Umbreytingin:
Síðustu 4 árin hef ég tekið meiri þátt í opinberri umræðu en lengstum áður. Þökk sé þeim breytingum og þeirri opnun sem Netið hefur lagt okkur til.
Einnig þeim tiltölulega nýju viðhorfum í fjölmiðlun sem þrátt fyrir allt hleypir einstaka sjálfstæðum röddum í gegn - með tilviljanakenndum hætti þó.
Morgunþættir útvarpsstöðva og síðdegisútvarp og fréttaskýringarþættir eins og Spegillinn pikka stundum upp gagnrýnin sjónarmið en öllum öðrum fremur hefur Egill Helgason opnað á fjölda fólks sem ekki tilheyrir framlínuklíkum stjórnmálaflokkanna.
Þess hef ég inn á milli notið - - í gegn um bloggpistla og ræður – þar sem ég hef í afar mörgu efni lýst sjónarmiðum sem fara í bága við það sem þrengsta forysta Samfylkingarinnar hefur lagt upp.
Klíkuflokkurinn
Flokkseigendur og klíkurnar sem aftur hafa náð völdum í Samfylkingunni hafa lagt áherslu á að þagga niður alla fyrri tilburði til að veita ”samræðustjórnmálunum” farveg.
Ég listaði mig tilbúinn til framlínustarfs í Samfylkingunni árið 2006 þegar ég hafði fengið þá tilfinningu að Ingibjörg Sólrún hefði næga burði til að breyta Samfylkingu jafnaðarmanna úr klíkubandalagi athyglissjúkra þingmanna og í lýðræðislega breiðfylkingu um málefni og áhrif.
Því miður virðist ég hafa ofmetið Ingibjörgu og möguleika hennar til að móta og þróa flokkinn.
Má vel vera að skýringin sé einkum sú að henni hafi einmitt ekki lánast að kalla fólk með sjálfstæðan bakgrunn á margvíslegum vettvangi til jákvæðrar þáttöku í flokknum.
Jafnframt virðist Ingibjörg hafa sett sitt traust á fámennan hóp náinna og handgenginna um leið og hún gerði þau augljósu mistök að ganga til samstarfs við einstakar klíkur sem fyrir voru og hafa allan tímann haft þau markmið ein að tryggja sjálfum sér og sinni nánustu pólitísku fjölskyldu framgang í pólitíkinni.
Vonbrigði á vonbrigði ofan
Þetta tímabil virkrar þáttöku í starfi innan Samfylkingarinnar hefur orðið tímabil samfelldra pólitískra vonbrigða; – og einkum frá Hruninu - eftir að Ingibjörg Sólrún laskaðist þannig að hún gat ekki lengur ráðið neinni pólitískri framvindu.
Sitjandi framlína flokksins er öll komin á síðasta pólitískan söludag – og var það meira og minna áður en ISG kallaði eftir forystu fyrir flokkinn.
Með því að Jóhönnu var síðan afhent formennskan - til bráðabirgða - - hefur hugmyndafræðilega sjálfheldan orðið sífellt pínlegri og sá afar þröngi og fámenni hópur sem er henni handgenginn reisir hvern vegginn af öðrum utan um formann ”sinn” og forsætisráðherrann.
Það vita það allir að Jóhanna er ekki leiðtogi í neinum venjulegum eða fræðilegum skilningi þess hugtaks. Hún er ekki heldur einstaklingur sem er þekktur fyrir eða fær um að skáka bráðlæti sínu og eigin dómhörku til hliðar og kalla fólk með opnum huga að einu borði til að bræða saman málefnalegar lausnir við flóknum vandamálum.
Þess vegna gat Jóhanna aldrei orðið farsæll formaður flokks og forsætisráðherra til lengri tíma við erfiðar aðstæður í stjórnmálum og efnahagsmálum.
Framlínan afneitar ábyrgð sinni
Forysta Samfylkingarinnar tók þá kolröngu afstöðu að neita ábyrgð sinni á mistökum í stjórnmálum og ríkisstjórn árin 2007-2008 – og sama forysta hefur meira og minna klúðrað úrvinnslu úr erfiðum vandamálum EFTIR-hrunsins. Það voru gerð margvísleg afdrifarík mistök – fyrst með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn og síðan með stór-undarlegu bandalagi við þrengsta hóp Steingríms J Sigfússonar.
- Það voru afdrifarík mistök að hengja ekki við neyðarlögin í október-nóvember 2008 ákvörðunum um að frysta allar vísitölur við eldri gildi og stöðva þannig fyrirséða innistæðulausa fjármunatilflutninga frá skuldsettum fjölskyldum og fyrirtækjum til fjármálakerfisins og fjármagnseigenda sem höfðu einmitt skapað Hrunið með ólögmætri og óábyrgri hegðun.
- Það hefur reynst óhemjulega afdrifaríkt og háskaleg ákvörðun að taka 100% + ábyrgð á öllum bankainnistæðum í föllnum bönkum - - með vöxtum og verðbótum – og til viðbótar því að beita sér fyrir útgreiðslu úr peningamarkaðssjóðum upp á 230 milljarða. Á þessum gerningum hafði efnahagskerfið engin efni og þó góð rök gætu hafa legið til grundvallar hækkun á lágmarks-innistæðutrygginu þá voru greiðslur umfram 5-8 milljónir einkum réttar til ríks fólks, spekúlanta sem voru að stinga bóluhagnaði í eigin vasa og til lífeyrissjóðanna.
- Bóluhagnaður á peningamarkaðsreikningum hefði betur brunnið eins og verðskuldað var - - og þar hefðu mögulega mátt yfirfæra lágmarkstryggingaviðmið á reikningum einstaklinga.
- Endurreisn bankanna á forsendum kröfuhafanna - - án þess að íhlutandi viðmið væru notuð til að tryggja að skuldir almennings og fyrirtækjanna væru færðar niður að raunsæjum viðmiðum - - er svo sorglegt áframhald af þessum fyrri mistökum.
- Skattastefna ríkisstjórnarinnar og niðurskurður í opinberri þjónustu leiðir til víxlverkunar þar sem skuldir og greiðslubyrði er hækkuð um leið og niðurskurðurinn vegur að hagsmunum sjúkra, öryrkja og barnafólksins.
- Formenn ríkisstjórnarflokkanna reynast ófærir um að breikka bakland ákvarðana og leiða saman lausnir í þágu almennings og fyrirtækjarekstrar - - amk. annarra lausna en þeirra sem gerðar eru með velþóknun Sjálfstæðisflokksins og þá eingöngu í þágu fjármagnseigenda.
- Lífeyrissjóðirnir svínbeygja ríkisstjórnina í hverju málinu á fætur öðru; - - fyrst í okt-nóv 2008 laut Jóhanna ráðgjöf Gylfa Arnbjörnssonar um að frysta ekki vísitölurnar - - síðan andmæla lífeyrissjóðirnir skattlagningu séreignarsparnaðar og Steingrímur vill ekki ræða það meir - - og að lokum neita lífeyrissjóðirnir samstarfi um skuldalækkun hjá heimilunum og Jóhanna og Steingrímur fagna ”stórum áfanga” . . . . .
- Jóhanna Sigurðardóttir virðist ætla að komast upp með að læra ekkert af þeim niðurstöðum sem eru ítrekaðar í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis – hún meira og minna lætur eins og hún hafi alls ekki verið á vettvangi ríkisstjórnar fyrr enn sem forsætisráðherra eftir skipbrot ríkisstjórnar Geirs H Haarde - - og svo er um fleiri ráðherra og þingmenn SF
- Samanlögð framlína Samfylkingarinnar virðist ekkert ætla að læra af niðurstöðu skýrslu RNA og eigin Umbótanefndar Samfylkingarinnar og nánast enginn maður víkur til hliðar. Ráðherrar úr Hrunstjórninni sitja og Hermann Jón situr á Akureyri eftir algert afhroð í kosningum.
- Steingrímur Sigfússon situr í umboði Samfylkingar við landstjórnina og neitar því að hann þurfi nokkuð að læra af þeim dómum sem kveðnir hafa verið yfir slæmum stjórnmálum liðinna ára - - þar sem hann hefur verið einn allra áhrifamesti stjórnmálamaður að því er orðræðustílinn varðar.
Ég hlýt að spyrja mig hvort ég geti átt samleið með þessu fólki sem nú leiðir ríkisstjórn - - undir merkjum ”jafnaðar og velferðar” . . . . ?
Persónulegir lærdómar:
Auðvitað biðst ég afsökunar á að hafa sett traust á og hafa starfað innan Samfylkingarinnar – fyrst flokkurinn reynist ófær um endurnýjun stjórnmálanna og lærdóma sem draga verður af fyrirliggjandi gögnum og stöðu mála.
Auðvitað hlýt ég að freista þess að halda áfram að krefjast endunýjunar framlínunnar innan flokksins á meðan ég tel að ekki sé fullreynt um þá kröfu.
Endurnýjun stjórnmála verður ekki án þess að nýtt fólk - - á breiðum aldri og með breytilega reynslu – taki við allri stjórnmálaforystunni í landinu.
Ef slíkt reynist alls ekki mögulegt innan stjórnmálaflokkanna þá verður að finna farvegi í gegn um ný bandalög almennings – nýja stjórnmálaflokka eða kosningahópa – sem opna fyrir framgang einstaklinga og hugmynda sem geta lagt að mörkum til gerbreytingar stjórnmálanna í landinu.
Sitjandi Alþingi ætti ekki að gefa sjálfu sér nema fáeina mánuði til setu - - eða þar til unnt verður að leggja niðurstöður af stjórnlagaþingi fyrir í almennum kosningum.
Þá breyta menn stjórnarskrá og kjósa til Alþingis um leið.
Þá kemur að fyrsta stóra prófinu fyrir núverandi stjórnmálaflokka - - - -og um leið fá kjósendur að spreyta sig.
Ef kjósendur munu þá fylla Alþingi af sömu og sams konar fulltrúum fjórflokksins þá mun þjóðinni verð fátt til bjargar.
Beri flokkar og fólk hins vegar gæfa til að eiga samleið um endurnýjun fólks og hugmynda – og kjósa nýtt fólk - - án flokksreynslu og án þess að vera framlenging á þeim ósiðum stjórnmálanna sem hafa fengið sína falleinkunn - - þá verður framtíðin bjartari en 2008-2010.