Benedikt Sigurðarson 9.febrúar 2011
Síðustu missirin hefur Ísland verið undirlagt af Hruninu stóra og eftir-Hruninu. Hrunið var samt ekki neitt sem varð bara sisvona á einum degi - - heldur ferli sem átti sér langan aðdraganda og niðurleiðin hófst sennilega með Dönsku-kreppunni strax á árinu 2006 þegar grannt er skoðað.
Árin þar á undan - jafnvel áratugina allt frá 1960 - hafði verið að byggjast upp kúltúr vaxandi einstaklingshyggju og seinna einkagræðgi.
Þeir sem eru af eldri kynslóðinni hafa gott af því að rifja upp áróðursskrif Eyjólfs Konráðs Jónssonar sem var lengi ritstjóri Morgunblaðsins og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Eykon var faðir þeirrar hugmyndafræði að koma á "hluthafalýðræði" og viðskiptavæðingu þjóðfélagsins - þar sem samvinnufélögum og gagnkvæmum félögum (tryggingum og sparisjóðum) var ýtt til hliðar og gert erfitt fyrir og opinbert eignarhald eða sjálfseignarhald atvinnurekstrar var gert tortryggilegt og útmálað sem hið versta "sovét" . .
Pétur Blöndal hefur frá því snemma á 9 áratugnum verið háværastur trúboði markaðslausna og einkahyggju. Pétur fann upp hið áhrifamikla slagorð um "Fé án hirðis" og skoðanabræður hans komu illu orði á "latt kapítal" eða sofandi og arðlausa eign - eins og í kvóta og óráðstöfuðum auðlindum á landi og í jörðu.
Viðskiptaráð Íslands rak um árabil gegndarlausan áróður fyrir viðskiptavæðingu og markaðshyggju - jafnvel "Dólga-Frjálshyggju" þar sem öllum formum af samvinnurekstri, opinberu eignarhaldi og rekstri í almannþágu var fundið allt til foráttu. Lesa má um þetta trúboð Viðskiptaráðs á heimasíðu ráðsins nánar fyrir alla sem vilja rifja þessi ósköp upp.
Það er mat mitt að sem skipulögð samtök hafi Viðskiptaráð 'Islands reynst ótrúlega áhrifamikil og þannig beri ráðið flestum öðrum formlegum aðilum ríkari ábyrgð á Hruninu og skelfingum þess en etv. nokkur annar aðili. Sjálfstæðisflokkurinn er mögulega annar aðili - sem fóstraði Eykon og Pblö og alla hina stromsveitar-hryðjuverkamenn Frjálshyggjunnar - sem getur þá gert tilkall til að bera jafn-þynga ábyrgð og Viðskiptaráðið.
Þessir tveir aðilar verðskulda það auðvitað að samfélag Eftir-Hrunsins meðhöndli þá í samræmi við þetta. Í hinni aftur-reistu Austur-Evrópu eftir kommúnísmann voru meðlimir leppstjórna kommúnnistafliokkanna og kúgunarverkfæraverkfæra þeirra teknir til bæna - - þeir ýmist þvingaðir til að biðjast afsökunar og vægðar eða þeir dæmdir og sviptir þeim forréttindum sem þeir höfðu hrifsað til í skjóli valdbeitingar og ranginda.
Óhjákvæmilegt er að Ísland framtíðarinnar krefjist ábyrgðar Sjálfstæðisflokksins og Viðskiptaráðs Íslands og annarra sambærilega áhrifamikilla aðila. Aðila sem lögðu stræstan grunn að Hruninu stóra og þeim augljósu glæpaverkum sem framin voru í skjóli stefnu stjórnvalda, með beinni aðild stjórnvalda og eftirlitsstofnana og síðan um gervallt fjármálakerfið.
Ekkert af Þeim illvirkjum sem lögðu Ísland á hliðina hefði hins vegar verið mögulegt ef ekki hefði komið til hjarðhegðu landans. Hjarðhegðun sem síbylja flölmiðlanna og fjölmennra háskólastétta byggði undir.
Lögfræðin á Íslandi hefur lengi verið að þróast sem býsna mikið "sér-íslensk" - kennd og lærð innan Háskóla Íslands og þróuð af gríðarlega fámennum og samheldnum hópum eða klíkum. þessi Sér-íslenska-lögfræði hefur orðið afar valdamikil og hefur gegnsýrt allt stjórnmálakerfi Sjálfstæðisflokksins og áhrifin í stjórnkerfinu eru langt út fyrir lögreglu og dómstóla. Orðræðuhefð sér-íslensku lögfræðinnar hefur tekið yfir ákveðin svvið í stjórnmálum og viðskiptum - og ráðið með því mjög miklu um lengri tímabil - - oftast háð því að Sjálfstæðisflokkurinn (með sínum lögfræði-sveitum) hefur ráðið fyrir ríkisstjórn og lengstum líka Borgarstjórn Reykjavíkur og stórum sveitarfélögum öðrum.
Nú komast menn ekki lönd né strönd í átt að nýju Íslandi fyrir sérkennilegu og órökstuddu ofurvaldi þessarra lögfræði sem úrskurðar kosningar til stjórnlagaþings ógildar - þvert á rökleiðslu og fyrirliggjandi gögn - og telur sig ekki þurfa að rannsaka eða rökstyðja úrskurðinn. Bara að Hæstiréttur hafi vald til að "ákveða" og úrskurða.
Hin háskólagreinin sem hefur gengið yfir okkur á síðustu árum meira en góðu hófi gegnir eru hagfræðingar og viðskiptafræðingar. Flestir þeirra hafa væntanlega sameiginlegan bakgrunn í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands en þeir sem sótt hafa framhaldsmenntun hafa býsna fjölbreytta snertifleti í Ameríku og Evrópu - samt líklega langflestir í enskumælandi háskóla-hefð.
Álitsgjafarnir voru dregnir fram til að spá og spekuléra um hlutabréfaverð og líklega þróun vaxta og verðbólgu - - og fabúleruðu í hverjum þættinum á fætur öðrum - - í fjölmiðlum. Ráðlögðu kaup og sölur - en enginn efaðist um að "markaðurinn" væri kominn til að vera - - en trúarsetningar markaðarins sameiginlegar öllumm þessum fjölda.
Nú hefur Hrunið sýnt okkur fram á að flestir þessi ágætu viðskipta- og hagfræðingar höfðu meira og minna rangt fyrir sér - og sáu ekki fyrir þá þróun sem leiddi okkur í Hrunið - og auðvitað af því að það var þeirra eigin hagfræðis em brást. Vinur minn ágætur sem fylgist mikið með fjölmiðlum hefur tekið saman áhugaverð tölfræði um það ofuráhrif og þá ótrúlegu tíðni sem sumir úr þessum hópi áttu í fjölmiðlaljósið árin frá 1990
Við erum sammála um að heilbrigð skynsemi varð meira og minna undir í fjölmiðlaumfjöllun síðustu áratuga þegar fjallað var um viðskipti og efnahagsmálin. Orðræðan var undirlögð af hagfræðirugli og einsýnu óráðshjali verðbréfaprangara. Þjóðfélagið varð gegnsýrt af "viðskiptavæðingunni" - þar sem allir hugðust græða á náunganum og eilífðarvél efnahagslífsins átti að ganga fyrir því eldsneyti einu sem "kaup og sala á hlutabréfum" og aðrir fjármálagerningar lögðu til.
Í öllum farsælum samfélögum takast háskólagreinar á við það mikilvæga verkefni að ná utan um breytt tæknistig, breytt viðhorf og kröfur í samskiptum og ekki síst að aðlaga sín fræði og iðkun að siðferði samtímans og þekkingu.
Fábreytt fjölmiðlun á Íslandi hefur þau einkenni að þar étur hver eftir öðrum - fjölmiðlamenn hafa allt of margir vanið sig á að taka helst kollega sína til viðtals í fréttum og spjalli - og með því er "hjarðhegðunin" og einsýnin alveg gulltryggð. Nýir fjölmiðlar á vefnum hafa enga tilburði til sjálfstæðrar efnisöflunar - í besta falli er kokkuð upp ný fyrirsögn á fréttir annarra miðla sem eru þá linkaðar á forsíðunni.
Eftir Hrun halda fjölmiðlarnir áfram að taka sömu "sér-íslensku lagatæknana" í viðtöl - með sömu hótfyndninni og útúrsnúningana. Hæstiréttur sem hefur orðið uppvís að því að kveða upp dóma og úrskurði sem fara gegn öllum þekktum fordæmum og dóm sem verðlaunar þann brotlega en refsar brotaþola - eins og ógilding stjórnlagþingskosninganna og vaxtadómurinn í gengislánamálum eru til dæmis um - sá Hæstiréttur er nánast ekki vefengdur nema af leikmönnum sem sleppa inn á milli í einn og einn fjölmiðil.
Eftir-Hrun halda sömu álitsgjafarnir úr hópi hagfræðinga og viðskiptafræðinga áfram að geypa og gapa - og hafa opinn aðgang að fjölmiðlum. Þessir einstaklingar eru meira að segja spurðir aftur og aftur út í pólitísk úrlausnarefni - þannig að fjölmiðlarnir skapa almenningi þá tilfinningu að pólitíkusar eigi auðvitað að fara eftir því sem hagfræðignarnir segja.
Hagfræðingur sem hafði ekkert vit á því sem var að gerast fyrir Hrun og fram að Hruni og í gegn um Hrun - hann hefur heldur ekkert nothæft vit á því sem þarf að gera og verður að gera eftir Hrun.
Sama er að segja um lögfræðina: sér-íslenska lögfræðin lagði grunn að þeirri umgjörð sem gerði vafasömum viðskiptajöfrum og illa siðaðri pólitík og stjórnsýslu kleift að ræna samfélagið allt og leggja efnahag meirihluta þjóðarinnar varanlega í rúst. Þessi sama lögfræði er ónothæf til að leggja línur um þá hreinsun og þá endurreisn sem nauðsynleg er þannig að hér geti risið Nýtt og betra Ísland.
Lögfræðin sem ekki var nothæf í Baugsmálum - er ekki heldur nothæf í Landsdómsákærunni gagnvart fv. forsætisráðherra - - og getur ekki stöðvað snjóbolta-framvindu hinnar illa grunnuðu ákæru Alþingis í 9-menningamálinu - sú lögfræði er ekki að þjóna sínu samfélagslega hlutverki - - hún stenst heldur ekki sjálfsögð akademísk próf.
Vandamálið er inngróið í því fólki og þeim kúltúr sem innan greinarinnar ríkir og gegnsýrir orðræðusvið hennar. Fólkið er ekki fært um að endurnýja sinn skilning eða takast á við breyttan veruleika - - og þannig ekki fært um að vinna sér og þjóðinni það traust sem verður að vera til staðar þannig samheldni samfélagsins geti staðist til lengri tíma.
Við verðum því að víkja því fólki sem skipaði hinar ónýtu framlínusveitir háskólagreinanna til hliðar og hleypa öðrum að.
Alveg með sama hætti og við þurfum að víkja til hliðar ónýtri framlínu stjórnmála og samanlagðri stjórnendasveit eftirlitsstofnana og ráðuneyta.
Við verðum líka að skapa forsendur fyrir kynslóðaskiptum í viðskiptalífinu í fyrrtækjum og fjármálastofnunum. Við verðum að skáka til hliðar þeim glæpamenguðu og miðvirku sem þar eru enn að hygla vinum sínum sem rændu kerfið. Við verðum að ýta út hinum alræmdu frekjudöllum og yfirgangsseggjum sem troðið hafa hvað mest á almannarétti og auðlindum og eru enn að í framlínusveitum atvinnulífs og viðskipta.
Ekki til að refsa þessu fólki - eða hefna fyrir eitthvað sem er orðið og reyndist óumflýjanlegt - heldur til að greiða leið fyrir framtíð ungra Íslandinga sem verðskulda það að afglöp fyrri kynslóða verði ekki hengd um háls þeirra um alla ókomna framtíð.