Hann sást nokkra daga í röð. Þarna var hann á Innbæjartjörninni – innan um skúfendur og máva.
Hann vissi ekki alveg hvernig hann átti að bera sig að, - og skúfandarkollurnar dissuðu hann sama þótt hann sýndi herralega tilburði.
Þessi Mývetningur stakk í stúf þarna við sjávarsíðuna - skrautlegri og meira hvítur, blágræn slikja á höfðinu.
Hvað er líka húsandarsteggur að þvælast niður af hálendinu - þó að kúluskíturinn og hornsílin séu líklega næstum horfin úr Mývatni?
Samt fór ég niður í Aðalstrætið og stoppaði bílinn, - fór út og gekk niður að fjöruborðinu. Mér fannst eins og hann þekkti mig – og í stað þess að synda lengra frá þá kom hann þvert á móti nær landinu, hvimaði og tók svo eina syrpu af höfuðhneigingum.
Ég reyndi að benda honum yfir Vaðlaheiðina og hvatti hann til að leggja lið í Mývatnssveitinni - þar þurfa menn á ölli sínu liði að halda.
“Ha?”
“Já; auðvitað, ég kem líka.”
Laugardaginn 14.maí 2016
(Myndin fengin að láni frá Sindra)