Þegar Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum í heiminum árið 1980 vakti það mikla athygli um allan heim.
Henni var boðið í heimsóknir til margra landa og fljótt varð til sú hugmynd að nýta frægð hennar og vinsældir til að kynna íslenska menningu og atvinnulíf og um leið að liðka fyrir viðskiptum íslenskra fyrirtækja í öðrum löndum.
Núverandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, hélt sömu stefnu en honum fannst sá háttur sem hafður var á í tíð Vigdísar ekki nógu markvisst.
730 Ólafur sá tækifæri fyrir forsetaembættið í að beita sér í þágu aukinna viðskipta. Hann hefur átt frumkvæði að því að opna íslenskum fyrirtækjum leið til ýmissa landa, t.d. Indlands og Katar. Forsetinn hefur iðulega tekið með sér mjög stórar viðskiptanefndir, allt að eitt hundrað manns. Eftir aldamótin 2000 tók hann iðulega þátt í fundum eða hélt fyrirlestra þar sem hann þróaði smátt og smátt kenningu sína um hlutverk og tækifæri smáríkja og sérstöðu íslenskra fyrirtækja byggða á séríslenskum eiginleikum ættuðum frá víkingum. Hann þáði margsinnis boð útrásarfyrirtækja um að vera við opnun nýrra útibúa eða höfuðstöðva erlendis, flutti erindi á viðskiptaþingum sem skipulögð voru af bönkunum og skrifaði fjölda bréfa í þágu fyrirtækja og einstaklinga til erlendra viðskiptamanna eða forystumanna þjóða. Þótt forsetinn greiði almennt fyrir íslensku viðskiptalífi, samrýmist það illa hlutverki þjóðhöfðingja að hann gangi beinlínis erinda tiltekinna fyrirtækja eða einstakra fjárfesta.
(Skýrsla RNA 8. bindi, bls 170; höfundar, Vilhjálmur Árnason, Kristín Ástgeirsdóttir og Salvör Nordal)
"Í nefndina voru skipuð þau Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands sem er formaður vinnuhópsins, Salvör Nordal, heimspekingur og forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur og framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu.
Vinna hópsins stóð yfir í um það bil 12 mánuði og hefur Vilhjálmur verið í 60% starfi, Salvör í 40% starfi og Kristín í 25% starfi á tímabilinu. Vinnuhópurinn skipti með sér verkum
en meðlimir hans bera sameiginlega ábyrgð á öllum niðurstöðum skýrslunnar. Hópurinn hefur unnið í nánu samráði við rannsóknarnefnd Alþingis eins og lögin kveða á um.