Orkupakkar og afbökuð orðræða

Goðafoss
Goðafoss

Afbökuð orðræða;

Orkupakki 3 (O3) er í röð tilskipana frá Evrópusambandinu og kemur til okkar í gegn um EES-samninginn.   Rekstrarumgjörð orkufyrirtækja í ESB/EES svæðinu í heild er mismunandi en í sumum löndum er lítið sem ekkert af orkuvinnslu og dreifingu í höndum opinberra aðila og eignahluti ríkis ekki ráðandi í meginfyrirtækjum.   Öll löndin hafa talsvert ákveðna ramma um starfsemi orkufyrirtækja.

ENRON-skandalnum í Bandaríkjunum sem felldi ekki bara orkurisann heldur og einnig eitt af stóru endurskoðunarfyrirtækjunum þ.e. Arthur Andersen.   Enron komst upp með að sækja sér einokunarstöðu á stórum svæðum  -  hélt á öllum ferlum, vinnslu, dreifingar og sölu – og skammtaði framboð,  “tók úr sambandi” -  þannig að verðmyndun speglaði handstýrðan skort og afhendingaröryggi  varð bókstaflega ekkert  - setti heimili og fyrirtæki í verulegan vanda.    Svikamyllan gekk lengra en græðgi stjórnendanna réði við – skítamixið  kom upp um sig sjálf og fyrirtækið hrundi með þekktum afleiðingum.   USA og Canada settu verulega þrengdar reglur og innleiddu aukið eftirlit á orkumörkuðum.

Evrópusambandið hefur klárlega hannað hluta af sínu regluverki mtt.  til þess hvað þurfti að læra af Enron skandalanum - - og ma. þess vegna eru harðar kröfur um aðskilnað rekstrarþátta á markaðssvæðum (með yfir 100 þús neytendur).

Á Íslandi er langstærstur hluti orkuvinnslu og dreifingar og sölu í höndum fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.    Eitthvað af tilburðum Orkupakkanna sem hér hafa verið innleiddir til fyrirmæla eiga þannig ekki við eða hafa takmarkað gildi á Íslandi -  en sama hver er eigandi orkufyrirtækis þá er eðlilegt að gera kröfur um að fyrirtækin hagi sér vel í samskiptum við neytendur og fari hvergi offari í sjálfdæmi þrátt fyrir litla eða enga samkeppni sem gæti veitt aðhald.

Tilskipanir ESB ganga meira og minna útfrá að fyrirtæki starfi á markaði -  óháð rekstrarformi fyrirtækjanna og eignarhaldi þeirra.   Einkaeignarfyrirtæki og samvinnufyrirtæki -  og fyrirtæki í ríkiseign þurf að lúta sama eftirliti og haga sér eftir sömu reglum að því er viðskipti með vöru varðar.   Orka er færð undir þessa almennu ramma um “vöruviðskipti”  - með þessum umræddu “Orkupökkum” - -

Nokkrir stjórnmálamenn hafa um liðnum árum talað beint og óbeint fyrir einkavæðingu orkufyrirtækja.   SJálfstæðismenn í Reykjanesbæ seldu sín orkufyrirtæki til einkaaðila - - og margsinnis hefur Sjálfstæðisflokkurinn í ályktunum og málflutningi gælt við þá hugmynd að selja Landsvirkjun.

Ekkert í stefnu eða neytendareglum ESB hefur nokkuð með það að gera hvernig eignarform er á orkufyrirtækjum -  hvort þau eru einkavædd hlutafélög í hagnaðardrifnum rekstri eða hvort þau eru “gangkvæm félög” í eigu notanda eins og segja má að veitufyrirtæki sveitarfélaganna hafi lengstaf  verið -  nú eða þá að þau séu rekin sem samvinnufélög.     Það er hins vegar skrítin staða að sveitarfélögin og ríkið hafa hálft í hvoru hagað sér með veitufyrirtækin eins og þau séu nk. hlutafélög í eigu opinberra aðila en rekin til að hámarka hagnað eigenda sinna og greiða arð sem hirtur er í sömu hít og skattpeningar.

Umræðan um orkupakka 3 hefur farið algerlega út um víðan völl; -  þar hefur því verið logið að fólki að ESB sé að krefjast einkavæðingar á orkufyrirtækjum okkar Íslendinga.    Því hefur líka verið logið að O3 krefjist þess að raforkukerfi Íslands verði tengt við sameiginlegt raforkukerfi Evrópu með sæstreng til Bretlands.       

Hvorugt af þessu er rétt -  og ekki einu sinni fótur fyrir því:   verði einkavæðing framkvæmd á orkufyrirtækjum þá er slíkt bein pólitísk ákvörðun sem tekin verður af innlendum pólitíkusum.     Verði lagður sæstrengur til Bretlands þá verður það ekki gert nema með samþykki íslenskra stjórnvalda og Alþingis.     Hvorugt af þessu breytist hætis hót – með eða án O3 og ekki heldur með eða án O1 eða O4.

Það eina sem virkilega stendur uppúr í umræðunni er það virðist víðtæk andstaða við einkavæðingu orkufyrirtækja meðal almennings.    Kjósendur vilja ekki selja Landsvirkjun og kjósendur vilja ekki að Orkuveita Reykjavíkur né Norðurorka eða önnur orkufyrirtæki komist í hendur braskara og gróðapunga.    Hins vegar má alveg hafa áhyggjur af því að stjórnmálamenn á ALþingi vilji ekki setja girðingar til að takmarka hættuna á að Ísland lendi inn í Enron-líkum spiral með einkavæddum orkufyrirtækjum þar sem innlendir einkavinir og græðgisberserkir kæmust upp með að handstýra verðmyndun og framkalla orkuskort – um leið og þeir fengju færi á að flytja stórgróða úr landi og koma fyrir á aflandseyjum eins og við höfum fengið óþægilegan smjörþef af á öðrum sviðum -  fjármálastarfsemi, stóriðju,  fiskveiða og vinnslu og sölu . .

Eina leiðin til að girða fyrir þann háska sem fælist í einkavæðingu orkuauðlinda þjóðarinnar sem og annarra auðlinda -  væri að festa í sessi stjórnarskrárbreytingar á grunni tillögu Stjórnlagaráðs frá 2010-2011 og samþykkt var með yfirgnævandi stuðningi í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012.

Að þessu eigum við að snúa okkur – öll -  og hætta að láta þvæla umræðunni um víðan völl - - af því að stjórnarskrárbreyting sem festir þjóðareign á auðlindum í sessi mun geta varið íslenskan almenning gegn arðráni á mikilvægustu sviðum efnahagslífsins.     Orka og fiskveiðar og umhverfisnýting í víðu samhengi fyrir ferðaþjónustu og lífsgæði almennings – eru grundvöllur efnahagslífsins og framtíðarhagsmuna núverandi kynslóða og allra annarra kynslóða þeirra Íslendinga sem eru ófæddir og enn ófluttir til Íslands.