Nýtum PISA „fárið“ til að bæta uppeldi og árangur
Býsna mikið fjaðrafok er haft uppi varðandi niðurstöður úr PISA 2012 – bæði varðandi lesskilning (einkum drengja) og líka um stærðfræðiþekkingu 15 ára barnanna okkar. Gert er mikið úr því hversu neðarlega Ísland skorar í samanburði – undir OECD meðaltalinu - og langt fyrir neðan „afburðaprófþjóðir“ SA-Asíu. Kannski örlítil huggun - sem lítið er gert úr - að nágrannaþjóðir skruna niður í samanburði og jafnvel Finnland er ekki lengur alveg á toppnum. Það er talsvert uppnám í nágrannalöndum ekki síst í Svþjóð þar sem menn setja á sama tíma alvarleg spurningarmerki við afleiðingar sveitarfélagavæðingar skólanna – og mjög aukinn árangursmun milli skóla. Danir og Norðmenn og Bretar kvarta líka og markaðsöflin mala til dýrðar SA-Asíu „undrunum“ . . .
Það eru ekki nein ný tíðindi að árangur drengjanna okkar hafi farið frekar niður á síðustu árum - jafnvel með auknum hraða. Stelpurnar spjara sig hins vegar jafnvel sífellt betur í gegn um framhaldsskólann. Slakur lesskilningur eykur á árangursleysi strákanna og tíðni alvarlegra athyglis- og ofvirkni vandamála er líklega nánast óumdeilanlega vaxandi. Við fengum þetta ekki neitt sérstaklega staðfest með PISA – við áttum að vita það og allir sem ekki hafa lokað augum vissu þetta.
Álitsgjafar og fjölmiðlar rægja skólakerfið og kennara og „sölumenn“ birtast á tröppunum í því skyni einu að bjóða sínar eigin „uppskriftir“ og kokkabækur – þar sem foreldrum er ætlað að kaupa dýru verði og með ærinni vinnu „annað tækifæri“ með leiðréttingum eða öðrum lausnarorðum.
Samfélagið okkar hefur verið að breytast mjög mikið á síðustu kannski 25 árum. Nýja tæknin er að verða allsráð - símar og tölvutækni, myndmál og prívatisering á öllum sviðum. Við höfum farið í gegn um hverja bóluna á eftir annarri með tilheyrandi sveiflu sem tekur neyslu og hraða framyfir hófsamari gildi. Mannúð og góð uppeldisfræði á í vök að verjast í orðræðu fjölmiðlanna og í skólakerfinu hafa illa grunduð rekstrarviðmið tekið yfir og hrakið metnaðarfulla fagmennsku og rannsóknarþekkingu af vettvangi.
Svo kom Hrunið stóra . . . . og enginn treysti sér til að standa gegn „niðurskurðinum“ . . .
Skólakerfið hefur látið undan síga fyrir einfölduðum kröfum um hagkvæmni og sparnað. Á sama tíma hefur orðið gríðarleg kostnaðarþensla m.a. í rekstri húsnæðis sem sjálfvirkt dregur til sín peninga - með „fasteignafélagavæðingu“ sveitarfélaganna og alls konar auknum miðlægum kostnaði. Rekstrarumsvif Sambands Íslenskra sveitarfélag eru stjórnsýsluleg óhæfa og millistjórnendaþensla í sveitarfélögum og innan grunnskólanna leiðir ekki til bættrar kennslu og aukinnar þjónustu við börn og foreldra.
Pólitísk afskipti sveitarstjórnarfulltrúa - með Excel sér til ráðgjafar - geta auðveldlega slegið niður frumkvæði og árangursmetnað skólastjóra og lamað vinnugleði kennara. Alltof margir kennarar eru því miður í hálfgerðri gíslingu sinna eigin stéttarfélaga – undirlagðir af innihaldsrýrri kröfu um að hver og einn skuli fremur vera sérfræðingu í háskólakennslugreinum – heldur en að vera sérfræðingur í kennslu- og uppeldi barna - enda hálf skammarlegt að vera bara „umsjónarkennari“ með engan status.
Dekur við einkalausnir sem hæpaðar eru upp – án þess að fyrir liggi grundvallarþekking og rannsóknarreynsla. Þar sem foreldrar velja börnum sínum skóla og bakka þau upp á ´“íhaldssömum forsendum“ er eðlilegt að mældur árangur í PISA verði yfir meðaltali. Ekkert skal ég hafa á móti því að skólar njóti stuðnings frá Viðskiptaráði og markaðselítunni - eins og Hjallastefna og Hraðbraut, en dekur við slíkar lítið grundaðar tískubólur er líklegt til að draga kraftinn frá nýsköpun í þágu fjöldans.
Þráseta Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu (og stutt viðkoma elítu-stefnu VG) hefur reyndar leitt til þess að samfélagsfræði og lýðræðislega virkum kennsluháttum hefur meira og minna verið útrýmt sl. 30 ár og íslenski skólinn sker sig algerlega frá öðrum Vestrænum skólakerfum að því leyti að hér fær umhverfismennt verulega takmarkað (eða alls ekkert) rými.
Þrátt fyrir að framhaldsskólinn hafi ekki enn verið styttur í 3 ár að kröfu Sjálfstæðisflokksins þá hefur samt sem áður hellingur af efni úr abstrakt stærðfræði menntaskólans verið troðið niður í grunnskólann. Ekki vegna þess að reynsla eða rannsóknir hafi leiðbeint okkur þar um - þvert á móti eru greindarpróf og skólaþekking sammála um að alltaf verði umtalsverður hluti hvers árgangs algerlega ófær um að ná tökum á óhlutstæðum viðfangsefnum jafnvel 17-18 ára. NEMA MEÐ GRÍÐARLEGRI ÞJÁLFUN OG ENDURTEKNINGUM.
Það er einmitt þarna sem lýðræðislaus samkeppnisþjóðfélög SA-Asíu koma sterkust inn. Með endurtekningum og þrotlausri þjálfun þar sem skólinn er ekki bara eina 9 mánuði frá kl 8-15. Nei samkeppnisinnval, með eftirskóla, og heimanámi og helgarskóla og sumarnámskeiðum – og hvergi gefið eftir eina stund. Þessa tegund uppeldis mundi mega flokka sem þrælabúðir, en þannig skapast árangur í samanburðarprófum sem setja íslenska fjölmiðla og besservissera bloggheimsins á annan endann.
Singapúr, Sjanghaí-Kína og Hong-Kong geta ekkert kennt okkur um lýðræði og frelsi eða hamingjusamt uppeldi og nú er svo komið að elítuháskólar Vesturheims eru jafnvel farnir að forðast slíka „toppnemendur“ sem hafa lært eins og vélar en kunna ekkert til mannlegra samskipta eða skilnings á raunveruleika sem er utan námsgreinanna þeirra.
Og ekki styttist meðaltími til lokaprófs í framhaldsskólanum með þessum flutningi framhaldsskólaefnis niður í grunnskólann hjá okkur - og ekki fjölgar þeim drengjum sem blómstra í gegn um skólana – þvert á móti og þar er tölfræðin ólygin.
Auðvitað er árangur íslenskra nemenda of slakur; einkum drengjanna á landsbyggðinni og víst að athyglisvandi og ofvirkni verður sífellt tíðari. Stórfjölskyldur heilla byggðarlaga eru undirlagðar af lestrarvanda og við bætist að 20-30% barnanna í einstökum skólum á foreldra af erlendu bergi - ótalandi og ólesandi á íslensku. Við virðumst illa kunna að skapa árangur í lestrarnámi við þær aðstæður að börnin lesi ekki heima og að enginn geti lesið með þeim eða fyrir þau.
Auðvitað má spara helling í umgjörðinni um skólastarfið – lækka framkvæmdakostnaðinn við alltof dýrar skólabyggingar og taka út sjálfvirkan mokstur á peningum frá skólunum til fasteignafélaga sveitarfélaganna. En hvergi hefur verið sýnt fram á að það sé skynsamleg aðferð við niðurskurð að fjölga í bekkjum og námshópum og auka á erfiði umsjónarkennaranna.
Auðvitað er bæði sanngjarnt og rétt að gera metnaðarfullar kröfur til skólanna og til þess að við skilum fleira fólki – hamingjusömu til árangurs fyrir framtíðina. Það gerum við hins vegar ekki með illa grunduðum ásökunum, upphróunum og rógburði - og ekki með einkavæðingu í anda Hjallastefnunnar eða Hraðbrautar.
Það gerum við ekki með því að reyna að innleiða þrælabúða-uppeldi í anda prófþjóðanna í SA-Asíu.
Við gerum það miklu fremur með því að bæta stjórnun skólanna og bæta nýtingu bestu þekkingar og reynslu þeirra afburða skólastjóra og farsælu kennara sem ennþá finnast innan íslenska skólakerfisins.
Við gerum það með því að styðja foreldra í uppeldishlutverkum sínum og með því að krefja skólastjóra og kennara um að leiðbeina foreldrum og kalla þá til samábyrgðar og til liðs við börnin og árangur þeirra og hamingju.
Við megum ekki láta „lukkuriddara og besservissera“ – villa okkur sýn eina ferðina enn – i þeim vafasama tilgangi að maka sinn eigin krók á kostnað heildarinnar.
Við eigum þvert á móti að kappkosta „að koma öllum til nokkurs þroska“ – og til aukins þroska, því bættur árangur eins tekur ekkert frá öðrum. Mestur ávinningur er að því að bæta árangur þeirra sem eru langt undir getu – og það verður alltaf léleg nýting á fjármunum að auka við kostnað hjá þeim sem eru núþegar að skila góðum eða toppárangri.
Samkeppnisskólinn eða forréttindaskólinn er reistur á fölskum forsendum - með það eitt að markmiði að skammta fjölda þeirra sem komast í fremstu röð.
Fjárfestum meira í framtíð barnanna í uppeldi þeirra og árangri og í hamingju fjölskyldnanna – með því bætum við líf allra kynslóða á Íslandi. Það er efnahagslega ábyrg stefna og líkleg til að gera Ísland eftirsóknarverðan bústað til langrar framtíðar.
Í jólamánuði 2013
Benedikt Sigurðarson