Í tilefni af aðalfundi SÍS í liðinni viku finnst mér við hæfi að fara yfir nokkur atriði sem snúa að Samvinnutryggingum og þeim "Samvinnuarfi" sem forsvarsmenn kaupfélaganna misstu frá sér eftir hrun SÍS á sínum tíma.
1.desember 2009
Til félagsmanna KEA og annarra sem hafa áhuga á félagshyggju
Örlítil greinargerð vegna fyrri starfa minna í stjórn KEA og í Samvinnutryggingum: Um langt skeið lá skörp víglína á milli þeirra sem voru hallir undir samvinnuhreyfingu og tóku þátt í viðskiptum og starfi kaupfélaganna og hinna sem voru fylgjandi einkarekstri og hagnaðardrifinni starfsemi á vegum sjálfstæðra aðila.
Árum saman hélt Eyjólfur Konráð Jónsson ritstjóri og alþingismaður uppi síbylju áróðri fyrir því í Morgunblaðinu að þrengt yrði að starfsemi samvinnufélaganna og sérstaklega greitt fyrir því að svokölluð ”almenningshlutafélög” fengju öfluga umgjörð og forgang að tilteknum sviðum rekstrar.
Verkalýðshreyfingin hafði á árum áður átt veikburða aðild að kaupfélögum og pöntunarfélögum sem hvert af öðru týndu tölunni og voru horfin af sviðinu löngu áður en kom að falli SÍS.
Frá 1990 hafa mörg hefðbundin kaupfélög lagt upp laupa og nú eru fáein eftir að nafninu til - - og ekkert kaupfélag er lengur í hinum raunverulega og hefðbundna blandaða rekstri sem tíðkaðist lengi vel frá því fyrir Seinni Heimstyrjöld. (Kaupfélag Skagfirðinga hefur til dæmis sótt sér fjármuni í fjárfestingarstarfsemi með einum eða öðrum hætti - - þótt verslun og sláturhús séu enn rekin innan félagsins eins og áður.)
Lög um samvinnufélög eru afar þunglamaleg og bjóða ekki upp á auðveldar leiðir til að endurnýja samvinnurekstur – ólíkt því sem gerist í mörgum nágrannalöndum beggja vegna Atlantshafsins. Samvinnufélög og kaupfélög hafa orðið ”hallærisleg” í fjölmiðlum og í almennri umræðu í þeim dæmalausa yfirgangi frjálshyggjunnar og hins öfgafulla einkagróða sem rekinn hefur verið hérlendis allt frá upphafi kvótakerfisins í sjávarútvegi.
Allan Davíðstímann hefur þó tekið steininn úr og hógværum samfélagsáherslum í rekstri hefur verið gert erfitt fyrir á meðan öfgakennd Frjálshyggja með innistæðulausri gróðahugmynd hefur riðið ölduna og verið fært allt upp í hendur - - með þeirri afleiðingu að peningakerfi þjóðarinnar er gersamlega hrunið og raunverulegt þjóðargjaldþrot virðist orðið staðreynd.
Samvinnuarfurinn eftir fall SÍS:
Þeir sem eldri eru muna margir eftir því þegar SÍS féll – eftir langstætt dauðastríð markað af togstreitu milli einstaklinga og klíkubrota. Enn er deilt um hvort kröfuhafar hafa sloppið þokkalega eða þrotameðferðin hafi borið nokkurn keim af ofsóknum andstæðinga samvinnustarfsins. Ótvírætt er að traust skorti á það ferli sem þar átti sér stað - - og ekki ólíkt fleiri stærri gjaldþrotum í fortíð og nútíð. “Hinum trúuðu fær ekkert haggað” - - hvorki þrot né aðrar hamfarir.
Samvinnuskólanum var bjargað í sjálfseignarstofnun, en umfangsmiklar eignir SÍS hurfu. Samskip lenti á vergangi og að lokum í höndum Ólafs Ólafssonar, Ker sem átti Olíufélagið (ESSÓ) – varð að bitbeini en einhverra hluta vegna var Ólafur Ólafsson mættur á vettvangi. Ólafur þessi átti uppruna sinn í rekstri Iðnaðardeildar SÍS á Akureyri og í Álafoss hruninu - - en svo sérkennilega vill til að hann á ættir að rekja til fv. Stjórnarmanns SÍS, þá kaupfélagsstjóra í Borgarnesi. Samvinnutryggingar voru nærri þroti og gengu smátt og smátt saman við Brunabótafélag Íslands í VÍS - og að lokum á árinu 1994 varð Vátryggingafélag Íslands það félag sem við síðan höfum þekkt í meginatriðum sem VÍS.
KEA stofnar Kaldbak og breytist í “byggðafestufélag” sem ætlaði að vera samfélagsafl
KEA stefndi hratt niður á við á árabilinu eftir 1990 og fram til 1998. Félagið missti mikla fjármuni út um gluggann í uppkaupum á sjávarútvegsfyrirtækjum og misheppnaðri endurskipulagningu á rekstri. Breyttum aðstæðum var mætt of seint og ekki tókst að ná saman heildarsýn og markvissri uppbyggingu. Félagið hjakkaði í því fari sem gamaldags landbúnaðarfyrirtæki - - án samkeppni í verslun og viðskiptum - - og spenna óx milli viðhorfa ráðríkra bænda og þéttbýlisbúanna.
Með mannaskiptum 1998 var lagt upp með stefnubreytingu og leitað víðtækrar þátttöku í endurmótun félagsins. Niðurstaðan varð að blönduðum rekstri KEA var skipt í sjálfstæðar einingar og að lokum var allur rekstur félagsins staðsettur í eignarhaldsfélaginu Kaldbaki árið 2001. Félagsmönnum var greiddur út nærri þriðjungur eignanna með hlutabréfum í Kaldbaki og með því að mjólkurframleiðendum var afhentur þriðjungur í Mjólkursamlagi KEA sem framleiddi hið vinsæla KEA-skyr.
Með því var KEA jafnframt breytt í einfalt samvinnufélag – með lágmarksstofnsjóði og jafnri eign allra félagsmanna, bæði nýrra félagsmanna og þeirra sem höfðu verið félagsmenn um lengri tíma. Fjárfestingar og hagnaðardrifin starfsemi KEA var þannig í Kaldbaki – en þjónusta við félagsmenn og samstarf við opinbera aðila og við margvíslega aðra aðila varð verkefni samvinnufélagsins í samræmi við víðtæka stefnumótun.
Samþykktir félagsins og opinber stefna var þróuð í samræmi við þessa verkaskiptingu.KEA átti að vera samfélagsafl; - ”byggðafestufélag” og verkfæri til að beita frumkvæði og vera í forystu og samstarfi við fyrirtæki, sveitarstjórnir og stofnanir ríkisins.
Þessi ákvörðun byggðist á býsna yfirgripsmiklu samstarfi við félagsmenn og vinnu sem tók yfir 8-10 mánuði með aðstoð ráðgjafa. KEA var ætlað að vinna fyrir og með sínu nándarsamfélagi og að beinum og sýnilegum framfaramálum í atvinnurekstri og menningarmálum í víðtækum skilningi. Þannig starfaði félagið markvisst árin 2002-2006.
Hagsmunir í Samvinnutryggingum
Þegar KEA flutti allar eignir og skuldbindingar í verslun og vinnslufyrirtækjum yfir til Kaldbaks var mögulegum eignarréttindum – í Samvinnutryggingum framvísað til Kaldbaks. Sú ávísun var tímabundin þannig að ef tækist að leysa út þá eign innan 5 ára (frá 2002) skyldi hún falla til Kaldbaks, en eftir það vera áfram í höndum samvinnufélagsins KEA. Samherji og Lífeyrissjóður Norðurlands komu til liðs við KEA með fjármagn og eignir og saman fóru þessir aðilar með Kaldbak hf á hlutabréfamarkað í árslok 2001.
Á árinu 2005-2006 skildu leiðir aðila og Samherji ásamt Baugi (Jóni Ásgeiri) – nýttu sér ráðandi stöðu til að selja Kaldbak til Samson (Björgólfi Thor) – sem síðan innleysti verulegan hagnað við að sameina Kaldbak inn í Burðarás - - - og ”allir í þeirri veislu urðu ákaflega glaðir” - - - og ekki meira um það á þessu stigi. KEA innleysti sinn eignarhlut í Kaldbaki með því að taka stöðu í Samherja - - með þeirri réttætingu að með því væri eignarhald og starfsemi Samherja í góðu jafnvægi á Eyjafjarðarsvæðinu. Leiðir skildu hins vegar miklu fyrr en gott var þegar þeir frændur í Samherja kusu að taka félagið af markaði og leysa til sín á því gengi sem hafði farið niður á við á árinu 2006.
Samvinnutryggingar frá 1946; samvinnufélag eða hvað?
Aðalfundur SÍS stofnaði Samvinnutryggingar í samstarfi við stærstu kaupfélögin. Stofnframlag var ekki lagt fram af öðrum en SÍS svo staðfest hafi verið. Samvinnutryggingar urðu ráðandi tryggingafélag á þeim svæðum þar sem kaupfélögin stóðu hvað sterkust. Á þeim tíma sem fjaraði undan SÍS voru Samvinnutryggingar í rekstrarvanda – eins og fleiri tryggingafélög – og komin að fótum fram sameinuðust Samvinnutryggingar og Brunabótafélagið í VÍS. Eiginfjárstaða þessarra félaga var erfið og félögunum var ekki endilega spáð vel á þessum tíma. Samvinnutryggingar voru skráðar sem samvinnufélag - - en voru allan tímann rekin sem ”gagnkvæmt félag” – G.t. – sem fól í sér að viðskiptamenn nutu réttinda í félaginu og eignuðust aðgang að bónusum og viðskiptakjörum – en eiginlegar arðgreiðslur voru ekki teknar út úr félaginu á meðan það starfaði sem reglulegt tryggingafélag og heldur aldrei síðar.
Þegar félagið var sameinað Brunabót í VÍS lögðu félögin bæði eignarréttindin í eignarhaldsfélög; Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, sem einnig átti og rak líftryggingafélagið Andvöku (EFSTA) að meirihluta - var með samþykktum sínum 1994 skilgreint sem eign þeirra sem áttu ”skilyrta tryggingastofna” inni í félaginu við umbreytingu þess; - fyrst 1987-1988 og síðan 1993-1994. Í samræmi við venjur í samvinnufélögum var áskilið að eignarréttindi féllu niður við andlát (eins og gildir í almennum samvinnufélögum) og einnig var áskilið að þeir sem hættu viðskiptum við tryggingafélag Samvinnutrygginga (sem þá var orðið VÍS) í meira en 2 ár misstu niður sín skilyrtu réttindi. Frá stofnun 1946 var stofnframlag SÍS til Samvinnutrygginga bókfærð eign SÍS, en á árinu 1996 var sú eign máð út úr bókum Samvinnutrygginga – einhliða.
Forsvarsmenn SÍS andmæltu þeirri gerð og leitað var atbeina Tryggingaeftirlitsins sem taldi að með uppgjör og útborgun stofnframlagsins (stofnsjóðs) væri ”ekki gengið á hlut annarra eigenda.” Engu að síður var því máli ekki lokið - - með samkomulagi allra aðila. Frá stofnun árið 1946 kaus aðalfundur SÍS fulltrúaráð sem fór með stjórn Samvinnutrygginga. Fulltrúaráðið kaus stjórn sem réði framkvæmdastjóra og fór með daglega stjórn félagsins. Samkvæmt samþykktum skyldu fulltrúaráðsmenn kosnir með kvótaskiptingu frá héruðum og kjördæmum landsins og svo er enn.
Að leysa út eign hagsmunaaðila í Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum.
Frá árinu 2003-2007 átti sá sem þetta ritar sæti í stjórn Samvinnutrygginga. Tók þar við sæti sem fráfarandi framkvæmdastjóri KEA Eiríkur S Jóhannsson hafði áður skipað. Frá upphafi leit ég þannig á að mitt hlutverk væri að vinna því fylgi að félagið yrði opnað og réttum eigendum skilyrtu eignarréttindanna eða tryggingastofnanna frá starfsemi Samvinnutrygginga væri gert aðvart um réttindi sín og þeim síðan skilað í þeirra hendur með umbreytingu félagsins í hlutafélag - - með slitum. Þessar hugmyndir höfðu áður verið orðaðar og svo langt hafði sú umræða gengið áður en ég kom þarna inn að fyrir lágu drög að samþykktum fyrir hlutafélagið Samvinnutryggingar. Jón Sigurðsson fv. skólastjóri á Bifröst (og seinna Seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins) átti væntanlega frumkvæði að þeirri vinnu. Þegar Jón hvarf í Seðlabankann virtist ekki lengur stuðningur við slíka vinnu. Sigurður Markússon og Óskar H Gunnarsson hurfu af vettvangi stjórnarinnar og Þórólfur Gíslason tók við stjórnarformennskunni.
Áfangi náðist – en allt tapaðist með hruni fjármálakerfisins
Frá árinu 2002 hef ég beitt mér fyrir því að fjármunum og eignarhaldi Samvinnutrygginga yrði komið beint í hendur “eigenda tryggingastofna” - frá þeim tíma sem félagið var með tryggingastarfsemi og á þeim tíma sem Brunbótafélagið og Samvinnutryggingar sameinuðust í VÍS. Á árinum 2002 til 2006 hafði ég endurtekið lagt upp við stjórn Samvinnutrygginga að upplýsa rétthafa tryggingastofnanna um “skilyrt réttindi” sín og tilkall til eigna við slit félagsins - og einnig lagt til að fundir félagsins yrðu opnaðir og miðlun á heimasíðu félagsins yrði gerð skilvirk og upplýsindi. Beinar tillögur um að Samvinnutryggingum yrði breytt í hlutafélag og þannig slitið lágu fyrir hjá stjórn félagsins allt frá árinu 2002, en fengu því miður ekki samþykki eða viðunandi afgreiðslu. Endurteknar tillögur um að formfesta starfsreglur og siðareglur fyrir stjórn hlutu ekki afgreiðslu og ekki náðist samstaða um að móta fjárfestingarstefnu og útfæra áhættudreifingu í félaginu í samræmi við starsemi þess sem eignarhaldsfélag eða fjárfestingarfélag.
Þess vegna taldi ég alveg víst að ákvörðun aðalfundar Samvinnutrygginga í júní 2007 um slit á félaginu yrði lokaskref í þeirri vegferð.
Því miður kom hins vegar á daginn að skilanefndin sem sett var á fót reyndist ekki vera að vinna sitt verk með viðunandi hætti. (Þórólfur Gíslason form. Stjórnar Samvtr. Kristinn Hallgrímsson hrl og Sigurður Jónsson endurskoðandi KPMG). Það er útaf fyrir sig nægilegt rannsóknarefni fyrir SÍS að fara ofan í það. Nefndinni var upphaflega ætlað að skila af sér í september-október 2007, , , , , , og miklar væntingar gefnar um það að verulegum fjármunum væri að skipta: - allt að 30 milljörðum miðað við skráð gengi fjármálafyrirtækja á miðju ári 2007. Hvað tafði störf skilanefndarinnar? og hvers vegna voru aðilar ekki tilbúnir til að afturkalla umboð nefndarinnar þegar hún virtist ekki fær um að klára sitt verk með viðunandi hætti?Fyrir stjórn SÍS og fulltrúa á aðalfundum SÍS árin 2004, 2005, 2006 og 2007 sitja eftir mikilvægar spurningar um eftirfarandi:
- Hvers vegna mótmælti aðalfundur SÍS árið 2004 ekki þeirri breytingu sem gerð var með einhliða “sjálfstæðisyfirlýsingu” Fulltrúaráðs Samvinnutrygginga árið 2004. Þegar >fulltrúaráðið ákvað að breyta samþykktum þannig að það endurnýjaði sig sjálft? Frá stofnun 1946 og til 2003 hafði aðalfundir SÍS kosið fulltrúaráð Samvinnutrygginga í samræmi við samþykktir Samvinnutrygginga. Ég var aleinn um að mótmæla þessarri breytingu á aðalfundi Samvinnutrygginga 2004 og á aðalfundi SÍS sama ár vakti ég sérstaklega ahygli á þessarri breytingu og hvatti til að aðalfundurinn og stjórn SÍS mundu setja fyrirvara með formlegum hætti til að firra SÍS mögulegum skaða vegna breytingarinnar og undirstrika um leið að SÍS væri þá enn hinn formlegi umráða-aðili þeirrar eignar sem í Samvinnutryggingum var bundin. Því miður fékk ég litlar undirtektir við máli mínu á þessum fundum - - og breytingin var samþykkt samhljóða á aðalfundi Samvinnutrygginga (ég hafði ekki atkvæðisrétt í fulltrúaráði) - og aðalfundur SÍS 2004 og stjórn SÍS gerðu enga formlega fyrirvara gagnvart Samvinnutryggingum á þessum tíma.
- Á öllum aðalfundum SÍS árin 2002-2007 tók ég þessi mál til umræðu og reyndi að brýna fulltrúa og fundinn til að láta til sín taka í málinu, en fékk alls engar undirtektir fyrr en á árinu 2007 - eftir að búið var að kynna ákvörðun um slit Samvinnutrygginga. 2007 var samt ekki gerð nein skýr krafa af hálfu aðalfundar SÍS á að slitaferlinu yrði tafarlaust lokið - - með opinskárri greinargerð og rökstuddu frumvarpi. Hins vegar var algerlega ljóst að á þeim fundi voru einstakir fulltrúar frá kaupfélögum á landsbyggðinni búnir að átta sig á að komið væri að “ögurstund” í þeirri sambúð sem kaupfélögin höfðu í gegn um SÍS - og því uppgjöri sem ”Samvinnuarfurinn” átti óklárað. Stjórn SÍS fól hins vegar lögmanni að halda uppi kröfugerð fyrir hönd sambandsins gagnvart skilanefnd Samvfinnutrygginga sem komið var á framfæri í byrjun árs 2008.
———–
Við umbreytingu KEA á árunum 1998-2002 var gert ráð fyrir að möguleg innlausn fjármuna úr Samvinnutryggingum kæmu til skila og var þeim framvísað til Kaldbaks ef mögulegt væri að innleysa fjármuni fyrir árið 2007. KEA taldi sig þannig eiga tilkall til óinnleystra fjármuna í Samvinnutryggingum og á öllum aðalfundum KEA árin 2002 til og með 2006 gerði ég opinberlega grein fyrir því að hafa beitt mér fyrir því að fá fram slit á Samvinnutryggingum með það fyrir augum að eigendur tryggingastofna gætu sótt fjármuni sína beint.
Eignir Samvinnutrygginga sem komu fram í efnahagsreikningum félagsins á árabilinu 2002-2007 - endurspegluðu þá fjármálaþenslubólu sem nú er sprungin. Árið 2001 voru eignirnar skráðar rúmmlega 1.500 milljónir, en með því að Samvinnutryggingar urðu “farþegi” í kaupunum á Búnaðarbankanum - varð skyndileg breyting og efnahagurinn þandist út. Með kaupum og sölu á VÍS inn í Exista og síðan skráningu Exista í Kauphöll . . varð alger eignasprenging hjá félaginu í bókum árið 2006. Enn varð eignaþenslan með hækkun bréfa á fyrrihluta árs 2007.
Þegar ákvörðun var tekin um slit Samvinnutrygginga vor gefin verulega hástemmd fyrirheit um að miklu væri að skipta. Margir sem ekki höfðu hugmynd um að þeir kynnu að eiga hagsmuni bundna í félaginu fengu eðlilegan áhuga á að sjá framan í sína fjármuni. Það var hins vegar ekki fyrirséð á þessum tíma árið 2007 eða allt fram á árið 2008 að við værum að stefna í allsherjar hrun fjármálakerfisins. Þar sem nær allar eignir Samvinnutrygginga voru bundnar í skráðum fjármálafyrirtækjum eru þær nú horfnar og orðnar bókstaflega einskis virði. Skuldir við sömu fjármálastofnanir munu því ekki heldur greiðast upp.
Við gátum svo sem ekki séð hrun fjármálakerfisins fyrir á þeim tíma sem ákveðið var að slíta Samvinnutryggingum. Það er í sjálfu sér lítil huggun að því að eignamyndun Samvinnutrygginga frá 2002 byggðist eingöngu á þátttöku félagsins í þeirri uppblásnu hagnaðabólu í fjármálafyrirtækjum og fjárfestingarfélögum sem ekki reyndust raunveruleg verðmæti á bak við.
Vonbrigðin með að rétthafar tryggingastofna skuli ekkert bera úr býtum eru engu að síður raunveruleg - -
Fjárfestingarfélög ekki líkleg til að sinna beinum/skýrum hagsmunum félagsmanna í samvinnufélagi
Á aðalfundi KEA árið 2006 skilaði stjórn yfirgripsmikilli skýrslu. Á þeim fundi var sjónum félagsmanna beint að því hvernig KEA gæti unnið að staðbundnum framfaramálum og staðið með samstarfi við opinbera aðila og fyrirtæki að markvissri uppbyggingu á umgjörð fyrir sjálfbæran vöxt atvinnulífsins. Á fundinum lá einnig fyrir að KEA hafði beitt sér með skýrum hætti sem verkfæri og forystuafl og orðið farvegur fyrir margvísleg samfélagsverkefni. Rektor Háskólans á Akureyri flutti efnismikla kynningu á Vaxtarsamningi Eyjafjarðar og þeirri hugmyndafræði að skipulagt samstarf opinberra aðila í kring um rannsóknardrifna starfsemi og þekkingarþróun sé skilvirk aðferð við nýsköpun og fjárfestingartækifæri til lengri tíma. Tiltrú almennings á félagssvæðinu til KEA hafði þá einnig verið staðfest með könnun og hafði aldrei verið greind svo jákvætt eins og einmitt þá. Við þær aðstæður taldi ég að ekki væri rökrétt að skipta um forystu fyrir stjórn félagsins. Það urðu því veruleg vonbrigði að meirihluti stjórnar félagsins skyldi komast að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fela þeim einstaklingi í stjórninni sem hafði tvisvar áður verið kjörinn í stjórnina með lágmarksatkvæðafjölda að taka við formennsku.
Frá þeim tíma hefur stjórn KEA og framkvæmdastjóri skipt verulega um áherslur í starfi félagsins – án þess að slík stefnubreyting hafi verið byggð upp á viðtækri greiningu né útfærðu samstarfi við virka áhugamenn um samvinnustarfið. Á síðasta aðalfundi var áherslum félagsins enn hnikað til að félaginu breytt í ”fjárfestingarfélag” - -. Áður hafði verið tekin stór staða í hlutfjárkaupum í SagaCapital sem framkvæmdastjóri sagði samt að væri ”stóra áhættan í rekstri félagsins.” Reynt var að kaupa sparisjóð og innleysa með því hagnað stofnfjáreigenda – langt umfram einkaeignarvirði þeirra.
Það kann að vera táknrænt fyrir áherslubreytingarnar að aðalgestur aðalfundar KEA árið 2007 var Erlendur Hjaltason framkvæmdastjóri Exista og formaður stjórnar Viðskiptaráðs. En eins og margir þekkja þá er Viðskiptaráð Íslands rekið sem nokkurs konar trúboðsstöð og verulega umsvifamikill áróðursvettvangur fyrir græðgisvæðingu samfélagsins og einkavæðingu á öllum sviðum; - m.a. hefur Viðskiptaráð rekið síbylju fyrir því að hagnaðardrifinn rekstur einkaaðila í heilbrigðisþjónustu og menntamálum taki við af rekstri hins opinbera.
Við fáum nú smátt og smátt að vita hvernig viðskiptamódelið var sem stærstu eigendur einkavæddu bankanna notuðu. Þessir svokölluðu ”kjölfestueigendur ” – sem voru meira og minna handvaldir af þeim Davíð, Geir, Halldóri og Valgerði – og Valgerður formlega afhenti – beittu viðskiptaháttum sem virðast hafa verið í sama hugmyndakerfi og ENRON notaði á sínum tíma með þekktum afleiðingum. Ekki er ennþá ljóst hvort ólögleg starfsemi sem leitt getur til refsinga hafi átt sér stað - - enda regluverkið hérlendis að líkindum með því slakasta sem sett hefur verið upp á byggðu bóli - - amk. Að því er varðar viðskipti milli tengdra og skyldra aðila – með lánveitingum út og suður.
Við sitjum nú meira og minna uppi með rústir efnahagslífs og fjármálastarfsemi; - rústir sem eru bein og óbein afleiðinga af óbeislaðri græðgi og markaðshyggju – þar sem viðskiptamógúlar nýttu sér þann aðgang að bankastarfsemi sem þeir fengu afhentan með handvöldum hætti.
Nú fremur en nokkru sinni er ástæða til þess að kalla fram stefnubreytingu hjá samvinnufélögum og hjá öllum opinberum aðilum: þar sem samfélagsleg ábyrgð er leidd til öndvegis í viðskiptalífi og lausnir samvinnufélaga og ”non-profit” rekinna sjálfseignarfélaga fá skýra lagaumgjörð og forgang að umsvifum. Með því væri verið að opna viðskiptalífið fyrir aðhaldi almennings og um leið að virkja miklu fleiri til skapandi þátttöku.Þá mundi líklega skipta öllu máli að fjölmiðlun verði virk og frjáls – en í því efni horfir allt annað en vel nú um stundir.