Nýárs blessuð sól. Árið 2011 heilsar með veðurblíðu hér við Pollinn. Þessir fyrstu morgnar ársins vekja birtu í sinni. Veðrið og birtan ráða miklu um þá bylgjulengd sem ég stilli mig inn á og hafa með því áhrif á það hvað mér dettur í hug að setja á dagskrá yfir það sem mig langar að koma áleiðis á komandi mánuðum. Sama þó nú sé spáð verulega leiðinlega fyrir næstu daga – við njótum á meðan það endist.
Einhvern veginn er það svo eftir þá orrahríð sem gengið hefur á í samfélaginu að mér verður það fyrir að leiða hugann frekar að því sem er persónulegt og jákvætt meðal minna nánustu.