Lífeyrissjóðakerfið

Lífeyrissjóðakerfið er á góðri leið með að “éta börnin okkar”

Íslenska skylduaðildarkerfi lífeyrissjóða leggur nú þegar 12%viðbótarbyrði á alla launþega.  Nú hefur almenni markaðurinn ákveðið að þyngja þessa byrði í 15,5% - og haft er í hótunum um að það verði jafnvel farið í 18% álagningu af hverri einustu launakrónu.    Á sama tíma er bollalagt um að hækka þurfi lífeyristökualdur í 70 ár.  

Þetta lífeyrissjóðakerfi hefur stækkað eins og skrímsli – og sogar nú til sín vöxt sem er verulega umfram þann hagvöxt sem vinnandi fólki tekst að kreista úr  efnahagslífi og auðlindum þjóðarinnar. 

Frá 2004 hefur vöxturinn orðið 50% -  úr því að vera um 100% landsframleiðslu í það að vera 147% árið 2014 og Landsbankinn telur að vöxturinn á einu ári hafi orðið um 8% af landsframleiðslu þannig að við síðustu áramót nemi þetta eignahlutfall um 155% af vlf.  https://www.landsbankinn.is/library/Images/Umraedan/Hagsja/Staerd-lifeyrissjoda-2016-01-28-515.png

Heimild; https://www.landsbankinn.is/frettir/2016/01/28/Hagsja-Veruleg-styrking-lifeyrissjodakerfisins-ahrif-a-fjarfestingu-og-avoxtun/

 

Hér sker Ísland sig algerlega frá nágrannalöndum og hér er “sér-íslensk” bóla að velta utan á sig.

Svíþjóð og Noregur eru með um 9% vlf. Í eignum lífeyrissjóða (sem eru jú einungis bundnir séreignarsjóðir).  Danmörk og Finnland eru með 49-51% vlf. Í lífeyrissjóðum.

Formælendur þessa sérstaka kerfis sjóðsöfnunar og ávöxtunar – halda því ennþá fram að það sé eitthvert vit í þeirri hugmynd að ein kynslóð á vinnumarkaði byggi upp ávöxtunarsjóði – sem standi undir ásættanlegum lífeyri fólks að lokinni starfsævi.   Þeir viðurkenna þó núna að það þurfi bæði að hækka inborganir verulega mikið og líka þurfi að seinka lífeyristöku. 

Einn og einn virðist vera farinn að sjá að neytendur geta ekki bæði staðið undir lífeyrinum með eigin innborgunum og því að standa jafnframt undir mjög grimmum ávöxtunarkröfum lífeyrissjóðanna í gegn um megnið af húsnæðislánum almennings með verðtryggingu og okur-vöxtum og á sama tíma að sæta því að eiga viðskipti um dagvörur, tryggingar og eldsneyti við fyrirtæki lífeyrissjóðanna.

Þess vegna er nú búið að opna “skömmtunarleið” hjá Seðlabankanum fyrir fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis.   Hins vegar lætur t.d. Landsbankinn í ljós efasemdir um það hversu skynsamlegt það nú er;

“Hér þarf þó að hafa í huga að fjárfesting erlendis þarf ekki endilega að tryggja góða ávöxtun og ekki er heldur víst að hún dragi úr áhættu.”

“Ávöxtunarmöguleikar á erlendum mörkuðum eru e.t.v. ekki sérlega góðir nú um stundir. Hagvöxtur er víðast hvar lítill, verðbólga hverfandi og vaxtastig mjög lágt.” (Hagsjá 28.01.2016)

 

Auðveldlega má ráða af þessu áliti Landsbankans að þessi leið erlendra fjárfestinga leysi engan vanda.   Það beinir því athygli að því gagnrýnisatriði sem einstakir efasemdamenn létu í ljósi frá upphafi lífeyrissjóðakerfis -  sem ekki var gegnumstreymiskerfi -  eða byggt á samtíma skattgreiðslum eins og gamla almannatryggingakerfið var og nánast öll lífeyriskerfi nágrannalanda byggjast á – að slíkt kerfi þyrfti annað hvort að hafa aðgang að stöðugu arðráni þriðjaheims hagkerfa eða stunda gjaldfrítt arðrán auðlinda.

Þegar því er haldið fram að Íslenska lífeyriskerfið sé sambærilegt við það Hollenska -  (að umfangi) þá er mikilvægt að hafa í huga að það er eðlisólíkt annars vegar að hollenska kerfið  er einhvers konar “séreignalíkt lífeyriskerfi” – og hins vegar sem líklega skiptir ennþá meira máli  -  að ríflega 80% eigna Hollenska kerfisins er í erlendum eignum og ávaxtað utan hagkerfis heimalandsins.  Hollendingar greiða því ekki sjálfir nema örlítið brot síns eigin lífeyriskerfis úr eigin vasa.

Holland hefur á sama tíma “almannatryggingakerfi” sem er fjármagnað í grunninn gegn um almenna skattakerfið -  og greiðir einhvers konar lágmarkslífeyri að því er mér sýnist öllum jafna fjárhæð (sem skerðist eitthvað með eigin tekjum og eignum lífeyrisþeganna).

Kannski er munurinn á því að taka almennt lágmarks-lífeyriskerfi í gegn um skattakerfið og hinni “sér-íslensku-skylduaðildar leið” - einkum tvenns konar;

1)      Lágtekjufólk ber takmarkaðar byrðar af almennu gegnumstreymis lífeyriskerfi -  af því að skattgreiðslur láglauna er minni og af lægstu launum sums staðar engar.

2)      Almennt gegnumstreymis lífeyriskerfi greiðir öllum lágmarkslífeyri -  og gerir almennt ekki greinarmun á forstjórum og ræstingafólki þegar vinnualdri og eignum þeirra sleppir.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið gerir þvert á móti;  láglaunafólkið tekur hlutfallslega sama þátt í að bera lífeyrisgreiðslur sinna jafningja sem lifa á láglaunamörkunum og hins vegar er launamunur á starfsævi framlengdur inn á lífeyrisaldur.   Þessi einkenni eru einkenni séreignarlífeyriskerfis í nágrannalöndum og sannarlega furðulegur “sér-íslenskur” bastarður að ekki sé sterkar kveðið að orði.    Með þessarri íslensku leið taka hálaunahópar tiltölulega minni þátt í að bera almennt lífeyriskerfi  - - og þeir lægst launuðu eru þvingaðir til að bera duldar skattbyrðar í gegn um skylduaðildina. Íslenska lífeyrissjóðakerfið með séreignarlífeyri uppbótum betur stæðra eykur því verulega á kjaramun fólks frá vinnualdri og yfir á lífeyristímabil.

Svo vikið sé að að eignasöfnun lífeyrissjóðanna og harðdrægni þeirra í ávöxtunarkröfum þá verður maður að spyrja sig hvort vöxturinn muni ekki senn bókstafleg hitta sín endimörk -  eða mörk hins mögulega sem hlutfall af öllum eignum hagkerfisins.   Með sama áframhaldi munu allar eignir lífeyrissjóðanna að líkindum nálgast 8 þúsund milljón milljónir  innan 12-15 ára og verða 300% landsframleiðslu ekki seinna en 2040.    Sama hvernig við snúum okkur þá og þarna árin 2030 eða 2040  – þá verður eitthvað búið undan að láta.

SALEK er stórhættulegt (og ólýðræðislegt)

SALEK er ávísun á kerfishrun – og hálfgildings valdarán lífeyrisjóðafurstanna í gegn um þennan ofurvöxt og umsvif – af því líka að forystuvalið hjá sjóðunum er algerlega utan við lýðræðislegt umboð almennings í landinu.

Nú er því þvert á móti mikilvægt að stöðva lífeyrissjóðaskrímslið – sem sogar fjármuni frá almenningi og leggur okurbyrðar á allan atvinnurekstur jafnframt.  SALEK er ávísun á efnhagslegt skelfingarástand – og til að koma í veg fyrir allherjar hrun verður að stöðva inngreiðslur í lífeyrissjóðina og loka kerfinu eins og það er og skala sjóðastærðina niður. 

Slíkt verður einungis gert með því að ríkissjóður Íslands “kaupi lífeyrissjóðakerfið eins og það leggur sig” og borgi fyrir með tryggingu á endurreiknuðum lífeyrisréttindum einstaklinga eins og þau eru þann dag sem ríkið kaupir sjóðina.    Ríkissjóður getur tryggt og ávaxtað eignasafnið best með því að greiða niður eigin skuldir og standa í framhaldinu skipulega að uppbyggingu innviða í heilbrigðiskerfi, menntun og nýsköpun og í samgöngum.

Frá sama degi og ríkið kaupir lífeyrissjóðina þurfum við að innleiða gegnumstreymiskerfi sem gerir öllum jafn hátt undir höfði -  og engan mun á opinberum starfsmanni og verkamanni eða forstjóra.   Jafnræðiskerfið gengur á skatthlutfalli sem er ca. þriðjungur af núverandi ofurbyrðum lífeyrissjóðanna -  og greiðir öllum út raunhæfan lágmarkslífeyri.   

Nýtt gegnumstreymiskerfi sem greiðir lágmarkslífeyri ætti að komast af með 5-7% launaskatt/tryggingagjald og það sem launamaður sparar frá nú 15,5% (eða 18%) ætti að koma fram sem bein launahækkun sem að einhverju leyti mætti ráðstafa í sérvarinn sparnað “á húsnæðisreikning” eða til efri ára.

Séreignarsparnaður eignafólks og betur megandi verður þá algerlega aðgreindur og verður að duga þeim til að viðhalda sinni neyslu og lúxus á efri árum -  í því efni á almennt skylduaðildarkerfi eða opinbert kerfi ekki að hjálpa þeim ríku til að berast á.

Verði þetta ekki gert munu allar yngri og komandi kynslóðirnar sem það geta forða sér úr landi – til þeirra landa sem bjóða upp á hagkvæmt húsnæðiskerfi og hófsamar kröfur eldri kynslóða um lífeyri.  Til landanna þar sem “frekjukynslóðin” ein fær ekki að ráða öllu.