Viðtökurnar sem heimasíðan hefur fengið hafa farið fram úr björtustu vonum. Hafði ekki hugsað mér að reka síðuna sem "blogg" til skoðanaskipta - en sé samt sem áður að það gæti verið áhugaverð nálgun. Það hyggst ég skoða með þeim sem kunna á kerfið og geta ráðlagt mér um uppsetninguna og keyrsluna á síðunni nánar.
Ég er hins vegar alveg staðráðinni í því að samþykkja ekki að skrifað sé undir fölsku eða engu nafni á síðuna - og mun heldur ekki láta einhvern óhróður standa þar inni - hvorki um menn eða málefni (jafnvel ekki undir fullu og réttu nafni). Þarf að biðja áhugamenn afsökunar á því að póstkerfið mitt til svara er ekki í lagi - héðan að heiman þannig að svör frá mér verða eitthvað að bíða.
Í gær fór ég í ferð - til Austurlands. Mætti á fundi á Reyðarfirði og á Djúpavogi ásamt öllum 9 frambjóðendunum í prófkjöri Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi. Mæting var engin á fundina - og virtist sem þeir hefðu verið afar lítið kynntir og áhuginn eftir því. Ferðin yfir fjöllin í morgunbirtunni var áhugaverð og sannarlega eftirminnilegt að sjá Jökulsá á Dal - eða sjá EKKI Jökulsána í sínum venjulega ham. Samt var nú talsvert mikið vatnsfall í farveginum þó hún sé eftil vill bæði "væð og reið" t.d. niður undan Skjöldólfsstöðum eða þar sem botninn er skástur og áin breið. Slíkt eru auðvitað stórmerki - þó líklega falli gömlum Jökuldælingum það misjafnlega. "Óvætturinn í gljúfrinu" ekki lengur jafn skelfilegur - og fær fleirum en fuglinum fljúgandi - en önnur ógn og spennuvaldar eru á sveimi.
Frá Djúpavogi ók ég eftir sitjandi þingmönnum yfir Öxi - sem er líklega erfiðasti fjallvegurinn sem liggur milli byggða í okkar landshluta. Þarna er verk að vinna og stórfurðulegt að Vegagerðin og samgönguráðuneytið skuli ekki geta sagt okkur hversu mikið það muni kosta að gera þar heilsárs-veg - og þá við geta um leið tekið vitiborna afstöðu til þess hvar í röðinni sá vegur ætti að koma meðal mikivægra framkvæmda. Ég fékk staðfest í þessarri ferð að þeir KLM og Einar Már "aka hart og hratt" og stoppa ekki hjá öllum Framsóknarmönnum sem eru á róli við veginn. Mér sýndist skynsamlegt að sýna smalamönnum tillitssemi og áhuga - og forðast að styggja fyrir þeim safnið. Í Berufirðinum vildi ég ekki þurfa að smala - "miðjufeitur maður á mínum aldri" - þá er nú léttara að láta hrossin bera sig á jafnsléttunni um Þingeyjarsýsluna og Ódáðahraunið. Samt er nú örugglega ekkert síður gaman í göngum og smalamennsku - með góðu fólki - þó bratt sé og erfitt víðast um Firðina. Að minnsta kosti eins og veðrið var í gær.