Nú er vertíðin hafin. Samfylkingin hefur ákveðið opið prófkjör í öllum kjördæmum - fyrir utan NA-kjördæmið. Póstkosning kann að hafa haft ýmsa kosti áður og fyrrum en mörgum þykir sem nær hefði verið að leggja af stað með rafræna kosningu á vefnum í þetta skipti - þar sem það er árið 2006.
Össur sem er afkastamikill bloggari vísar til þess að ekki sé endilega besta formið fundið. Hann endar sína pælingu 18.09. sl á þessum orðum; .."- og ber þá að líta á þá staðreynd að reynslan síðasta áratuginn virðist sýna, að prófkjörin einsog þau eru rekin í dag eru ekki leið til mikillar endurnýjunar heldur hafa fremur þróast upp í að verða vörn fyrir sitjandi þingmenn." Össur sér ágalla á því að "sópa fólki í flokkana" sem lítið komi þar síðan við sögu. En hverjir ættu annars að taka þátt í að velja frambjóðendur ef ekki þeir sem telja má trygga kjósendur flokkanna eða amk. líklega kjósendur?
Líklega er margt til í þessu hjá Össuri, en þá er líka á það að líta að stjórmálaþátttaka má tæpast verða miklu minni. Í mínum huga er það afar mikilvægt að flokkarnir komi til móts við fólkið - og opni starf sitt og bjóði alla velkomna til þátttöku. Það er líka ekki síður mikilvægt að starfið fari fram fyrir opnum tjöldum og að stefnumótun og framtíðarsýn sé lögð upp með opinskáum hætti. Því fleiri sem ganga til liðs við Samfylkinguna - í prófkjörum og alla hina dagana - þeim mun betra. Þannig verður líklegra að valdir verði frambjóðendur sem geta tekið að sér að vera málsvarar fjöldahreyfingar fremur en þröngra sérhagsmuna eða hreppapólitíkur.