Einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn
Málefni lífeyrissjóðanna eru líklega allra stærstu mál samfélagsins til skemmri og lengri tíma litið. Sjóðssöfnun þeirra og umsvif á síðustu 30 árum hafa gert sjóðina að stærstu umsvifaaðilum í fjármálakerfinu og sem þrýstihópur eru þeir farnir að láta til sín taka með þeim hætti að kalla má þá „ríki í ríkinu.“
Með vísan til þess að stjórnir sjóðanna eru almennt ekki höndum almennings sem eru hinir réttur eigendur sjóðanna, heldur í höndum handvalinna fulltrúa verkalýsðfélaga annars vegar og atvinnurekenda hins vegar - þá verður til afar mikil slagsíða gagnvart lýðræðislegri skipan og hætta á að almannahagsmunir lendi undir en sérhagsmunir og skammtímamiðaðir hagsmunir „fjármálaaflanna“ verði allsráðandi.
Sjóðmyndun lífeyriskerfisins hefur þannig breyst í valdatæki og aðgang fámennrar elítu að því að skáka til hagsmunum og hygla vinum sínum og bandamönnum og beita afli sjóðanna til pólitískra áhrifa.
(Margir vísa til Noregs um sambærilegt fyrirkomulag, en það er alls ekki rökrétt. Norski Olíusjóðurinn er allt annars eðlis - þar sem afgjaldi af óvæntri auðlind er stýrt til að standa undir framtíðarlífeyri eldri og öryrkja. Sjóðnum er nú bannað að taka stöður í innlenda fjármálamarkaðnum og fyrirtækjum. Einnig eru nú komnar fram efasemdir um að slík geymsla og sjóðsöfnun geti talist samfélagslega ábyrg og raunsæ - - af því að aðferðir til að geyma og ávaxta slíka gríðarlega fjármuni virðast nú um stundir afar áhættusamar og mögulega ekki siðferðilega ábyrgar.)
Um langan tíma hafa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna verið bitbein og litin öfundaraugum af hávaðasömum talsmönnum markaðsvæðingarinnar og lukkuriddurum í forsvari fyrir verkalýðsfélög á almennum markaði - - og þeir hafa sumir reynt að beina gremju almennra félaga sinna að betri rétti opinberra starfsmanna - - án þess að geta bent á leiðir til að tryggja almenningi sambærileg kjör.
Frá því að verðtrygging var innleidd með Ólafslögum 1979 -- að kröfu stormsveitar gamla Alþýðuflokksins gegn vilja flestra Framsóknarmanna og Alþýðubandalagsmanna - þá breyttist óðaverðbólga áratugarins á undan í ofsaverðbólgu 1979 til 1984 . . . .og þannig bendir margt til að verðtryggingin hafi beinlínis aukið verðbólguvandann fremur en að leggja lið til að hemja verðbólguna.
Eignamyndun lífeyrissjóðanna frá 1980 og til 2010 hefur verið nokkurn vegin samhliða aukinni skuldsetningu íslenkra heimila - - og því miður byggst á þeirri hugmynd að ávöxtun í bóluhagkerfi gæti orðið viðvarandi og að verðtryggð lágmarksviðmiðun af 3,5% mundi færa öldruðum og öryrkjum velferð og fjárhagslegt öryggi á lífeyristíma.
Lífeyriskerfið íslenska framlengir launamisrétti á starfstíma einstaklinganna inn á tímabil elli og eftirlauna í meira mæli en áður var með því að hlutur almannatrygginga minnkar í eftirlaunum sem ekki gerðu mannamun á forstjóra og verkamanni – og til viðbótar hefur séreignarlífeyriskerfi verið byggt upp við hliðina - - þar sem þeir einir sem eru vel settir í launum og kjörum geta byggt upp séreignarlífeyri að marki með eigin afla.
Þar við bætist sú eignasöfnun sem launhærri og aðstöðubraskara geta safnað að sér á líftíma - - og ýkt og aukið við með velheppnaðri spákaupmennsku og uppgripum í spilltu kerfi.
Talað er um sjóðsöfnun lífeyriskerfisins sem „sér-íslenska snilld“ þar sem engin ríki hafa byggt á sjóðsöfnunarkerfi að miklum meirihluta til að standa undir lífeyrisgreiðslum heldur nota gengumstreymiskerfi að meirihluta þar sem samtímafólk á vinnumarkaði stendur undir megninu af lífeyreisgreiðslum - - þó sjóðsöfnun sé nauðsynleg og notuð að hluta til að draga úr sveiflum í afkomu og stærð árganga og atvinnustigi. Almennt lífeyriskerfi er þannig hluti af og samkeyrt með skattkerfi og almannatryggingum víðast í Evrópu.
Lengi vel hafa lífeyrissjóðirnir verið nánast einu kaupendur skuldabréfa og umsvifamiklir kaupendur hlutabréfa á innlendum markaði. Verðmyndun á vöxtum skuldabréfa hefur þannig alls ekki stuðst við opna markaðsvirkni - - fremur verið á fákaupamarkaði - - og þannig hafa sjóðirnir nánast tryggt sér hátt vaxtastig – verðtryggða okurvexti – á skuldbréfum.
Því er von að forsvarsmenn ASÍ láti nú líta út eins og þeir spyrji „hvort verðtrygging og okurvextir“ séu náttúrulögmál á Íslandi.
Umsvif lífeyrissjóðanna í Kauphöllinni árin frá 1990 voru veruleg og með því að sjóðirnir voru næstum einu aðilarnir sem réðu yfir handbæru eiginfé - - meðan þenslubólan var blásin út - þá er ábyrgð þeirra sem skapenda innistæðulauss bóluhagkerfis græðginnar mjög mikil. Ávöxtun og stækkun sjóðanna um 300 milljarða á ári er óraunsæ hugmynd og ekki sjálfbært að miða við stækkun langt umfram hagvöxt til lengri tíma.
Hugmyndin um söfnunar- og ávöxtunarlífeyrissjóð sem meginstoð lífeyriskerfis fremur en gegnumstreymissjóð við hlið almannatrygginga ríkisins – er líklega næstum galin frá upphafi - -og algerlega í andstöðu við þann raunveruleika að íslenska þjóðin var og er yngri en nágrannaþjóðir og því ætti aldurssamsetning þjóðarinnar og virkni á vinnumarkaði einmitt að geta staðið undir öflugra gegnumstreymiskerfi heldur en nokkur nágrannaþjóð í V-Evrópu.
Fjöldi lífeyrissjóða er líka fráleit hugmynd; rekstrarkostnaður sjóðanna sóar fjármunum og verktakakostnaður vegna ávöxtunartilburða á markaði er gríðarlegur og falinn í uppgjöri sjóðanna með því að sérgreina ekki þann kostnað þegar afkoma eða ávöxtun er bókfærð.
Með Íslenska-Hruninu og með alþjóðlegri fjármálakreppu sem virðist komin til að vera - og varanlegum gjaldeyrishömlum ætti öllum að vera ljóst að sjóðsöfnun lífeyrissjóðanna er of stór fyrir hagkerfið.
Með óbreyttri stjórn sjóðanna eru áhrif og völd fámennrar elítu sem tengist valdakerfi atvinnurekenda og bankakerfis beinlínis ógnun við lýðræðislega skipan í okkar veika stjórnmálakerfi.
Nú ryðjast fram starfsmenn og stjórnarmenn lífeyrissjóðanna - - menn sem hafa allt aðra hagsmuni en almenningur landsins - - og láta til sín taka í orðræðunni og beita þrýstingi. Þessir aðilar eiga auðvelt með að vaða yfir almannahagsmuni í krafti yfirburðastöðu sinnar og aðgangs að vettvangi fjölmiðlanna og tengslum við ráðamenn í stjórnmálum.
Hér stefni í óefni og brýnt að stokka upp lífeyrissjóðakerfi landsmanna.
1. Stofna ætti einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn - með lögum. Endurreikna og verðmeta þarf að nýju áunnin réttindi allra sem eru inn kerfinu og skal ríkissjóður taka ábyrgð á þeim réttindum gegn því að ríkissjóður tryggir áframhaldandi útgáfu verðtryggðra skuldabréfa - með hámarksvöxtum við 1% þannig að sjóðirnir geti áhættulaust geymt fé sjóðsfélaga.
2. Reka ætti eina sameiginlega greiðslustofu með Almannatryggingum og samhæfa lífeyrisréttindi og rétt til lágmarksframfærslu einstaklinga þannig að dregið verði úr tekjuskerðingum vegna lágmarksframlaga almannatrygginga þar til slíkar tekjuskerðingar verða aflagðar og lífeyrir skattlagður eins og allar aðrar tekjur.
3. Nýtt lífeyriskerfi tekur við þar sem allir einstaklingar greiða hlutfall af launum - - en taka lífeyri að sama lágmarksgrunni óháð ævitekjum.
Skala þarf niður sjóðsöfnun og með því má lækka iðgjöld til sjóðanna úr 12% og væntanlega niður í 8% af launum (eða lægra) á næstu 4 árum.
4. Séreignarsjóðsmyndun einstaklinga verði alfarið aðskilin frá starfsemi almenna lífeyriskerfins og fari eftir það fram á vegum tryggingafélaga og bankastofnana og skapaður lagarammi og eftirlit þeirrar starfsemi verði gagnsætt til verndar hagsmuna almennings.
5. Fæðingarorlofssjóður verði sameinaður almenna lífeyrissjóðakerfinu og skilgreindur samkvæmt sömu meginatriðum þar sem allir á vinnumarkaði leggja að mörkum til fæðingarorlofs og laun í foreldraorlofi miðist við ákveðið hlutfall meðallauna á vinnumarkaði.
6. Stjórn lífeyriskerfisins – sem starfar framvegis eftir lögum frá Alþingi - verði kosin beinni kosningu og svari undir Alþingi og eftirlit Ríkisendurskoðunar. Upplýsingalög gildi um alla þætti starfseminnar framvegis.
Markmið slíkra breytinga:
· Að tryggja öllum Íslendingum lágmarkslífeyri í kring um barnsfæðingar í fjölskyldu og á örorku og eftilaunatímabili og draga þannig verulega úr því kjaramisrétti sem framlengist inn á lífeyristímabil.
· Að lýðræðisvæða þau umsvif sem sjóðsmyndun og ráðstöfun mikilla fjármuna hefur í för með sér.
· Að skala lífeyriskerfið út úr núverandi sjálfheldu óraunsærra hugmynda um ávöxtun og draga úr þeim lýðræðishalla sem fjármálaumsvif fámennrar elítu óhjákvæmilega skapar.
Hér eru á ferðinni afar mikilvægir hagsmunir almennings og afdrifaríkar ákvarðnir þarf að taka og það fljótt. Það kerfi sem byggt var á fyrir Hrun og líklegt var að gæti þrifist - byggðist á bóluhagkerfinu og ávöxtunarhugmyndum og græðgi – sem þegar hefur orðið íslenska fjármálakerfinu að falli og leggur nú drápsklyfjar á almenning.
Skuldakreppa almennings og fyrirtækjanna á Íslandi dagsins í dag skýrist af engu frekar en af yfirgangi lífeyrissjóðaelítunnar - - sem krafðist þess að ekki yrði gripið til frystingar á vísitölum í framhaldi af neyðarlögum í október 2008.
Kjarninn í ávöxtun og í bókfærðum eignasöfnum lífeyrissjóðanna samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands eru nú verðtryggðar og stökkbreyttar skuldir almennings. Skuldir sem ekki verður hægt að greiða og engin sanngirni er að einn kynslóðahópur íslendinga greiði sem sérstakan skatt af því einu að hafa verið lántakandi á árabili verðtryggingar og þenslu í gegn um hrun 2008 og fram yfir 2011.
3.des. 2011