Gleðileg jól kæru vinir

Góðu vinir.

Árið 2018 hefur verið býsna viðburðaríkt og gjöfult.     Helga er að fóta sig í hlutverki – hálf utan vinnumarkaðar – en samt á fullu á sínum gamla vinnustað í Brekkuskóla.    Helga heldur áfram að sinna fjölþjóðaverkefnum undir væng Evrópusambandsins.

Bensi heldur áfram að vinna fyrir Búfesti og samvinnuhugsjónina og telur að þar séu enn not fyrir hann.     Engu að síður hefur hann nú látið vita af því að með næsta afmælisdegi hyggist hann staðfesta breytingar á stöðu sinni á vinnumarkaðinum.

Við skutumst allmargar ferðir milli Akureyrar og Kastrup-flugvallar á árinu.    Sitt hvorum megin við Eyrarsundið hafa þær dætur okkar búið þetta árið.    

 

Afa og ömmu hlutverkið er nýtt fyrir okkur -  en við leggjum okkur fram um að læra og reynum að standa okkur.  Benedikt Rafn Örvarsson kom nokkrar ferðir heim á Krókeyrarnöf til að láta til sín taka - - og meðal annars má segja að hann hafi hellulagt bílaplanið -  einn  en að mestu með minniháttar  hjálp föður síns og afa.   

 

 

Við höldum lítilsháttar áfram að byggja og laga hér á Krókeyrarnöfinni;   bílastæðin voru hellulögð með aðstoð Bensa Rafns og foreldra hans og svo var innkeyrslan malbikuð.  Frú Helga verður ákaflega glaðleg  í hvert sinn sem þennan áfanga ber á góma og heldur því fram að gólfþvottar og rykmengun séu á allt örðu stigi en fram til þessa í okkar búskap á K2.

Á Jónsmessu héldu þau Sigrún og Sindri brúðkaup með glæsibrag og fjölmenni.  Gömlu lögðu að mörkum eftir föngum.     Faðir brúðarinnar naut þeirra forréttinda að fá að sinna hlutverki athafnarstjóra í umboði Siðmenntar og vinna þar með sitt fyrsta formlega verk með þessari veraldlegu vígslu.

Snemma ársins fórum við til Víetnam í frábæra reisu ásamt góðum vinum og í ágúst heimsóttum við síðan Albaníu, Kosóvó, Svarfjallaland og Króatíu í hópferð undir leiðsögn Jónasar og Gunnu.

 

Áburðardreifing og heyskapur gekk nokkuð vel að þessu sinni – og frú Helga tók verulegar æfingar á gamla-Zetor við akstur á áburði og rúllum.    Ekki má heldur vanmeta æfingar við að lyfta eiginmanninum í þakrennuviðgerðir á fjölskylduhúsinu á Grænvatni.   Eins og Fésbókarvinir hafa eflaust séð þá er Zetor útgerðin talsvert tímafrek – og  skíturinn fór út úr Grundarhúsum og rúllur hafa farið inn eftir því sem gefð hefur verið í vetrarbyrjun.

 

Skil á haustskýrslu til Matvælastofnunar lenti í flækju – þar sem Bensi á enga skráða hesta í World-feng og var ekki einu sinni bókaður umráðamaður.    Þurfti því að leita handleiðslu stráks af Tjörnesinu við skýrslugerðina og staðfesta í gegn um síma að 3 klárar mættu éta það sem þeim sýndist af grasi í Yztafelli – jafnvel þótt þeir séu í heilsársumsjón í Torfunesi.   Lúkas ætlar að vera rólegur og traustur hestur og Goði lofar góðu.   Minna getum við fullyrt varðandi Stubb sem ennþá ber nafn með rentu og á eftir að koma í ljós hvort hann nær þeirri stærð og kröftum að hægt verði að ætlast til þess að hann verði fullorðinn reiðhestur.

 

Við vorum sem sagt ekkert nærri því alltaf heima -  og ekkert sérlega mikið í himsóknum útfyrir nánustu fjölskyldu heldur þetta árið.      Sjáum endilega til hvernig það næsta fer með okkur.

Um leið og við skulum vera kröfuhörð og heimta vitiborna pólitík og fjölmiðlun -  þá skulum við vera bjartsýn – glöð og góð - við allt okkar nánasta fólk.

Jólakveðjur af K2