Sé ekki að neitt bendi til þess að meirihluti hafi verið staðfestur að baki sitjandi ríkisstjórn á þeim dögum sem liðið hafa frá þjóðaratkvæðagreiðslunni.
VG segist styðja stjórnina en skilyrðin flögra yfir - enda ekkert á borðinu um það að efnisleg lausn liggi fyrir á ICESAVE - eða öðrum málum.
Jóhanna og Steingrímur eru þannig ekki að leysa stjórnarkreppuna - með þingmönnum VG - og Jóhanna er heldur ekki að ná sambandi yfir til annarra flokka. Hluti af vandamálinu liggur innan VG og í samskiptum formanns þess flokks við eigið fólk og hvernig hann hefur misnotað það endurtekna svigrúm sem Samfylkingin hefur veitt honum. Annar hluti af vandamálinu liggur í því að Jóhanna og Steingrímur geta tæpast talað við formenn Sjálfstæðisflokks og þingmenn hreyfingarinnar - og alls ekki við Sigmund Davíð.
Sigmundur Davíð er að líkindum orðinn vandamál í Framsóknarflokknum - - sem þarf að ganga yfir á þeim bæ. Hann er hins vegar ein af staðreyndum stjórnmálalífsins í augnablikinu.
Hrunskýrslan vofir yfir og stressar alla stjórnmálamenn meira og minna. Sjálfstæðisflokkurinn virðist hugsa sér að gera Geir Haarde og Árna Matt að blórabögglum fyrir þátt flokksins í hruninu á síðustu metrum og í gegn um skelfingarnar. Í Samfylkingunni hafa áhrifamiklir aðilar greinilega hugsað sér að freista þess að skilja Ingibjörgu Sólrúnu eftir með "Svarta-Pétur" fyrir hönd flokksins og fórna kannski Björgvin G Sigurðssyni ef það reyndist óumflýjanlegt. Hvort tveggja viðhorfið kann að reynast háskalegt fyrir flokkana - og skilja eftir alvarleg sár og enn meira vantraust innan og utan valdastofnana.
Staðan er að mínu mati eftirfarandi;
- steingrímur og Jóhanna eru ekki fær um að leiða saman meirihluta - til að ná lyktum í ICESAVE - með óbreyttu sniði. Þau þurfa því að stíga til hliðar og aðrir að taka við.
- Formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru ekki færir til að kalla sína flokka að jákvæðri vinnslu með Samfylkingu og VG - án þess að ríkisstjórn Jóhönnu biðjist lausnar.
- Kosningar núna - í skýrslufárinu - og með allt óklárað eru óðs manns æði - sem gerir allt sem er slæmt bara verra.
- Allir stjórnmálaflokkarnir þurfa einhverja mánuði til að endurskipuleggja sína forystu, kjósa nýja formenn og varaformenn og stilla upp nýju liði - með umtalsverðum áhafnarskiptum. Mörg ný andlit í framlínu stjórnmálanna eru alger forsenda þess að almenningur verði reiðubúinn að setja traust sitt á stjórnmálastéttina - smám saman á næstu missirum.
- ICESAVE verður að leysa - og ljúka samningum og fjármögnun lánalína frá vinveittum löndum.
- Endurskipulagning skulda hjá fyrirtækjum og fjölskyldum þarf að ganga með miklu skipulagðari hætti - og almennum aðgerðum - og lögbinda verður bætta réttarstöðu lántakenda og loka þarf gjaldþrotalögum með mannvirðingu að leiðarljósi.
- Stjórnlagaþing, stjórnarskrárbreytingar, persónukjör og sjálfstæði dómstóla verður að fá áfanga
Þingmannastjórn: sem væri borin uppi af Samfylkingunni - og starfaði að afmörkuðum verkefnum fram á haust: - er sá möguleiki sem vert er að skoða. Þá þurfa allir formenn flokkanna að víkja til hliðar - og mögulega varaformenn einnig. Þingmenn úr öllum flokkum kynnu að geta myndað vopnahlé og gert bandalag - um þinglega vinnslu afmarkaðra mála - og ákveðið nýjar kosningar að tíma liðnum. Kosningadagur gæti þess vegna verið ákveðinn fyrirfram t.d. í október 2010.
Það er ekki einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu að formenn flokka víki til hliðar til að leysa ágreining - og leysa stjórnarkreppu.
Það er ekki einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu að formenn flokka víki til hliðar til að leysa ágreining - og leysa stjórnarkreppu.
Ólafur Thors og Hermann Jónasson sátu ekki í ríkisstjórnum undir forsæti hvers annars eftir "þjóðstjórnina" 1942 - en þingmaðurinn Steingrímur Steinþórsson var forsætisráðherra 50-53. Hermann Jónasson hvarf úr ríkisstjórninni eftir að Ólafur Thors tók við forsætinu 1953-1956.
Ólafur Thors formaður Sjálfstæðisflokksins var heldur ekki í Stefaníu (1947-1949) - og ekki Hermann Jónasson formaður Framsóknarfl heldur (leiðrétting bætt inn 12.03 2010 e. ábendingu Jóns Sig).
Gunnar Thoroddsen leysti stjórnarkreppu 1980 - með því að mynda ríkisstjórn með Framsókn og Alþýðubandalagi - og nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Og Þorsteinn Pálsson var sem formaður Sjálfstæðisfl. um tíma utan ríkisstjórnar.
Kreppur þessa tíma sem hér er vísað til hafa líklega verið miklu minni en sú kreppa sem nú stendur yfir.
Staðan núna er slæm - orðræðan ónothæf og Morfís-stællinn sem tekur sig alltaf upp aftur og aftur - er búinn að teyma formenn og lykilþingmenn í flokksbuxunum og með flokksgleraugun út í ófæru. Lengur verður ekki við unað.
Óhefðbundin nálgun er langlíklegust til árangurs í þessarri þröngu stöðu . Í því felast tækifærin svo vitnað sé til brýningar varaformanns Samfylkingarinnar www.dagur.is