Þingflokkurinn gagnrýndur

Össur fékk ofanígjöf

Á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ voru gefin skýr skilaboð til þingflokksins og sérstaklega til Össurar.    Skilaboðin eru algerlega samhljóma þeirri gagnrýni sem ég hef leyft mér að setja endurtekið í loftið og ég kom fram með í Silfri Egils fyrir tveimur vikum.     

Skilaboðin frá framlínufólki flokksins eru einföld;   Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður flokksins með yfirgnæfandi kosningu – eða nærri 70%.  Hún nýtur skýrt þess umboðs sem sýnir sig m.a.  í Reykjavík í nýafstöðnu prófkjöri.   Þingflokkurinn og sérstaklega Össur stillir sig ekki inn í þennan veruleika og sú stefnumótun flokksins sem fyrir liggur hefur ekki náð til kjósenda – vegna misvísunar í málflutningi þingmanna.  

Næturskrif og ábyrgðarlaust blogg – eflir flokkadrætti og dregur flokkinn niður.   Af því ber að láta.   Þetta kom skýrt fram í gegn um hópastarf. 

Ég var sem sagt ekki bara að tala máli almennra flokksmanna og kjósenda – í minni gagnrýni.   Mér virðist að 75-80% þessa framlínufólks hafi verið að segja það sama – meira og minna.     Ótrúlega margir úr þessum hópi hafa látið mig vita að þeir séu sammála – og hafa sagt mér það beint – bæði fyrir og eftir fundinn.     Ég trúði varla mínum eigin eyrum og augum – og ég varð eiginlega bæði vandræðalegur og glaður í senn.     

Nú reynir á þingflokkinn að hlusta - og  nú reynir verulega á sérstaka vini Össurar að hjálpa honum að draga lærdóm í stöðunni – eða leiða hann út af sviðinu ella.   

Össur yfirgaf fundinn og Margrét var á Stokkseyrinni

Össur gufaði upp fyrir miðjan dag og  flýtti sér til Stokkseyrar  - áður en skil frá hópastarfinu komu fram í almennum umræðum.   Sérkennilega írónískt að hann skyldi einmitt heimsækja bæinn þar sem Draugasafnið er orðið eitt helsta kennileitið.  (Kannski þar verði stofnuð deild fyrir pólitískar afturgöngur). 

Össur og Margrét Frímannsdóttir sýndu Samfylkingunni og undirbúningi fyrir kosningar að vori ótrúlega lítilsvirðingu með fjarveru sinni.  Þau staðfestu hins vegar um leið alla þá gagnrýni sem ég hef haldið fram – og þau “dissuðu” þennan hóp framlínufólksins í Samfylkingunni sem mætti á flokkstjórnarfundinn.     Það var kannski fyrirsjáanlegt að karlinn hefði ekki burði til að mæta þessum skýra undirtóni sem var að finna farveg.  Össur mun klárlega ekki njóta trausts Samfylkingarfólks eða annarra kjósenda sem gæti réttlætt að hann yrði ráðherraefni á næsta vori.  Þar hefur engin jákvæð breyting orðið á frá formanstíð hans. 

 

Nú er ekkert sem heitir félagar;  -  staðan er ljós og Samfylkingin og framtíðarþarfir samfélagsins þurfa að fá forganginn  - umfram brostnar vonir einstaklinga eða særðan metnað klíkuvinanna.  

 

Einn mesti styrkur Samfylkingarinnar er einmitt að geta boðið upp á Ingibjörgu Sólrúnu til að leiða ríkisstjórn – það er sérstaða og fyrirheit um nýja tíma betri stjórnmála. 

Ég get tekið þátt í því og lagt lið; – þó því miður ekki með fullu afli þar sem klíkustjórnmálin blokkeruðu leið mína inn í forystusveitina – í þessarri lotu póstkosninga í NA-kjördæmi.  

Kirkjugrið - ósamlyndið

Það var afar áhugavert að koma á fund flokksstjórnar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ   - en ég hef ekki áður setið fundi flokksins á landsvísu.     Kannski var það næstum “tragíkómískt” að halda fundinn í safnaðaheimili kirkjunnar; - vegna “Sturlungu-skrifanna” – sem auðvitað hlutu að koma upp á yfirborðið.   “En í kirkju skyldu allir halda griðum og ekki vegnir verða”…….   Svo vitnað sé í sögualdabókmenntir ----- eftir minni. 

Ég hef verið áhugamaður um breiða miðju og vinstripólitík frá ungum aldri; - held að ég hafi t.d. verið alveg sammála “Möðruvellingum” í Framsókn í eina tíð um það sem þá var kallað “sameining vinstrimanna” á Íslandi.    Vann að því á Húsavík á árununm 1976-1980 að sameina vinstri menn þar – og naut til þess m.a. samstarfs við Sigurjón Ben  tannlækni og nú Sjálfstæðismann.    

Skildi hins vegar við Alþýðubandalagið þegar Steingrímur J var  einn orðinn keisari hér á svæðinu og ekki rými fyrir skarpa hugsun og hugmyndir annarra þar í flokki. Hafði óstöðuga kosningahegðun um nokkurt skeið – og lengi setið uppi með þá tilfinningu sem Kristján Skerjafjarðarskáld tjáir;    “ég er maður á miðjum aldri, og mótfallinn þeim sem ég kaus,/ orðinn þreyttur á sköttum og skvaldri, og skuldugur upp fyrir haus……”  Jóhann Sigurðarson leikari söng þetta viðlag á plötu Geirmundar Valtýssonar um árið. 

Með stofnun Samfylkingarinnar voru menn að freista þess að leggja að baki tíma hjaðningarvíga og ósamlyndis á vinstri frá miðju.  Starfstími R-listans  hafði einnig gefið góðan tón frá 1994. Ég gerðist stofnfélagi í Samfylkingunni – en kaus að einbeita mér að mikilvægari samfélagsverkefnum á nærsvæðinu; einkum í gegn um Akureyrardeild KEA og síðan í stjórn KEA og sem stjórnarformaður árin 2002-2006 – eða þar til í maí sl. 

KEA – er samfélagstilraun

Sem formaður stjórnar Akureyrardeildar KEA og síðan sem formaður stjórnar KEA taldi ég með öllu óviðeigandi að ég væri á sama tíma að taka beinan þátt í einhverri tegund af flokkspólitík.  KEA hefur líka á síðustu árum verið breytt í almannafélag – sem getur verið samfélagsafl og verkfæri félagsmanna – með ólíkar stjórnmálaskoðanir – til að sækja bætt viðskiptakjör og einnig til að takast á við fjárfestingar sem hafa víðtæk hagræn áhrif í samfélaginu þar sem félagið starfar.   

Ánægjulegt að upplifa að sl. vor staðfestir skoðanakönnun IMG-Gallup að viðhorf til KEA hafa aldrei verið jákvæðari.   Við eigum núna gerbreytt félag; - KEA er ekki eins og í eina tíða – einhvers konar útibú frá Framsóknarflokknum – og það má aldrei verða hægt að misnota samvinnufélag með þeim hætti sem gerðist á einum tíma með SÍS og mörg kaupfélög.  

KEA þarf að njóta samstarfs við allar stjórnmálahreyfingar  - og því er ekki samþykkjanlegt að formaður stjórnar eða framkvæmdastjóri séu á sama tíma virkir í innsta hring einhverra stjórnmálflokka.   Sé stjórnarformaður KEA eða einhvers annars samvinnufélags ekki öflugur samfélagssinni þá er ekki líklegt að viðkomandi muni vinna sínu félagi gagn til lengri tíma – hann kann hins vegar að þjóna sínum persónulega metnaði eða þrengri klíkuhagsmunum – til skemmri tíma með því að negla sig inn í flokkspólitískt einkapot.

 

Framsóknarflokkurinn hefur yfirgefið félagshyggjuna

og skilur eftir fjölda fólks án pólitískrar þjónustu.   Þar á Samfylkingin sóknarfæri.

Það felast einnig mikil sóknarfæri í því að skilgreina viðmiðanir fyrir þjónusturekstur í formi sjálfseignarstofnana og samvinnufélaga - sem rekin eru án þess að draga fjármagn út úr rekstri.    Þar þarf að verða til valkostur gegn hagnaðardrifinni einkavæðingu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarmanna.   Græðgi er ekki góður leiðarvísir fyrir hagfellda þjónustu á sviði menntunar, heilsugæslu og öldrunar svo dæmi séu tekin.   Dæmin frá USA, Bretlandi og Nýja Sjálandi eru til að varast og önnur lönd forðast að lenda í slíkri vitleysu sem einkarekstur til hagnaðar í þjónustu er.