Sprenging Miðkvíslarstíflu í Mývatnssveit 25. ágúst 1970 Miðkvísl er ein þriggja kvísla Laxár þar sem áin fellur úr Mývatni.
Laxárdeilan markaði þáttaskil í átökum um sjónarmið náttúruverndar og virkjana hér á landi. Deilan stóð frá 1968 til 1974 og snerist um hvort varðveita skyldi Mývatns- og Laxársvæðið eða eyða því í núverandi mynd í þágu raforkuframleiðslu.
Framkvæmdaaðilar létu að lokum í minni pokann, og gengið var frá samningum þar sem fallið var frá ítrustu áformum um Gljúfurversvirkjun - með stór-stíflu og miðlunarlón í Laxárdal. Alþingi setti 1974 sérstök lög um verndun Laxár og Mývatns.
Lífríki svæðisins er einstætt á heimsvísu og nú undir ákvæðum Ramsarsáttmálans um alþjóðlega vernd votlendis. Laxá er ein fallegasta og vinsælasta silungs- og laxveiðiá Íslands. Framkvæmdir við Gljúfurversvirkjun hófust vorið 1970. Í fjórum áföngum var m.a. gert ráð fyrir 57 metra hárri stíflu efst í gljúfrunum við Brúar. Lónið hefði náð meira en fram í miðjan Laxárdal og gert allar jarðir þar óbyggilegar.
Einnig var gert ráð fyrir Suðurárveitu, samkvæmt áætlun Orkustofnunar. Þá yrði stíflan hækkuð og lónið stækkað með því að veita Suðurá í Svartárvatn og Svartá þaðan í Kráká sem fellur í Laxá rétt neðan við Mývatn. Í heild gerði þessi áætlun ráð fyrir því að Laxá og fyrrnefnd fallvötn auk Skjálfandafljóts yrðu nýtt þremur virkjunum: Laxárvirkjun neðri við Brúar, Laxárvirkjun efri nýtti vatn frá Mývatni niður í Laxárdal og Krákárvirkjun, sem yrði neðanjarðar suður af bænum Gautlöndum myndi nýta vatn úr stóru uppistöðulóni norðvestur af Sellandafjalli.
Skjálfandafljóti yrði veitt með skurði í Svartárvatn og þaðan um Suðurárveitu í Kráká og áfram í Laxá. Lífríki Mývatns og Laxár í núverandi mynd hefði eyðilagst ef þessi áform hefðu orðið að veruleika. Fréttnæmasti og afdrifaríkasti atburður Laxárdeilunnar var sprenging Miðkvíslarstíflu 25. ágúst 1970. Til verksins voru menn kvaddir eftir jarðarför á Skútustöðum í Mývatnssveit fyrr þennan dag. Leynt urðu áformin að fara því auðvelt hefði verið að hindra aðkomu að stíflunni ef eitthvað hefði spurst út. Því var þess gætt að enginn sem sem aðhylltist sjónarmið virkjunarmanna fengi veður af því hvað til stæði. Við sprengjurofið beittu menn handverkfærum, tveimur dráttarvélum og dýnamíti.
Þátttakendur hafa lýst atburðinum sem tilfinningaþrunginni stund, einkum þegar stíflan brast og áin rann frjáls fram. Með rofi stíflunnar tókst mönnum með táknrænum hætti að vekja verulega athygli á málstað sínum, bæði innanlands og utan. Réttarhöld yfir sprengjumönnum stóðu vikum saman. Ekki er nákvæmlega vitað nú hve margir voru við Miðkvísl þetta kvöld en 65 voru ákærðir fyrir spellvirki sem valdið hefði almannahættu. Í þann hóp vantar marga m.a. alla þá yngstu.
Undir yfirlýsingu þar sem menn lýstu verkinu á hendur sér rituðu 88. Þar að auki skrifuðu 113 undir yfirlýsingu þess efnis að þeir hefðu veitt liðsinni sitt í orði eða verki. Ekki var upplýst hverjir hefðu verið forsprakkar við stíflurofið, stýrt dráttarvélum eða beitt sprengiefni. Dómar voru vægir. Á neðra dómsstigi þótti rétt með skírskotun til málsatvika að refsing yrði látin niður falla en í Hæstarétti hljóðaði dómurinn upp á skilorðsbundna sekt. Sigurður Gizurarson, lögmaður þeirra sem ákærðir voru telur að sprenging Miðkvíslarstíflu hafi verið merkilegasta og öflugasta athöfn í sögu náttúruverndar hér á landi. Hún hafi verið hin táknrænu tímamót, þegar halla tók undan fæti fyrir stjórn Laxárvirkjunar í deilunni við Þingeyinga um Gljúfurversvirkjun.
Aðstandendur Laxárdeilunnar hafa boðað til samkomu á morgun miðvikudag 25.ágúst við Miðkvísl og síðan kvöldvöku í Skjólbrekku kl.20
Sjáumst frændur og vinir