Móðir jarðsungin á Skútustöðum

Þorgerður Benediktsdóttir f. 5.4.1916
Þorgerður Benediktsdóttir f. 5.4.1916

 

Móðir mín Þorgerður Benediktsdóttir lést 8. október sl. - 93 ára að aldri.

Hún var fædd 5.apríl 1916.    Eftir að hafa lokið prófi frá alþýðuskólanum á Laugum fór hún í Kennarskóla Íslands þar sem hún útskrifaðist með kennarapróf 1939.  Hún kenndi í Reykjadal og á Húsavík.    Árið 1947 giftist hún föður mínum Sigurði Þórissyni frá Baldursheimi.   Þau settu saman bú sitt á Grænavatni og þar bjuggu þau til æviloka.  Pabbi féll frá 2001.

Ég ávarpaði viðstadda og Erlingur bróðir flutti ljóð.  Lítið var um kristniboð í athöfninni.

 

Ágæta fjölskylda, ættingjar og vinir.  Ég ávarpa ykkur hér fyrir hönd okkar bræðra. Eins og þið vitið var móðir okkar aldrei mikið fyrir tilstand - - eða fyrirhöfn sjálfrar sín vegna - - jafnvel svo að okkur þótti nóg um. Hún var hins vegar tilbúin að leggja að mörkum fyrir aðra - - og hafa börnin okkar sannarlega fengið að njóta þess. 

Mamma var á yfirborðinu kannski ekki svo stjórnsöm - - eða skýr í fyrirmælum dags- daglega - - en tilætlanir hennar komust oft til skila með orðlausum hætti.

 

Þegar hún fann aldurinn taka frá sér  kraftana – vissum við af því að hún hefði skoðun á því hvernig hún vildi skipuleggja sína hinstu ferð í Skútustaði.

 

Þrátt fyrir að hafa fengið hjartaáfall 26. júní sl – sem batt hana við sjúkrabeðinn á Húsavík – þá hélt hún reisn sinni og nær fullri andlegri virkni – til síðustu daga.

 

Hún missti t.d. næstum engan fréttatíma RÚV fyrr en þriðjudaginn áður en hún kvaddi.   En það vakti athygli vaktfólksins að hún hafði ekki opnað útvarpið og stillt á fréttirnar þann morguninn.

 

Mamma lést á Sjúkrahúsinu á Húsavík fimmtudaginn 8. október.

 

Hún var meira en tilbúinn að kveðja þetta líf - - átti þannig séð engu ólokið.

 

Í náttborðinu hennar heima á Grænavatni var umslag – stílað til Erlings Benedikts og Hjörleifs - - - ritað hennar ótrúlega flottu rithönd.

Á því stóð; “Þið opnið þetta þegar ég hef lokað á eftir mér.  Mamma”

 

Inngang bréfsins les ég ykkur hér

“Ég hef alltaf ætlað að ráðstafa (í aðalatriðum) hvernig mér yrði komið í jörðina.

Ræðu afbið ég, þarna koma þeir sem þekkja mig að sjálfsögðu betur en presturinn.  Einnig mér óskiljanlegar ritningargreinar.

 

Ég er ekki mótfallin boðskap Jesú Krists, því ef við, sem teljum okkur kristin,  hefðum borið gæfu til að fara eftir honum, hefðu ekki styrjaldir og annar ósómi viðgengist í heiminum,  en ekki er útlit fyrir að þeim hörmungum linni.”

 

Þannig opnaði hún sín einföldu fyrirmæli.

 

-         - og - Þó við bræður höfum gjarna  reynst móður okkar einungis misjafnlega óhlýðnir – – og misjafnlega samtaka heima á Grænvatni – þá er það ágreiningslaust að fylgja eftir föngum óskum hennar um tilhögun þessarrar athafnar. 

Og hér erum við komin til kveðja hana – á okkar einlæga og persónulega hátt – hvert og eitt - með nærveru okkar - og með því að vera við sjálf.