Flokkurinn minn: bandalag um réttlæti, lýðræði og samvinnu fyrir hagsmuni almennings Tilgangur Flokksins míns er að vera farvegur fyrir almenning til að leggja að mörkum til þróunar samfélagsins. Flokkurinn minn hyggst efla lýðræðislega virkni einstaklinganna þar sem frumkvæði, áhugi og þekking er virkjuð til að bæta samfélagið.
· Flokkurinn minn leggur megináherslu á þjónustu við almannahagsmuni og hagar stefnu og starfsháttum og skipulagi sínu þannig að valdsækni einstaklinga og sérhagsmunum skiplagðra hagsmunahópa eru settar skorður.
· Flokkurinn minn vill endurnýja almenna velferðarkerfið og færa það markvisst nær þrautreyndum grunngildum Norrænnar og Evrópskrar hefðar sem reynst hefur farsælli en allar aðrar.
· Flokkurinn minn er stofnaður til að verða fjöldahreyfing og vill eiga frumkvæði að víðtæku samstarfi við önnur stjórnmálaöfl og aðila í viðskiptum, atvinnu- og menningarlífi. Samvinna er lykill að því að það takist að efla félagsauð og þróa með því samfélagið til aukins réttlætis og innihaldsríkarar velferðar.
· Flokkurinn minn leggur áherslu á að réttur almennings til vinnu og öruggrar framfærslu er frumréttur sem er einn af hornsteinum heilbrigðs samfélags. Um leið vill Flokkurinn minn endurnýja rétt almennings til að eiga gjaldfrían aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og jákvæðu félagslegu stuðningsneti í samræmi við breytilegar þarfir á mismunandi æviskeiðum.
· Flokkurinn minn vill efla hófsemd í umgengni við umhverfi og menningarverðmæti en stuðla jafnframt að framsækinni nýtingu auðlinda með sjálfbærni að leiðarljósi.
· Flokkurinn minn leggur áherslu á að fjármálamörkuðum séu settar virkari reglur þar sem áhættusækni fjárfestinga og starfsemi viðskiptabanka er aðskilin.
· Flokkurinn minn telur brýnt að styrkja umgjörð fyrir blandað hagkerfi þar sem markaðsvirkni og aðhald skapast með fjölbreyttum rekstrarformum þar sem einkaframtak, samvinnurekstur og neytendadrifin starfsemi og rekstur sjálfseigngarfélaga, án hagnaðarsjónarmiða, efla hagkvæmni og aga.
Flokkurinn minn vill skilgreina réttinn til húsnæðis sem hluta af almennum réttindum og virkja opinbera íhlutun í húsnæðismarkaðinn. Þannig verður unnt að lækka byggingarkostnað og með því að stórefla starfsemi samvinnufélaga og sjálfseignarfélaga sem reka húsnæði án hagnaðarsjónarmiða skapast markaðsaðhald og lækkar þröskuldinn fyrir allan almenning til að öðlast sjálfstæði gagnvart húsnæðisöryggi.
Flokkurinn minn vill leggja "skyldusparnað" á hóflega sjóðsöfnun lífeyrissjóða og fjármagna með því veruleg umsvif fyrir "non-profit" húsnæðisfélög sem geta boðið hagkvæmt og öruggt húsnæði fyrir allar kynslóðir.
· Flokkurinn minnvill leita samstöðu um virka valddreifingu í opinberum rekstri þar sem verkefnastjórnsýsla á sviði heilbrigðis- og menntamála og félagsþjónustu með skýrri vettvangsábyrgð víkur hagnaðardrifinni einkaframkvæmd til hliðar – en skapar jafnframt öflugri hvata til árangurs og hagkvæmni.
· Flokkurinn minn vill efla réttlæti og jafnræði í samfélaginu og markvisst draga úr þeirri misskiptingu í kjörum og tækifærum sem hefur farið vaxandi á síðustu árum.
· Flokkurinn minn vill efla jákvæða rökræðu og beita bestu þekkingu sjálfstæðra fagstofnana til að undirbyggja ákvarðanatöku í atvinnulífi, stjórnmálum og opinberum rekstri.
· Flokkurinn minn leggur áherslu á að innleiða nýja byggðastefnu sem virðir jafnræði og jafnvægi milli hagsmuna - - óháð búsetu – og dregur úr hættu á því að meirihlutinn hrifsi til sín hagsmuni umfram hóf og um leið verði skipulögðum sérhagsmunahópum gert torveldar að sækja sérréttindi eða viðhalda forréttindum.
· Flokkurinn minn vill að Ísland leggi að mörkum til alþjóðasamstarfs sem sjálstætt og ábyrgt ríki sem tekur þátt í skuldbindandi samstarfi og samtökum um viðskipti, menningu, lýðræði og frið.
· Flokkurinn minn er opinn öllum þeim sem eru fúsir til samstarfs um megináherslur og vilja leggja að mörkum til lýðræðislegs starfs og heilbrigðrar framvindu í samfélaginu.