Tónlistarveisla í Akureyrarkirkju

Regla Musterisriddara fékk KEA til samstarfs um að bjóða til tónlistarveislu í Akureyrarkirkju í gærkvöldi.  Listamenn af heimavelli okkar hér á Akureyri gáfu vinnu sína við tónleikana.  Þarna voru saman komnir gamalreyndir jaxlar með þá tenóran Óskar Pétursson og Örn Viðar Birgisson ásamt Stefáni Birgissyni - og svo bráðungir krakkar.    Karlakór Akureyrar Geysir virkar líflegur undir stjórn Michael Jóns Clarke - og svo stúlknakór Akureyrarkirkju undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar. 

Þessir krakkar sem komu fram sem einsöngvarar voru eiginlega alveg frábærir - og alveg klárt að við munum vænta þess að heyra meira frá þeim í framtíðinni.   Kristján Edelstein og Eyþóri Ingi höfðu veg og vanda af undirleik og PKK greip í spil.  Frábær skemmtun fyrir fullu húsi.

Það er alveg ástæða til þess að KEA og aðrir öflugir aðilar hugleiði það að bjóða aftur til slíkrar veislu - og þá endilega í Höllinni eða þar sem miklu fleiri fá notið.   Þá væri líka allt í lagi að greiða listafólkinu hóflega fyrir sinn þátt - það er mikilvægt að virða þeirra vinnu til verðs því okkur hinum er þannig sýndur ákveðinn sómi í leiðinni.   Takk fyrir mig ágætu listamenn og frumkvæðisaðilar.