Eru björgunarsveitirnar misnotaðar?
Síðustu missirin hefur verið stöðugur niðurskurður hjá lögreglunni ekki síst á landsbyggðinni. Vegagerðin hefur takmarkað valdsvið til lokunar og þar er líka búið að einkavæða verkefni og skera niður í mannahaldi þannig að Hellisheiðin og Holtavörðuheiðin t.d. eru ekki með virka umferðarstýringu og vöktun af hálfu launaðra starfsmanna hins opinbera til að tryggja öryggi vegfarenda og halda vegum opnum meðan fært er. Virðist sem yfirvöld reiði sig í auknum mæli á björgunarsveitirnar til að stjórna umferð um fjallvegi og hættusvæði þegar veðurvá eða hamfarir ganga yfir.
Vegna samdráttar í sjúkrahúsþjónustu í dreifbýlinu hefur þörfin fyrir sjúkraflutninga yfir fjallvegi í öllum veðrum stóraukist. Björgunarsveitirnar hafa verið kvaddar til að fylgja sjúkrabílum og ferja sjúklinga við mjög erfiðar aðstæður og leggja sjálfboðaliðana í stórhættu.
Fjölgun ferðamanna á vetrartíma hefur orðið líkust sprengingu. Leggja þeir á alla vegi á misjafnlega vel útbúnum bílum og með alltof takmarkaða ferðaþekkingu og leiðbeiningar. Björgunarsveitir í fámennum byggðum hafa verið undir gríðarlegu álagai vegna vetrarvandræða (og sumarvandræða einnig) ferðamanna á öllum tímum sólarhrings og þótt ófærðarmerkingar, lokanir eða viðvaranir hafi verið í gildi. Rétta svarið við þeirri stöðu kann að vera að björgunarsveitirnar getir rekið þjónustu sem gjaldtekur og launar starfsmenn við björgun bíla – án þess að það leggist með óbættum þunga á sjálfboðaliðana.
Eldgos hafa gengið yfir landið frá 2010 með langstæðu hættuástandi og á stórum svæðum. Björgunarsveitir hafa verið undir ómennsku álagi yfir lengri tímabil – bæði á Suðurlandi vegna Eyjafjallajökuls og Grímsvatna og einnig á Norðurlandi vegna óróa í Bárðarbungu og gossins í Holuhrauni.
Í september 2012 gekk ægilegt stórviðri með slydduhríð og ísingu og fannfergi yfir Norðurland – með fjársköðum og raflínubilinum – og mjög erfiðum björgunarðagerðum á fé bænda frá Húnavatnssýslu og austur um Skagafjörð, Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur.
Veðurhamur hefur dunið yfir með óvenjulegri tíðni – og líklega ekki bara mánuðina desember 2014 og í janúar og febrúar 2015 - heldur yfir lengra tímabil.
Landhelgisgæslan verður auðvitað að fá betri tæki og sinna virkar björgunar og þjónustuhlutverki og þótt það sé „göfugt“ að leigja varðskipin fyrir tekjur til björgunarstarfa á Miðjarðarhafinu - þá er það ekki boðlegt að engin þyrla eða fastur viðbragðshópur með varðskipi sé við Norðurland allan ársins hring.
Við þessarri þróun verður að bregðast: það gengur ekki að misnota sjálfboðastarf og fórnfýsi björgunarsveitarfólksins – og gera út á að það sinni útköllum á nótt sem degi til að inna af hendi verkefni sem hið opinbera á raunverulega að sjá um.
Launaðir starfsmenn lögreglunnar eiga auðvitað að sinna umferðarstjórn og öryggisgæslu við allar fyrirsjáanlegar aðstæður. Almannavarnir verða að hafa svigrúm til að ráða starfsmenn til að sinna öryggisverkefnum þegar náttúruvá reynist langstæð og umfangsmikil. Á sama hátt eiga sjúkraflutningar hiklaust að vera verkefni ráðinna starfsmanna – og þá þarf slökkvulið að geta fjölgað launuðum starfsmönnum á vakt þegar veðurvá gerir flutninga sjúklinga yfir fjallvegina afar erfiða eða í aftakaveðrum.
Jafnframt þurfa opinberir aðilar og almenningur að leggja meiri peninga að mörkum til að auðvelda björgunarsveitunum að byggja upp sitt starf – efla nýliðaþjálfun og endurþjálfun björgunarmanna – og ekki síst að kosta viðhalda og endurnýjun tækjabúnaðar.
Við megum alls ekki misnota sjálfboðastarf þeirra þúsunda sem hafa lagt að mörkum og vilja halda því áfram af góðum hug og starfa með björgunarsveitinni sinni.