Miðhálendið
Guðmundur Ingi Guðbrandsson (Mummi) eyðilagður:
Fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins - undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur – sat í fjögur ár. Við stofnun spáði Bensi heldur illa fyrir stjórninni - og ekki síst pólitískri þróun forsætisráðherra - sem er eiginlega furðulegri en lygasaga eins og enn er að koma í ljós. Hins vegar var það þá býsna snjallt að kippa Guðmundi Inga (Mumma) inn í umhverfisráðuneytið á grundvelli þekkingar hans og starfa að umhverfismálum - og taka hann þannig framfyrir þáverandi og nýkjörna þingmenn VG. Mummi fékk að fara af stað með metnaðarfull markmið um Miðhálendisþjóðgarð og lagði upp fleiri verkefni og orðræðu sem var á góðri leið með að skapa ríkisstjórninni þónokkurn trúverðugleika á sviði umhverfismálanna. Undirritaður hafði talsvert jákvæðar væntingar til Mumma - og þekkti til orðspors hans á þeim nótum að hann væri einkum hinn besti drengur og ekki skaddaður af pólitískri klækjamennsku eða blindum metnaði fyrir eigin hagsmuni.
Þróun ríkisstjórnar Katrínar í heilt kjörtímabil - varð svo hins vegar þannig að úlfunum var sleppt lausum og Mummi var étinn nánast í öllum fötunum – og þjóðgarðurinn rifinn í tætlur framkvæmdafrekjunnar með Jón Gunnarsson í opinni forystu fyrir yfirganginum. Já; og ekki nóg með það - enginn metnaður sást í markmiðssetningum gagnvart loftslagsógninni - og engin viðurkenning á aðsteðjandi neyðarástandi - og Mummi á stöðugum flótta frá eigin hugmyndum og stefnu VG í því eina skyni að því er virðist að þóknast þeim allra ósvífnustu í virkjana- og jeppakórnum. Bensi reyndi fram eftir öllu að bera blak af Mumma þar sem hann sá færi á - - og styðja við hugmyndir og frumvarpið um Miðhálendisþjóðgarðinn - - og andmæla ósvífnustu rógtungunum sem tjáðu sig um ráðherrann. Bensi er staðráðinni í að halda áfram að andmæla óvæginni og rætinni orðræðu í garð Mumma - sem ég efast enn ekki um að hefur bæði þekkingu og nægan góðvilja til að vinna að umhverfismálum til gagns og árangurs. Það getur hann hins vegar ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og alls ekki undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur og spunameistara hennar.
Guðmundur Ingi er nú orðinn varaformaður VG og er einn af nýkjörnum þingmönnum flokksins. Líklega þess vegna sem hann tekur nú þegjandi við mygluðum molum úr hendi Katrínar. Guðmundur Ingi tekur við ráðuneyti félagsmála; - sem búið er að slægja af öllum helstu verkefnum. Húsnæðismálin eru stærsta velferðarmálið og ræður langmestu um möguleika allra þeirra sem minnst mega sín, fyrir skólanemendur (einkum af landsbyggðinni), fyrir barnafjölskyldur og byrjendur í sjálfstæðum búskap, fyrir allt láglaunafólkið, fyrir öryrkja og stóran hluti eldri borgara - Húsnæðismálin eru farin. Barnaverndarmálin eru farin og málefni hælisleitenda sitja enn hjá dómsmálaráðuneytinu. Eftir situr líklega bara félagsaðstoð og málefni Atvinnuleysistryggingasjóðs.
Guðmundur Ingi er skilinn eftir með málefni „örbirgðar og atvinnuleysis“ - og þrátt fyrir góðan vilja og meiningar hans – þá hlýtur hann að upplifa sig áberandi niðurlægðan.
Pólitískt er Guðmundur Ingi eyðilagður – amk. ef hann situr næstu 4 árin og lætur sér nægja að borða „úr lófa Katrínar“ – það sem hún telur að Sjálfstæðismenn sætti sig við að „Mummi fái að sýsla með.“ Jón Gunnarsson fær greinilega sína umbun fyrir framgöngu á síðasta kjörtímabili og það er því eiginlega langt frá því að vera grátbroslegt að myndir af ríkisstjórninni staðfesta það að Jón verður þar í framlínunni og breiðir úr sér svo rétt grillir í varaformann VG ef maður á annað borð veit hver maðurinn er.