Nýárs blessuð sól

Nýárs blessuð sól. 

Árið 2011 heilsar með veðurblíðu hér við Pollinn.   Þessir fyrstu morgnar ársins vekja  birtu í sinni.  Veðrið og birtan ráða miklu um þá bylgjulengd sem ég stilli mig inn á og hafa með því áhrif á það hvað mér dettur í hug að setja á dagskrá yfir það sem mig langar að koma áleiðis á komandi mánuðum.   Sama þó nú sé spáð verulega leiðinlega fyrir næstu daga – við njótum á meðan það endist.

 

Einhvern veginn er það svo eftir þá orrahríð sem gengið hefur á í samfélaginu að mér verður það fyrir að leiða hugann frekar að því sem er persónulegt og jákvætt meðal minna nánustu.

 
  • Þannig leyfi ég mér að þakka fyrir að vera sjálfur býsna heilsugóður og bjartsýnn þessa skammdegisdaga.   Sérstaklega þakka ég auðvitað fyrir að fá að njóta þess að eiga góða jóladaga með eiginkonu og dætrum á Krókeyrarnöfinni og samveru með vinum og stórfjölskyldu.

 
  • Við frú Helga héldum hér okkar fyrstu jól í nýju húsi á Krókeyrarnöfinni og ræðum í gamni og alvöru um að við séum búin að byggja elliheimili – hannað fyrir sérvitur gamalmenni.   Engir þröskuldar og fært fyrir “hjólastól eða göngugrind framtíðarinnar” . . .    og svo risastór-sólpallur þar sem maður lætur sig dreyma um að njóta samvista við vini og góða afþreyingu - - eða bara til að drekka lífskraft úr sólargeislunum.    

 
  • En byggingu og frágangi umhverfisins er auðvitað hvergi nærri lokið og eitt af stóru verkefnunum sem verður á dagskrá þetta árið.   

  • Gott fyrir mig; - - ég þoli sannarlega ekki verkefnaleysi framundan þó ég telji mér alltaf inn á milli trú um að óskandi væri að öllum verkum væri lokið í eitt skipti fyrir öll.