Jólakveðja frá Krókeyrarnöf 2

 

Kæru vinir. 

Frú Helga og hennar Benedikt heilsa ykkur frá nýju setri sínu í hesthúsblettinum á Naustum – þar sem heitir að Krókeyrarnöf  2.   

Þangað fluttum við á miðju sumri en áður hafði Týra átt þar heima um nokkurra vikna skeið.    Með því var það almælt að þetta væri dýrasti hundakofi á Akureyri að minnsta kosti. 

Árið hefur verið okkur ákaflega þreytusamt.    Fyrst vorum við á spörtlunar og málningarstigi, síðan með steinull í lungum og augum og gifsryk og sviða á húð.   Grá og guggin - - rétt á milli þess sem við snerum  okkur að tilfallandi uppákomum og áföllum. 

Benedikt féll t.d. á eina hálkubletti sem var að finna undir snjó gráan febrúarmorgunn og var í framhaldinu í föstum viðskiptum við líflækni sinn og harðhentan sjúkraþjálfara.   Rifjuðust honum upp margvísleg eldri meiðsl og gamalkunnur sársauki tók sig upp.    Notaði hann það til afsökunar svo Helga vægði honum við vinnu á Naustatúninu.     

Frú Helga brá sér til Spánar á útáliðnu – á styrk Evrópusambandsins -  og varð þar ”öskuföst” með hóp af börnum.  Komst hún heim við illan leik eftir að hafa ekið um þvert hið sólbrennda land og fengið síðasta flug sem yfirgaf Alicante um miðja nótt.  Flugvél lenti svo fyrir tilviljun á Akureyri um miðja frostbjarta nótt í apríl. 

Lífið þetta árið snerist sem sagt um vinnuna og annar vökutími nærri eingöngu á Krókeyrarnöfinni.    Nú er næstum allt búið þar innan dyra - - flísalagt í hólf og gólf og hurðir fyrir öllum götum og innréttingar í eldhúsi og herbergjum.  

Undirmúrinn á útveggjum komst á góðviðrisdagana í október - - og á endanum tókst að bera upp veggklæðningu á skrautfleti og ganga frá öllum gluggalistum og líningum í hörkufrosti  og þíðviðri í desember. 

Saman teljum við hjónin okkur fær um að reisa ”heila Konstantínópel” af því að við fengum lánaða sög og margvísleg önnur góð verkfæri, sem við erum innilega þakklát fyrir. 

Frú Helga lætur sér detta í hug að taka þátt í næsta meistaramóti í handlangi, sem líklega fram fer í Íþróttahöllinni á Akureyri – svona þegar miðaldra og eldri verða allir orðnir atvinnulausir og hafa ekki lengur efni á að keppa í fittnessi og vaxtarrækt. 

Benedikt hefur uppi áform um að taka sjálfur að sér allar væntanlegar nýbyggingar og viðhald hjá Búseta á Norðurlandi næsta árið og vinna það með öðrum verkefnum – án aukagreiðslu -  á meðan hann er að ná sér niður.    

Engar fríferðir eða hestasnatt - - enginn veiðiskapur né vinaheimsóknir – og við höfum ekki gefið færi á vinnutöfum nánast nokkra stund.      Stelpunum tæpast svarað í símann þegar þær hringja og hundurinn ekki leiddur úti (bara bundinn við staur kvölds og morgna). 

Benedikt var ekki í framboði í prófkjöri og ekki í neinum kosningum og frú Helga ekki heldur.     Þannig tókst okkur að komast hjá því að eiga aðild að viðvarandi og stórfelldu skipbroti hefðbundinna stjórnmála.    Við kusum samt um Icesave og til Stjórnlagaþings og erum ekkert að kjafta meira um það hvað við kusum.  

Enginn kórsöngur hjá Ben þetta árið - - varla sungið við jarðarför - sem betur fer. Árið hefur samt verið talsvert viðburðaríkt á fjölmiðlasviðinu – og Silfur Egils og fleiri miðlar hafa  hellt Benedikt yfir landslýðinn í nokkrum skömmtum.  

Vinsældir Benedikts meðal innvígðra í Samfylkingunni og í ”Náhirð-ráðherranna” munu tæplega hafa farið vaxandi þetta árið - -  en ekki er samt á dagskrá að gefa efsta sætið á ”Svarta-listanum” eftir alveg baráttulaust.  ”Kverúlant og lýðskrumari með jaðarskoðanir” nýtur athyglinnar. 

- - - - - -  

 

Bensi tók Fésbók í notkun snemma árs og gerðar ýmsar tilraunir með þann miðil og heimskulega statusa.    Jafnvel flugu ferskeytlur og gömul ljóð og minningar í gegn um www.bensi.is og tengdust á fésbókinni.  Játningar um vanda einbúans í fjarveru frú Helgu, raunir með þvott og mataræði og bara morgunstemmingar og aðrar afhjúpanir hafa fengið að fljúga. 

Eins og . . . . . 16. mars. 

Við frú Helga leiddumst út í morguninn - sem fagnaði okkur með mildu veðri og birtu;

Gola á vanga gælir hlý,

gleymist frost á vetri.

Ástin vakir alltaf ný,

aldrei verið betri. 

 - - - -

Að elska  

Að elska er eins og að sitja við vatn á vori,

með sól og dúnlétt ský á himninum. 

Mýktina í golunni og látbragð fuglanna fanga ég í sál minni

- og færi þér.  

(Ort til frú Helgu - eitt vetrarkvöld - og alltaf sama tilefni)  

15. nóvember

þegar Helga kom heim frá Ítalíu úr boði ESB.. . .

ljúft er að láta sig dreyma,
lífið á örmum mig ber;
nú er hún Helga mín heima,
að hugsa sér.
 

- - - - - -  

Eins og þið sjáið – erum við enn við sama – frekar ánægð með hvort annað og hlökkum til að fá Sigrúnu læknanema og Þorgerði lyfjaumboðstjóra heim um jólin.  

Við tökum okkur vinnuhlé frá framkvæmdum um leið og búið er að hengja gardínur fyrir stofurýmið. 

Við getum svo sem ekki kvartað yfir því að það hafi margir gert okkur heimsókn - - og við höfum fáa truflað aðra en þá sem hafa lánað okkur verkfæri eða rétt okkur hönd, sem við þökkum fyrir af alhug. 

Að þessu sinni verðum við ekki með neinar heitingar um að standa okkur neitt betur næsta ár - - Við höfum nefnilega áorkað og afkastað þónokkru og erum búin að standa okkur reglulega vel árið 2010 - - miklu betur en hægt er að halda fram að landsfeður og mæður og hafa gert; -  og það jafnvel þó hver og einn við landstjórnina hafi gert “sitt besta” - - þá hefur það bara ekki verið nærri nógu gott.    Það er nú annars tilefni í annað og miklu, miklu, miklu  lengra bréf sem birtist kannski smátt og smátt á www.bensi.is  

Óskum við öllum vinum og vandamönnum gleði og fagnaðar á jólum í góðu samfélagi við ykkar nánustu og megið þið einnig njóta hófsemdar og verðskuldaðra og batnandi tækifæra á nýju ári. 

Helga og Bensi á Krókeyrarnöf -  bera einnig kveðjur til ykkar frá Sigrúnu og Þorgerði og hundinum Týru (sem ekki fer annars fram með aldri og vaxandi heyrnarleysi).