yfir óförum og skaða – en hitt leyfi ég mér að binda vonir við að ábyrgðaraðilar skipulagsmála dragi lærdóm af uppákomunni og vindi bráðan bug að varanlegum úrbótum. Það kemur auðvitað ekki til greina að samþykkja flóðahættu á Efri-Brekkunni sunnanverðri á Akureyri. Að mínu mati kunna þannig að hafa orðið hér nokkur tímamót í skipulagsmálum Akureyrar með þessum tjónum og vandræðastandi vegna leysinga.
Verkfræðingur, sem þekkir vel til hér á Akureyri og hefur unnið að ýmsum verkefnum Akureyrarbæjar, metur málið þannig að ekki sé mögulegt að ræsa yfirborðsvatn í leysingum með öruggum hætti af svæðinu sunnan og ofan byggðar – með því að setja það í lokað ræsi. Þessi fagmaður bendir hins vegar á að það væri auðvelt að nota Dalsbrautina og lögn hennar til að leysa málið með endanlegum hætti. Til þess þarf hins vegar að leggja götuna og grafa hana niður um amk. 3 m og hafa nokkuð vítt svæði sem getur tekið við flóðrennsli meðfram götunni. Í allra verstu aðstæðum getur þá gatan sjálf orðið yfirfall – einhverja klukkutíma á meðan æstasta leysingin rennur fram. Með því að grafa götuna niður og girða af væri jafnframt komið til móts við eðlilegar kröfur um að koma í veg fyrir slysagildrur í hverfinu – og um leið dregið verulega úr hávaðamengun. Lundarskólaleiðin og aðgengi að íþróttasvæði KA þarf að vera örugg til frambúðar. Slíku má ná með því að sökkva Dalsbrautinni – en um leið þarf að tryggja leiðina úr Gerðahverfinu með brú eða undirgöngum á Þingvallastrætið þannig að börnin geti búið við viðunandi öryggi á sínum daglegu ferðum. Með sama hætti þarf að friða Skógarlundinn fyrir umferðarálagi – einkum vegna gegnumaksturs til VMA.
Sameinumst um góðar lausnir
Held að við ættum að geta sameinast um að vinna að lausn – sem þjónar Naustahverfinu og umferðarþörfum bæjarins í heild –um leið og við tryggjum öryggi allra barna í Lundarskólahverfinu til frambúðar. Umhverfismatið sem hlýtur að verða að leggja á Miðhúsabrautina getur ekki horft framhjá þessum mikilvægu hlutum.
Vonandi hefur mér tekist að leggja þetta mál upp með nægilega hógværum hætti til þess að einhverjir fleiri komi til með að ræða málið útfrá góðum rökum. Skora ég á alla sem vilja tjá sig um þessa hugsun í framhaldinu að halda aftur af stóru orðunum en keppast þess í stað við að leggja gott eitt til. Þannig fögnum við best nýju ári á Akureyri.