Sauðburður á Viðreisnartímanum

Í vorkulda minninganna var blautt í húsum

drulla í fjárhúskró og stæk lykt

ærnar siluðust og stundu - nærri burði

og maður var næstum feginn þegar einlemba bar 

og það mátti setja hana út - - þá rýmkaði í krónni og það gátu allar

ærnar étið á garðanum það kvöldið 

- - 

þegar hlýnaði aftur

og varð grænt sunnan-undir

vildi drengurinn setja allt út

en kallinn fullyrti að þetta gæti brugðið til beggja vona

kannski mundi aftur snjóa  - allavega lægi ekkert á

---

og svo voru eldhúsdagsumræður í útvarpinu

og borðleggjandi að Viðreisnarstjórnin var hérumbil búin

að leggja landbúnaðinn í rúst - - hvað sem ráðherrann sagði

við fundum það glöggt á eigin skinni feðgarnir