Samfylking í blindgötu:
Nýliðna helgi hélt Samfylkingin landsfund. Vandi flokksins er ærinn og augljós þeim sem skoða vilja. Þar sem Samfylkingin fer fyrir ríkisstjórn bitnar vandinn á allri þjóðinni og er með því ekki einkamál flokksmanna eða flokksbrodda einna saman.
Í fyrsta lagi er um að ræða fortíðarvanda sem á sér rætur í klofnings- og klíkusögu vinstri hreyfingar á Íslandi um langan tíma. Svokölluð sameining vinstri manna eða sameining jafnaðarmanna í einum flokki var búin að vera áhugamál margra um langan tíma. Engu að síður virðist sem slík hugmynd hafi meira verið í orði en á borði - - og endurtekinn sérframboð og illindi á milli hópa og klíkubrota – gerðu mörgum vinstrimönnum ókleift að ræða málin - - hvað þá að sameinast í flokkum. Afstaðan til Sovétríkjanna - og síðan sér-íslenskur ágreiningur um NATÓ og hersetu USA - gerði íslenska vinstrið að ótrúlega rugluðum vettvangi. Sá plagsiður vinstri flokksbrota í stjórnmálum og launþegahreyfingum að keppast um að verða fyrstir til að gera bandalag við höfuð-andstæðinginn í Sjálfstæðisflokknum – og fá með því aðgang að kjötkötlunum – þróaði klíkur og spillingargengi sem hæstum hæðum hafa líklega náð með niðurlægingarsögu Alþýðuflokksins sáluga í lok Viðreisnartímabilsins. Svo hrundi Berlínarmúrinn, Sovétið gufaði upp í skítafýlu og Kaldastríðið leið undir lok og með því áhugi USA á að fjármagna spillingarvettvanginn frá Keflavík um valdaþræði þriðjungaskipta Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Alþýðuflokksins. Við stofnun Samfylkingarinnar mynduðu flokksbroddar og þingmenn bandalag – um það áhugamál að komast til valda með Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum. Þar var Jóhanna Sigurðardóttir á vettvangi - - klíkuforingi klofningsflokksins Þjóðvaka.
Ingibjörg Sólrún reyndist síðar ekki hafa burði til að láta „samræðustjórnmál“ og jákvæða rökræðu leysa gömlu klíkustjórnmálin af hólmi innan Samfylkingarinnar. Í ríkisstjórnarmyndun 2007 kom glöggt í ljós að gömlu bandalögin höfðu öll völd og stýrðu flokknum áhrifalausum eftir markaðshyggjulínum í fang Sjálfstæðisflokksins - - og fengu reyndar einungis að taka við „ráðuneytum Framsóknar.“ Svo kom Hrunið. Og þó allir viti að Jóhönnu Sigurðardóttur var fengið forystuhlutverk í minnihlutastjórn einungis til bráðabirgða – þá hefur henni og fámennri klíku hennar - - tekist að seilast til miklu meiri áhrifa og valda heldur en hópurinn á bak við hana hefur mannskap, burði og þekkingu til að standa undir.
Í öðru lagi er um að ræða mjög harkalega afneitun og ábyrgðarleysisvanda sem einkum snýr að formanni flokksins og nokkrum fleiri fyrrverandi ráðherrum og þingmönnum sem mega ekki til þess hugsa að þjóðin verði minnt á þann hlut sem þeir áttu í ríkisstjórn Geirs H Haarde frá 2007 og upp að Hruni og í gegn um skelfingar neyðarlaga, innistæðutrygginga og greiðslujöfnunarvísitölu. Jóhanna Sigurðardóttir var ráðherra félags- og húsnæðismála 2007-2009 og átti að bera allan hag unga fólksins, almennra barnafjölskyldna jafnt og aldraðra fyrir brjósti í ríkisstjórn Geirs H H. Jóhanna var tilkvödd á örlagadögum Glitnis og bankaþrotsins og var í lykilstöðu ásamt Össuri og Björgvin G við setningu neyðarlaganna með innistæðutryggingum upp á 100%+ Svo ríkuleg innistæðutryggin var óþörf aðgerð og óskiljanleg – og langt umfram þau efni sem ríkisvaldið hafði. Raunar liggur ekki fyrir hvernig sú ákvörðun var tekin að fara með innistæðutryggingar langt upp fyrir lágmörkin - - þó í ljós hafi komið að ráðuneytin höfðu velt fyrir sér þeim möguleikum að tvöfalda eða þrefalda lágmarkstrygginguna (20 þú Evrur).
Rík ástæða er til að leita svara við því undir hvaða ráðgjöf eða þrýstingi sú tillaga kom inn í frumvarp til neyðarlaga að ríkustu örfáum skyldu færðar svo rausnarlega mældar gjafir og að vogunarsjóðir og spekúlantar skyldu fá milljarða í leiðinni .
Sérstaklega forðast Samfylkingin sem stjórnarflokkur forsætisráðherrans að ræða eða glíma við „leiðréttingu stökkbreyttra lána“ . . vegna þeirrar augljósu ábyrgðar sem Jóhanna Sigurðardóttir öðrum fremur ber á þeim handstýrða vanda sem skapaðist af því að frysta EKKI vísitölur í gegn um Hrunið stóra og afnema verðtrygginguna í kjölfarið.
Jóhanna félagsmálaráðherra skipaði nefnd „sérfræðinga“ 27. Október 2008 undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ til að leggja upp viðbrögð við fyrirséðum vanda lántakenda vegna verðtryggingar og vísitöluhækkana í kjölfar gengishruns.
Ráðgjöf sérfræðinganna snerist hins vegar alls ekki um „vanda lántakenda“ – heldur beindist allur þeirra kraftur að því að rökstyðja og réttlæta það að lífeyrissjóðunum yrði tryggð ávöxtun upp á 180-240 milljarða vegna hrunsins. Á sama hátt rangfærðu „sérfræðingarnir hennar Jóhönnu“ og afvegaleiddu þingheim með alvarlegum hætti eins og lesa má í greinargerð/minnisblaði með frumvarpi þessa félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Geirs Haarde. Þeirra tillaga gekk út á greiðslujöfnunarvísitölu - - í því skyni að fá fólk til að halda áfram að borga stökkbreyttu lánin - - og borga þar af leiðandi miklu meira en annars - - af því að lífeyrissjóðirnir mættu ekki verða af væntum ávinningi.
Engin tilraun er í þessu frumvarpi Jóhönnu gerð til að greina fyrirséðan vanda íbúðarkaupenda með stökkbreytt lán og hrunið fasteignaverð - - engin tilraun gerð til að meta hvaða afleiðingar stökkbreyting námslána hefði fyrir fjölmenna hópa ungra fjölskyldna - - engin tilraun gerð til að varpa ljósi á það hvernig handstýrð skuldakreppa heimilanna mundi spinna upp á sig og draga neytendahagkerfið niður, og margfalda þannig atvinnuleysið og kippa fótum undan veltusköttum ríkisins.
Ekki er heldur minnst á það í minnisblaði með þingmáli Jóhönnu Sigurðardóttur frá 7. nóvember 2008 með hvaða hætti sanngirni og réttlæti mætast í innistæðutryggingum á tugum og hundrum milljóna til örfárra ríkra Íslendinga og sjóða annars vegar og meðvituð ákvörðun Alþingis (upplýst ákvörðun) um handstýrða stökkbreytingu verðtryggðra lána hins vegar. Ekki er heldur í þingmáli þessu frá 17. Nóvember minnst á það hvað réttlætisviðmið eða lagarök knúðu á um útgreiðslu úr peningamarkaðssjóðum allt að 230 milljarða króna
Með þessum gerningum framkallaði ríkisstjórn Geirs Haarde og Alþingi Íslendinga margföldun á tjóni samfélagsins sem af Hruninu leiddu og handstýrði verstu afleiðingum þess beina leið inn í persónulegan fjárhag venjulegra fjölskyldna. Þarna er um að ræða „sér-íslenskar“ aðferðir við að gera almenning ábyrgan fyrir milljarðatjónum af glæpsamlegu samspili bankabófa og getulausrar og siðlausrar stjórnsýslu og pólitíkur. Jóhanna Sigurðardóttir var ekki áhrifalaus áhorfandi á þessum vettvangi hrunsins - - heldur virkur gerandi í lykilstöðu með þessum hörmulegu gerningum.
Jóhanna Sigurðardóttir var síðan forsætisráðherra í ríkissjórn þegar tekin var ákvörðun um að afhenda kröfuhöfum nýju bankana - - með samningum fjármálaráðherra – við hina andlitslausu. Til þess voru skilanefndirnar gerðar að millihýslum – og margvísleg afbrigði gerð til að dulbúa gerningana. Virðist sem öllum sértækum hæfiskröfum til eigenda fjármálafyrirtækja sé þar með vikið til hliðar. Með þessu voru Arion og Íslandsbandi einkavæddir að nýju - - þvert á þá ráðgjöf sem Mats Josefsson hinn sænski sérfærðingur hafði ráðlagt. Kröfuhafar fengu óheft innheimtuleyfi á skuldir sem höfðu flust á innan við hálfvirði á milli föllnu og endurreistu bankanna. Enda lét hrun krónunnar ekki á sér standa - - þegar vogunarsjóðum og spákaupmönnum var fært þannig sjálfdæmi með verðgildi örmyntarinnar að nýju - þó gjaldeyrishöftin sannarlega búi til gerfigengi til skemmri tíma.
Ábyrgð Jóhönnu á skuldakreppu og skelfingum tugþúsunda íslendinga – og á siðlausu framferði bankanna er því stærri en flestra – ef ekki allra stjórnmálamanna sem eru á vettvangi í dag. Þetta vill ráðandi framlína Samfylkingarinnar ekki ræða og frá Landsfundi flokksins 2009 hefur forystan komist upp með að hunsa hógværar samþykktir um að snúa ofan af þessum ósköpum, stökkbreytingu lána og innistæðutryggingum langt umfram efni, eins og hér á undan eru rakin.
Í þriðja lagi er um að ræða forystuvanda þar sem formaður flokksins er þekktur pólitískur einfari og sýnir sig að vera lítt fær sem leiðtogi. Jóhanna er alls ekki drífandi talsmaður flokks og ríkisstjórnar á erfiðum tímum. Forsætisráðherrann virðist einnig býsna einangruð og höfuðsetin af hliðvörðum sínum og dagskrárstjóra og hefur ekki borið gæfu til að sækja sér nýtt fólk og breikka hóp handgenginna - - þvert á móti – með vaxandi mótbyr þrengist hópurinn. Hugtakið „að þétta raðirnar“ hefur fengið skrípimerkingu og virðist lýsa sér í því einu „að hætta að hlusta á gagnrýnisraddir eða önnur sjónarmið“ - - innan eigin flokks og hjá samstarfsaðilum. Sá sérkennilegi skilningur hefur einnig gripið um sig að það að ríkisstjórnin og ráðherrar hennar búi við vantraust og séu jafnvel beinlínis óvinsælir bendi til þess að þeir „séu á réttri leið“. uuH
Jóhanna Sigurðardóttir er auðvitað mæt kona sem ávann sér viðurkenningu margra og stuðning í gegn um árin með þrautseigju í baráttu og beinum einstrengingshætti og óbilgirni í málflutningi. Hún tók stöðu með minnimáttar og beitti sér af alefli í þeim málum sem náðu eyrum hennar og skilningi. Af því þekki ég margar sögur og hennar ferill er til vitnis um það. Sjálfur get ég beinlínis vitnað um að hún fylgdi réttlætiskennd og heiðarlegri dómgreind þegar henni fannst hallað á af hálfu stjórnvalda og yfirgangssamra ráðherra. Henni er hins vegar algerlega fyrirmunað að kalla öflugt fólk til verka, og hefur greinilega mjög takmarkað þanþol gagnvart „öðrum sjónarmiðum“ - - hún er í gamaldags kappræðustjórnmálum flesta daga - - kann greinilega ekki annað. Samstarf hennar og Steingríms J – annars af þaulsætnustu stjórnmálamönnum samtímans - - virðist hafa gengið ágætilega en af þeim reitast flokks- og fylgismenn og kjósendur snúa sér undan. Jóhanna hefur látið Steingrím taka frumkvæðið frá Samfylkingunni í hverju málinu á fætur öðru og með því hefur árangur hennar og trúverðugleiki og áhrif þeirra sjónarmiða, sem Samfylkingin var stofnuð fyrir, dvínað meira og meira eftir því sem fram vindur.
Jóhann segir flokksmönnum að hún sé ekki á förum úr pólitík - - hótar jafnvel að verða hundrað ára. Þannig bregst hún þeirri skyldu sinni að leiða endurnýjun framlínunnar og greiða fyrir því að kynslóð framtíðarinnar fái svigrúm og skýrt umboð í síðasta lagi á næsta ári þannig að kosningar 2013 komi flokknum ekki í opna skjöldu. Þetta er sérlega bagalegt fyrir flokkinn af því að varformaðurinn Dagur B Eggertsson veldur vonbrigðum - - og sýnir enga burði til að vaxa upp í að verða alvöru stjórnmálamaður sem stígið getur fram sem leiðtogi fyrir flokkinn í þeirri krísu sem ríkir. Guðbjartur Hannesson kaus að bíða eftir að Jóhanna leyfði honum að setjast við ríkisstjórnarborðið - - og þrátt fyrir að hann hafi tekið við eitruðum málaflokkum í niðurskurði þá virðist almenningur fremur hafa traust á honum en varaformanni og formanni. Hætt er hins vegar við að sá þröngi hópur sem kring um Jóhönnu ræður för muni gera Guðbjarti ókleift að sækja formennsku eftir að hann hefur setið í skugganum og í súrum málum – of lengi til að geta fært stjórnmálum Samfylkingarinnar ferskleika og jákvæða breidd og tilhöfðun.
Draumurinn um samfylkingu jafnaðarmanna er að óbreyttu ónýtur. Flokkurinn og formaðurinn klúðruðu því tækifæri til endurnýjunar sem Hrunið, skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis og mjög sterk gagnrýni á þrætustjórnmálin gerðu eðlilega. Hávær fordæming á klíkuræði formanna og samtryggingu stjórnmálastéttarinnar og augljóst vantraust á Alþingi og ríkisstjórn gerir það að verkum að afgerandi framlínuskipti hefðu átt að komast á dagskrá - - í síðasta lagi frá nýloknum Landsfundi Samfylkingarinnar.
Það gerðist ekki. Samfylkingin er í blindgötu og flokssmenn sem eitt sinn voru bjartsýnir á framtíð samræðustjórnmála og jafnvægis milli sjónarmiða og hagsmuna hljóta að draga sig í hlé. Róttækt og góðviljað endurmat á þeim stjórnmálum sem skópu jarðveginn fyrir Hrunið er ekki í sjónmáli og enn er gælt við hagnaðardrifnar markaðslausnir í opnberri þjónustu. Hlutabréfaþjóðfélag græðginnar fær enga ofanígjöf og hvergi er vörðuð leið fyrir neytendadrifið markaðsaðhald, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem reknar væru til almannaheilla og án hagnaðarsjónarmiða.
Kjósendur eru líklegir til að gefa endanlegt frat í gömlu flokkastjórnmálin. Ekki er ólíklegt að prívat-húmor Gnarrismans eða „Guðmundar-kynið“ muni fylla tómarúmið - - með hálfkæringi og fáránleika í bland.
Klassísk sjónarmið jafnaðarmanna munu því að óbreyttu þurfa að finna sér framgang annars staðar en hjá Samfylkingu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem enn er félagsmaður í Þjóðvaka (en ekki í Samfylkingarfélagi Reykjavíkur).