Bensi og Ólafur Ragnar:
Þegar ég var hálfstálpaður drengur í Mývatnssveit trúði ég því að ég væri andvígur Viðreisnarstjórninni. Man reyndar eftir mér haustið 1958 líklega - - þegar eldri bróðir hafði af nýfenginni heimsmennsku ákveðið að beita sér í pólitík að ég reisti með honum frumstætt kröfuspjald sem á var letrað „strax aftur vinstri stjórn“ – en þá hafði Hermann Jónasson nýlega sagt af sér og beðist lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Skítakratarnir í Alþýðuflokknum höfðu þá náð höndum með Hannibal og sprengt stjórnina - - eins og þeir léku aftur og aftur á öllu tímabilinu frá því hermangið og viðskiptamútur voru leiddar til vegs í íslenskri pólitík. Ólafur Ragnar var þá enn á barnsaldri eins og við – líklega nýbúinn að kynnast Ingibjörgu Þorbergs.
Undir lok áratugar síldarhrunsins og stórtækustu gengisfellinga fyrir Hrunið stóra - - efldist Framsóknarflokkur Eysteins Jónssonar sem félagshyggjuflokkur með hófsama nálgun á umhverfismál og með endurnýjaða róttækni í samfélagsmálum. Við lok þess áratugar tók forysta ungs fólks í flokknum saman höndum með Eysteini um að aftengja Framsókn frá því spillingarbandalagi með gamla SÍS sem Vilhjálmur Þór hafði á sínum tíma innleitt – ásamt þeim sem unnu alltaf bakvið Hermann Jónasson og kusu fremur friðarbandalag við stórkapítalið heldur en að fylgja róttækum samfélagsumbótum í anda ungmennafélaganna og frum-samvinnufélaganna.
Ólafur Ragnar Grímsson stimplaði sig sterklega inn á sviðið í Sambandi Ungra Framsóknarmanna (SUF) á þessum tíma og sem erfðaprins Eysteins í öflugasta kjördæmi flokksins á Austurlandi leit út fyrir að braut hans yrði greið. En því miður og þá var Ólafur Jóhannesson lagaprófessor orðinn formaður Framsóknarflokksins - - gersneyddur þeirri jarðtengingu sem samvinnu- og ungmennafélagshreyfing áður veitti forystu flokksins - - og á tíma ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar 1971-1974 skarst í odda. Möðruvallahreyfingin var sprengd út úr Framsóknarflokknum sem félagshreyfing. Með því missti flokkurinn heila kynslóð þjálfaðra ungliða – og í tómarúmið sem skapaðist voru dúkkaðir upp drumbar og hagsmunaseggir sem reyndust flokknum að lokum talsvert háskalegir.
Hugmyndin um svokallaða „sameiningu vinstrimanna“ sem SUF leiddi ásamt ungliðum í Alþýðuflokki og nokkrum ómarxískum hópum vinstri manna – höfðaði talsvert sterkt til mín í kring um tvítugsaldurinn. Ég var samt afstöðulítill og án þáttöku í stjórnmálum í gegn um menntaskóla og vel fram yfir 20 ára aldurinn - enda ekki fæddur til frama eða hlutverka í stjórnmálum.
Ólafur Ragnar kom inn í breytt hlutverk Ríkisútvarpsins 1971 - - í Útvarpsráði og í dagskrárgerð – og vakti athygli einkum í því að hreyfa við sjálfteknum forréttindum gamla íhaldsins og peningaaflanna. Margvíslegir umræðuþættir og erindaflutningur – með gagnrýnum sjónarmiðum – komst á dagskrá gamla RÚV og sjónvarps allra landsmanna. Á sama tíma var ný félagsvísindadeild að festa rætur í Háskóla Íslands. Ólafur Ragnar var manna mest áberandi í þessarri þróun - - „höfðingjadjarfur“ og óhræddur - - „óskammfeilinn“ að mati hinna íhaldssömu og valdhlýðnu. Ég lagði við hlustir þegar þessi ungi framgjarni maður lét vita af sér í fjölmiðlum þess tíma.
Brottrekstur Möðruvallahreyfingarinnar úr Framsóknarflokknum varð sennilega til þess að ég gat ekki átt neina samleið með Framsóknarflokki Ólafs Jóhannessonar. Gerðist hins vegar félagsmaður í Alþýðubandalaginu 1975 (og fékk mótatkvæði við inngöngu frá gömlum róttæklingum á félagsfundi á Akureyri. . . ). Líklega var Ólafur Ragnar með restunum af „Hannibalistum“ (Samtökum Frjálslyndra og Vinstri manna) í kosningum 1974 - - en árangur þess flokksbrots skilaði að vísu inn tveimur þingmönnum (Karvel og Magnúsi Torfa) en engri framtíð fyrir stjórnmálahreyfingu. Ólafi Ragnari var heilsað með kossi þegar hann síðan gekk til liðs við Alþýðubandalag Ragnar Arnalds líklega 1976.
Við Ólafur Ragnar vorum í Alþýðubandalaginu árið 1978 - - virkir í málefnavinnu þegar lagður var grunnur að fyrsta kosningasigri A-flokkanna. Sá kosningasigur brann því miður upp í reyk og rugli á milli annars vegar Vilmundar Gylfasonar og hinna hvatvísu frekjudalla í Alþýðuflokknum og hins vegar þeirra íhaldssömu sovétvinveittu klíkuböndum sem verulega öflugir hópar úr Gamla-Sósíalistaflokknum réðu fyrir. Og Ólafur Jóhannesson varð forsætisráðherra. Sú ríkisstjórn skildi eftir sig skelfilegan minnisvarða í þeirri Vítisvél Andskotans sem verðtryggingin er. Með Ólafslögum í febrúar 1979 og undir hótunum frá pólitískt jarðsambandslausum þingmönnum Alþýðuflokksins var verðtryggingarskrímslinu sleppt lausu og íslenskur almenningur blæðir enn.
Í millitíðinni hafði ég örlítið kynnst ÓRG sem prófessor í félagsvísindum í Háskóla Íslands. Þau kynni og mat hans á prófúrlausn leiddu hiklaust til þess að ég vantreysti manninum og gagnvart persónulegum vinkli hans hefur óviðfelldið og lint handtak síðar fremur lengt á milli okkar.
Jafn mikilvægan skerf og Ólafur Ragnar og frjálslynda menntastéttin átti í stefnumótun fyrir gamla Alþýðubandalagið 1978 þá var formennskutími Svavars Gestssonar í framhaldinu nánast samfelld sorgarsaga flokkadrátta og endurnýjaðra klíkubardaga með tilheyrandi skítafýlu. Öflugar konur stigu út úr framlínu flokksins og gerðu sig gildandi við stofnun Kvennalistans - - sumar ekki síst af þeirri ástæðu að hroki og kvenfyrirlitning réði ríkjum hjá mörgum öflugustu leiðtogum allra fylkinga í flokknum.
Á NA-landi sótti „sósíalistaklíkan“ sér „þjóðernissinnaðan Framsóknarmann“ í Þistilfjörðinn við kosningar 1983 til að taka við af Stefáni Jónssyni birkifæti (sem líka var áður Framsóknarmaður). Sá skipaði sér í fylking NATÓ-andstæðinga og lagði í göngur í lopapeysunni sinni. Mælskur og fyrirferðarmikill gerðist hann handgenginn Svavari Gestssyni og hefði eflaust átt kost á tengslum og trúnaði við gömlu sovétvinina ef ekki hefði orðið endir á því rotna veldi.
Sjálfur lak ég út úr félagsskap með Alþýðubandalaginu eftir að valdataka Steingríms J og klíkunnar varð að meginatriði starfsemi flokksins í kjördæminu og leitaði mér félagsskapar í pólitískri eyðimörk – fyrst með Þjóðarflokknum á Akureyri 1990 og með Heimastjórnarsamtökunum í kosningum 1991. Á þessum tíma var Ólafur Ragnar formaður Alþýðubandalagsinsog fjármálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991. Þar stóð ÓRG sig að líkindum talsvert vel á mælikvarða hefðbundinna stjórnmála – en bakaði sér líka fjölmennari hóp óvildarmanna en flestir fyrirrennarar hans. Steingrímur Hermannsson leiddi stjórnmál og aðila vinnumarkaðarins saman til að gera Þjóðarsátt um að stöðva verðbólguna sem áður hafði geysað og verðtryggingin 1979 hafði fremur aukið við en að hemja. Enn er hópur gamal-róttækra opinberra starfsmanna sem hatast við Ólaf Ragnar frá þessum tíma þegar BHM og framhaldsskólakennarar voru gerðir afturreka með kjarabaráttu sína og sviptir umsömdum kjarabótum með bráðabirgaðlögum.
Ólafur Ragnar fór í prívat-flipp með Jóni Baldvin „á rauðu ljósi“ - - án þess að það höfðaði sérstaklega til mín.
Benedikt tók sér pólitíska hvíld um lengri tíma - - flokkslaus og uppgefinn á vonbrigðum og nánast úrkula vonar um að „sameining vinstri manna“ yrði nokkurn tíma að veruleika. Hanaslagur fyrsta kjörtímabils Davíðs Oddssonar á Alþingi og í stóli forsætisráðherra var að mörgu leyti blómatími fyrir þau stjórnmál sem ÓRG var bestur í . . og frægar urðu skylmingar þeirra Davíðs og yrðingin um „skítlegt eðli“ úr ræðustól Alþingis. Steingrímur J þroskaðist í þessu skjóli og æfði mælsku sína - - en eins og mörgum sem snemma lenda í pólitísku fóstri og framsæti - - þá þurfti hann ekki að takast á við neinn raunveruleika eða ábyrgð á vinnumarkaði hans þroskaveröld varð ráðherradómurinn 1988-1991 í samspili með dekurfríum fyrir Norðan borinn á höndum fjölskyldu og flokksmanna.
Benedikt fylgdist með ÓRG stíga út úr formennsku Alþýðubandalagsins og máta sig í vel hannað framboð og forsetahlutverk. Takmarkaðan áhuga hafði ég á þeim frambjóðanda og í alvarlegu vonbrigðakasti með „minn frambjóðanda“ ákvað ég að kjósa ekki til forseta í júní 1996. Á leið úr landi einn gráan dag – þegar Guðrún Pétursdóttir dró framboð sitt til baka og gerði með því úrslitatilraun til að sameina hægri öflin gegn Ólafi Ragnari – þá hringdi frú Helga og gaf þau strengilegu boð að ég færi ekki úr landi án þess að kjósa ÓRG. Benedikt hlýddi - - án sannfæringar eða þeirrar hrifningar sem æskileg er við slíkt kjör og ég hafði áður upplifað sem starfsmaður að framboði Vigdísar Finnbogadóttir 16 árum fyrr.
Viðurkenni síðan að ÓRG nálgaðist hið mannlega svið samskiptanna sjálfur og með dætrum sínum í gegn um dauðastríð sinnar elskulegu eiginkonu Guðrúnar Katrínar.
Frá þeim tíma aftur pólaríseraðist viðskiptalíf Íslendinga til nýrra flokkadrátta eftir að gamla helmingaskiptingin í Kolkrabba og SÍS-veldi hafði gufað upp um svipað leyti og Járntjaldið féll.
Allan tímann lengstaf og inn á milli var ég algerlega laus við forsetaaðdáun og reyndar urðu stjórnmálin mér aftur og aftur til vonbrigða. Það var svo fyrst með þeirri ákvörðun ÓRG að hafna því að staðfesta fjölmiðlalög Davíðs og Halldórs fór ég verulega að fá frekari vonir um að yfirgangi stjórnmálamanna yrðu einhver takmörk sett og almenningur fengi tækifæri til að tjá sig í gegn um þjóðaratkvæðagreiðslur.
Frá þeim tíma hefur orðræðan tekið á sig óþægilega illskeyttar myndir. Persónulega rætnar einkunnagjafir hafa hvað eftir annað dunið á ÓRG – með þeim hætti að það hefur dregið alla athygli frá þeim atvikum og aðgerðum sem kynnu að hafa verið umdeilanlegar á hverjum tíma. Þessar athugasemdir hafa verið upprunnar annars vegar úr því fjandskaparástandi sem klofningur Alþýðubandalagsins gamla bjó til og hins vegar frá þeim stjórnmálakúltúr sem Davíð Oddsson og trúarbragðahreyfingin kring um Hannes Hólmstein og stormsveit Eimreiðarhópsins þróaði á hinu leytinu. Nokkrir vonbrigðasamir Framsóknarmenn frá dögum Möðruvallahreyfingarinnar létu og láta einnig óþverralegan skæting í té þegar tækifæri gefast.
Ekki dettur mér í hug að ÓRG hafi ekki ýmislegt unnið sér til óhelgi með sínu fyrirferðarmikla pólitísk starfi í gegn um SUF og síðar í Alþýðubandalaginu. Ekki dettur mér heldur í hug að ÓRG hafi verið fullkominn forseti frá fyrsta til síðasta dags. Ég er einnig vel meðvitaður um að ÓRG sveiflaði hvarvetna í kring um sig meðhjálpurum sem fóru nokkuð frjálslega með peninga og stofnuðu til mikilla og kostnaðarsamra umsvifa í starfi og kosningabaráttu. Slíkt skilur alltaf eftir einhverja sem sitja uppi með að „hreinsa upp“ - - við lítið þakklæti.
Fráleitt hef ég einnig verið hrifinn af því hvernig ÓRG hefur bergmálað og framflutt sjálfsupphafna þjóðernisrembu frá dögum sjálfstæðisstjórnmála um meira en 100 ára skeið frá því á dögum Fjölnismanna og fram að lokum landhelgisdeilna - - og fram að endalokum Kaldastríðsins og inngöngu í EES. Enn síður hef ég fallið í stafi yfir því hversu sterklega ÓRG hefur tengt sig við glamúrliðið sem áður fyrleit hann - - endurnýjaðir fulltrúar forréttindastéttar heildsala og fjáraflamanna - gerðu ÓRG að „sínum manni“ . . og hann samsamaði sig eyðslukúltúrnum.
Alvarlegasti gallinn við þessa rógskenndu orðræðu - - þennan persónulega óvildarhug og rætni - - sem aftur og aftur hefur verið dreginn upp og keyrður í fjölmiðlum gegn ÓRG að hann stórskaðar foresetaembættið og raunar alla samfélagslega umræðu.
Sorglegast er nú samt að mínu mati að eftir Hrunið stóra þykjast „alls konar álitsgjafar“ allan tímann hafa verið gagnrýnendur á þá túlkun á hlutverki forseta Íslands sem ÓRG hefur rekið. Einstaklingar sem sjálfir voru á kafi í því að þjónka útrásarvíkinga - - sögðu ekki orð við siðleysi í viðskiptum og pólitískum mútum hagsmunaaðila – þykjast nú allan tímann hafa verið boðberar „heiðarleika og gagnsæis“ . . .
Það var auðvitað ekki ÓRG sem fattaði upp á að beina hlutverki forseta Íslands í kynningarfulltrúa íslenskra hagsmuna – menningar, viðskipta og ferðaþjónustu öðru fremur – þar var Vigdís Finnbogadóttir búin að leggja afgerandi línur.
Það var ekki Ólafur Ragnar sem fann upp á því að eiga samferð með viðskiptamógúlum fyrir hönd forsetaembættisins - - þar var Vigdís búin að leggja slóðina - - og á þeim miklu fremur áferðarmunur sem mótast af ólíkum persónum og stíl – frekar en að þar sé eðlismunur á.
Það var ekki Ólafur Ragnar sem velti fyrir sér inngripi í pólitíkina fyrstur forseta: þar lágu fyrir fordæmi Ásgeirs Ásgeirssonar og Sveins Björnssonar og jafnvel Kristjáns Eldjárn.
Samfara græðgiskúltúr síðustu áratuga breyttust öll tök fjölmiðlanna - - mönnum var ekki lengur neitt „heilagt“ - - og eftir að yfirgangur hægri íhaldsmanna gagnvart Vigdísi var að baki þá var ekkert sem stöðvaði þá sem vildu skerpa á óvild og andstöðu í garð ÓRG. Vigdís lifði illmæli Reykjavíkuríhaldsins af - - lítið sködduð - - en varð örugglega mjög þreytt á þeim fyrirgangi.
Ólafur Ragnar á hinn bóginn – reyndist áfram „höfðingjadjarfur“ og gekk fúslega inn á sviðið og tjáði sig án þess að kveinka sér yfir mótbyr og fjaðrafoki – t.d. um vegadrullu á Vestfjörðum . . . eða annað sem snerti líf almennings í byggðum.
Á forsetastóli þykir mér Ólafur Ragnar oftast hafa staðið sig vel - - hann les aðstæður og talar til fólksins – virðist upphafinn og nær „stemmingunni“ . . . Hann hefur verið að tengja sig að nýju við „frjálslyndisdöflin“ - - en á sama tíma að daðra við þjóðrembuíhaldið. Þó ég hafi haft allar efasemdir um ICESAVE og viljað samþykkja Bucheitsamninginn – og var opinn fyrir gagnrýni af öllum gerðum þá taldi ég Ólaf gera rétt að senda lögin til þjóðarinnar. Ekki var ég endilega sammála eða ánægður með föksemdir ÓRG við þær ákvarðanir - - en þjóðin eignaðis sína rödd - - og það þykir mér afar mikilvægt.
Það hefur vakið athygli mína lengi hversu mikil og víðtæk tengsl ÓRG hefur við alþjóðlegt háskólasamfélga og við stjórnmál – einkum frjálslynd til vinstri áður. Í slíkum samskiptum hefur hann skotið öllum öðrum íslenskum stjórnmálamönnum ref fyrir rass - - og það leiðir til öfundar og illmælis eins og við höfum sannarlega og margsinnis orðið vitni að. Einstaklingur sem lætur til sín taka – með ófeimni og jafnvel sjálfstrausti sem mætti túlka sem yfirlæti á stundum – og af verulega grundaðri þekkingu á mörgum sviðum – slíkur stjórnmálamaður framkallar eða fær á sig margvíslegar öfundargusur og niðurlægingartilburði hinna sem skortir sjálfstraust eða finna sig á einhverju stigi í skugga eða að baki.
Líklega er Ólafur Ragnar alls ekki einstaklingur sem ég mundi sækjast eftir nándarfélagsskap af - - til þess finnst mér hann fljótt á litið alltof sjálflægur. Hinu neita ég ekki að á sviði stjórnmálafræðanna og stjórnskipunarmála og alþjóðlegrar samfélags-umræðu – þar er ÓRG vel heima og „veit af því“ - - og biðst hvergi afsökunar á því.. Kannski skortir hann hógværð og auðmýkt til að heilla allan fjöldann - - og kannski er hann of vel heima og of sjálfsöruggur til að losna við ósanngjarna og niðurrífandi orðræðu hinna - - sem vilja skilgreina sig sem „andstæðing hans“
Hvað sem öðru líður þá hefur Ólafur Ragnar gerbreytt forsetaembættinu að mörgu leyti - - og einkum að því leytinu að hann hefur gefið því kjark og sjálfstæði gagnvart sjórnmálavaldi dagsins - - þetta sjálfstæði sem allir eftirkomendur munu geta nýtt sér - - verða þeir líka krafðir um að nýta sér í þágu almennings og beins lýðræðis.
Ég met Ólaf Ragnar fyrir það – og fyrir margvíslegt framlag hans til alþjóðlegra samskipta í umboði Íslands. Þar munu framtíðartækifæri hans liggja - ef honum endist heilsa til.
„Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar“ - - er líkleg til að draga að sér umtalsverðan fjárstuðning frá Asíu einkum - - en um leið sýnist mér alveg einboðið að sem fyrrverandi forseti Íslands - - síhvatur til orða – muni Ólafi Ragnari bjóðast mörg og verðmæt tækifæri til að koma fram á fundum og ráðstefnum - - og jafnvel sem verkstjóri eða yfirmaður í alþjóðastofnunum.
Ég er hins vegar alveg laus við að vera með neinum hætti „hirðmaður Ólafs Ragnars né sérstakur aðdáandi“ . .