Hugtakið byggðastefna hefur á síðustu árum fengið á sig neikvæðan blæ - og verið tengt mistökum og jafnvel spillingu og fyrirgreiðslupólitík í sinni verstu mynd. Mikilvægt er að ná umræðunni upp úr slíku fari. Þar veltur örugglega mest á okkur sem byggjum landsbyggðina og þeim öðrum sem hafa þá sýn að landið þurfi allt að geta fóstrað heilbrigð samfélög. Ég vil freista þess að leggja mitt að mörkum með því sem ég vil kalla Nýja BYGGÐASTEFNU sem felur í sér "sókn fyrir landsbyggðina" - á jafnræðisgrundvelli með Höfuðborgarsvæðinu. Opinberar stofnanir á landsbyggðinni, framhaldsskólar, háskólar og sjúkrahús mega ekki vera áhrifalaus útibú - sem stjórnað er með einræði ráðuneytanna í Reykjavík. Útibúa-stefnan hefur gengið sér til húðar í opinberum rekstri. Því miður er útibúastefnan nú að taka völdin einnig í rekstri fyrirtækjanna - sem starfa í sífellt meiri mæli á landsvísu.
Vífill Karlsson dósent á Bifröst hefur fjallað um það hvernig ríkisvaldið flytur fjármuni frá landsbyggðinni til Reykjavíkur - og skilar ekki til baka nema broti af skattfénu í gegn um umsvif sín. Skýrsla Iðnaðarráðuneytisins um fasteignamarkaðinn frá síðasta hausti gefur býsna góða mynd af því hvernig þessu eru varið.
Ný nálgun á byggðastefnu:
Ríkisvaldið innheimtir sambærilega og hærri skatta af landsbyggðarbúum en skilar nú til muna miklu minni fjármunum til baka til landsbyggðarinnar í formi rekstrarfjár opinberra stofnana. Þetta er áberandi gagnvart td. rekstri háskóla og heilbrigðisþjónustu. Það er mikilvægt markmið að ríkisvaldið stýri umsvifum sínum til landshluta og vaxtarsvæða í nokkru samræmi við íbúafjölda. Þannig og því aðeins tekst að skapa það jafnræði íbúanna og það valfrelsi um búsetu sem jafnaðarmenn geta sætt sig við. Í því felst að skapa forsendur fyrir því að launavelta ríkisstarfa dreifist á landshlutana. Þjónustuumhverfi og aðgengi að samgöngum, Íþróttum, menningu, útivist og afþreyingu – og þó etv. ekki síst aðgengi að háhraðatengingum og fjölrásasjónvarpi skipta meginmáli fyrir búsetu nútímafólks. Til að koma til móts við gerbreyttan vinnumarkað og lífsgæðakröfur - er mikilvægt að ríkisvaldið leggi að mörkum. Ég vil beita mér fyrir eftirfarandi aðgerðum án tafar:
o Alþingi samþykki að fela ríkisstofnunum og ráðuneytum að auglýsa á næstu 5 árum 2000-3000 ný sveigjanleg störf hjá ríkisstofnunum og ráðuneytum – með endurskilgreiningu eldri starfa og jákvæðri mismunun gagnvart nýráðningum fólks sem býr utan Reykjavíkusvæðisins. Slík störf verði unnin frá heimilum og frá skrifstofuhótelum og þekkingarsetrum á landsbyggðinni.
o Framhaldsskólar á landsbyggðinni fái aukna fjárveitingu til að mennta nemendur – bæði svæðisbundið og sækja nemendur til þéttbýlissvæða í samræmi við hlutfallslega dreifingu íbúa.
o Háskólinn á Akureyri og Hólaskóla verði bundnir í samstarf (sameiningu) og á næstu 5 árum verði framlag ríkisins til háskóla á landsbyggðinni aukið þannig að ársnemendum fjölgi úr því að vera 16% af heildinni í það að vera 25-30% af heildinni – eða í nánara samræmi við það hlutfall sem landsbyggðin leggur til hvers árgangs sem vex úr grasi.
o Fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar verði endurskilgreind þannig að sjúkrahúsþjónusta á landsbyggðinni velti hlutfallslega þeim fjármunum sem íbúafjöldi svæða stendur undir. Með verkaskiptingu og sérhæfingu og samningsverkefnum á fjölþjóðamarkaði verður bæði til samstarf og samkeppni milli sjúkrahúsa.
o Háskólar, sjúkrahús og stærri heilbrigðisstofnanir, framhaldsskólar verði gerð að sjálfseignarstofnunm sem geta sótt til velvildaraðila í viðskiptalífinu, almannasamtaka og sveitarfélaga um stuðning og þátttöku í stjórnun stofnananna. Með þessu móti eignast sjúkrahúsin og skólarnir málsvara sem sækja rétt þeirra og hagsmuni gagnvart ríkisvaldinu. Þannig munum við geta breytt þeim úr því að vera áhrifalaus útibú – í framsæknar stofnanir sem fjölga tækifærum landsbyggðarbúa – Íslendinga allra – og efla raunverulegt búsetufrelsi í landinu.