Framtíð þjóðar er í húfi

 

 

Leggjum drög að nýrri framtíð allra kynslóða á Íslandi;

 

 . . . . en fyrst þurfum við að viðurkenna vandann og sýna að við lærum af mistökunum. 

Fyrsta;

Hrunið er staðreynd.  

Margir þættir lögðust saman, aðdragandinn var langur.  Víðtæk hugarfarsbreyting átti sér stað frá því ”gamla Íslandi” sem kynslóðir miðaldra og eldri ólust upp við.   Sérhyggja og markaðsvæðing ýtti ”sveitalegri samábyrgð” og nægjusemi til hliðar og breytti þjóðinni í hjörð neytenda.   

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var góð tilraun til að bregða ljósi á nánasta tímabil fyrir og gegn um hrun, en náði alltof skammt í tíma og þekkingarumfangi og er því alltof lítið útfærð til að lærdómur af henni geti orðið víðtækur og almennur og geti enst með þjóðinni lengur en núið.   

Við þurfum að fá áframhaldandi greiningu í farvegi sannleiks- og sáttanefndar þar sem markmið er að upplýsa, skilja og læra og mögulega að kalla fram ”óhefðbundnar refsingar” gagnvart stjórnmálamönnum og embættismönnum sem höguðu sér ósiðlega eða sýndu vanrækslu í störfum sínum.   (Væru etv. dæmdir frá embættum og sviptir forréttindum og vísa má í því sambandi til ”efasemda” um að Halldór Ásgrímsson og Árni Matthíessen verðskuldi að gegna ábyrgðarembættum á alþjóðavettvangi í umboði þjóðarinnar og í skjóli síðari ríkisstjórna.) 

Annað;

 

 Í gegn um Hrunið og eftir skelfingardagana voru framkvæmdar margvíslegar aðgerðir og meðvitað teknar ákvarðanir um að gera tiltekna hluti og láta aðra ógerða.    Það reyndist gríðarlega afdrifarík aðgerð að lofa – án ótvíræðrar lagaheimildar - - að tryggja allar bankainnistæður ”Íslendinga í íslenskum bönkum” meira en 100%.   

Með neyðarlögum var síðan farið inn í þrotabú bankanna og ríkisvaldið breytti kröfuröð, ”tók boltann með höndum” og handfærði á annað þúsund milljarða króna í hendur innistæðueigenda.   Fámennum hópi einstaklinga og sjóða sem þar með töpuðu ekki fjármunum á Hruninu, heldur beinlínis og bókstaflega högnuðust gríðarlega – fyrst með því að innistæður voru greiddar út miðað við fullar verðbætur og svimandi háa vexti - - en ekki t.d. á nafnverð innistæðna á tilteknum degi áður eða við stofnun reikninga.    Í skýrslu RNA má lesa og af gögnum Seðlabankans og AGS má síðan ráða að nærri 75% af almennum innistæðum gengu til ríkra íslendinga - - moldríkra meira að segja - - og til lífeyrissjóðanna hins vegar.  

Síðan létu stjórnvöld greiða út úr peningamarkaðssjóðum föllnu bankanna 230 milljarða – til ennþá þrengri hóps fjármagnseigenda.  Þessi hópur hefði átt að fá eitthvert skítti upp í sínar kröfur við þrotameðferð en ríkisstjórnGHH kaus að láta handstýra þessarri útborgun.Miðað við upplýsingar um fjármunaeignir lífeyrissjóðanna við ársbyrjun 2009 má áætla að þeirra hlutur í þessum rausnarlegu útgreiðslu úr hrundum bönkum hafi numið allt að 270 milljörðum króna.  

Þetta voru mistök og meira og minna vanhugsuð aðgerð við bankahrun,  gat hins vegar mögulega átt við og gengið við fall einstakra sparisjóða og jafnvel minnsta bankans eins og sér. Á hitt verður einnig að líta að vegna verðfalls fasteigna og rekstrartengdra eigna fyrirtækja þá hefur verðmæti handbærrar fjárfestingarkrónu amk. tvöfaldast gagnvart fasteignum og sennilega þrefaldast, fjófaldast og í mörgum tilfellum amk. fimmfaldast þegar kemur að kaupum á rekstri.   Hagnaður svokallaðra innistæðueigenda mælist þannig nánast í áður óþekktum prósentum vegna þess hvernig Hrunið færði þeim upp í hendur fjárfestingartækifæri á silfurfati.   

Þriðja;

 

 Vegna Hrunsins og vegna þess að innistæður voru tryggðar og til útborgunar langt umfram lögbundnar skyldur og raunveruleg efni og nokkra skynsemi . . . þá skapaðist svarthol í hrundu bankakerfinu. . . . sem kröfuhafar sátu urrandi yfir.   Óviðbúnir  stjórnmálamenn settu ekki upp aðgerðarteymi, enda samstarfs- og eftilitsstofnanir gersamlega ónothæfar vegna eigin vanrækslu margra undanliðinna missira.  Á þeirri stundu var orðið augljóst að gjaldmiðillinn var ekki viðskiptahæfur, var fallinn um kannski 200%.   Þar með var  ofurverðbólga fyrirséð miðað við hefðbundnar vísitölumælingar - - og viðvarandi langt fram eftir árinu 2009 að minnsta kosti.    

Þess vegna og á grundvelli gengishrunsins lá fyrir að allar lánaskuldbindingar landsmanna, fjölskyldna og fyrirtækja,  mundu stökkbreytast.    Því varð ekki umflúið að taka afstöðu til þess hvernig við skyldi brugðist.     Jóhanna Sigurðardóttir skipaði nefnd sérfræðinga undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar til að teikna upp viðbrögð til ”varnar lántakendum verðtryggðra lána.”    Ráðherrar í ríkisstjórn voru meira og minna á því að óumflýjanlegt  væri að prjóna við neyðarlögin - - ákvæðum um frystingu allra vísitölu og gengisviðmiða í lánasamningum -  við föst eldri gildi – og sama var um fjölmarga þingmenn á þeim tíma.    Beðið var eftir Jóhönnu og ”sérfræðingum hennar.”   Þeirra tillaga snerist ekki um hagsmuni ”lántakendanna sem þeim var ætlað að verja” – heldur um ávöxtunarhagsmuni  fjármagnseigenda (les lífeyrissjóðanna).   Og Jóhanna tók þeirra tillögu og taldi sig þannig leggja að mörkum með uppkokkaðri útfærslu á ”greiðslujöfnunarvísitölu” sem gamall stærðfræði-nörd hafði í árdaga verðtryggingarmisgengis lagt upp til að  ”fá fleiri til að borga margfalt af verðtryggðum lánum sínum.”   

Fyrirliggjandi spár sérfræðinga í Seðlabanka og fjármálaráðuneyti gáfu GHH tilefni til að álíta að gengishrunið mundi ganga til baka á nokkrum næstu mánuðum - - þannig að fyrirtækin og sá almenningur sem hafði verðtryggingu lána í formi gengisviðmiða mundi standa upp með vel greiðanleg lán kannski strax í mars-júní 2009.   

Niðurstaða Geirs Haarde og Jóhönnu Sigurðardóttur var því að ”aðhafast ekkert til að koma í veg fyrir – eða stöðva fyrirséða stökkbreytingu lána” . . .

Svo fór sem fór:  strax í mars 2009 var ljóst að gengið var ekki á leiðinni til baka, verðbólgan var ekki bara smáskot, , , , , , og afkomuhrun almennings og læsing hagkerfis fyrirtækjanna var orðið staðreynd.   Þá var komin ný ríkisstjórn – undir forystu Jóhönnu sem áður kom við sögu í ákvörðunum um að aðhafast ekki til varnar lántakendum með verðtryggð lán.   

Þarna voru því gerð afdrifarík mistök, en meðvituð ákvörðun engu síður – fyrst í október 2008 og aftur í febrúar til maí 2009. 

Fjórða;

 

 Frá því snemma árs 2009 hefur allt verið fast í efnahagskerfinu.  Atvinnustigið hefur fallið mikið, sérstaklega í framkvæmda- og hönnunargeiranum.   Eftir því sem fram vindur hefur fjármálakerfið hert ólarnar að hálsi fleiri og fleiri fyrirtækja og heimila.   

Stökkbreyttar gengistryggðar skuldir fyrirtækjanna eyðileggja efnahag allt að 80% þeirra sem áður voru í góðum rekstri.   Engin eðlileg bankaviðskipti eiga sér stað við slíkar aðstæður,   eigendur missa ráð þeirra og reksturinn er færður til annarra með misjafnlega málefnalegum undirbúningi.  Bankar og aðrir fjársterkir aðilar grafa undan aðilum í samkeppnisrekstri og raska nauðsynlegu markaðsjafnvægi og verðmyndun.  

Heimilin glíma við verulegt hrap í tekjum og kaupmætti vegna verðbólgunnar sem einkum stafar af gengisfallinu.   Afborgunarbyrði stökkbreyttra lána er  búin að rústa heimilisrekstur margra þúsunda.  Handrukkarar fjármagnsleigufyrirtækjanna og bankanna eru búnir að vörslusvipta og þvinga ótrúlegan fjölda fólks til uppgjafar vegna ólögmætra lána og án dómsúrskurðar eða löglegrar aðfarar.   Fleira og fleira fólk missir vonina um að það sé framtíð í rekstri fyritækis eða heimilis.   Fjöldi yfirgefur landið en langtum fleiri eiga engra kosta völ og sjá ekki fram úr. 

Fimmta;

 

 Ríkisstjórnir og Alþingi reynast vanhæf.   Nýjar kosningar 2009 og nýtt fólk í bland við gamla hunda með gamlar hugmyndir og gamaldags þrætu og málþóf hafa rústað trausti á þessum stólpum lýðræðisins.   Upphlaup fjölmiðla, stjórnmálamann og álitsgjafanna sveifla mönnum fram og aftur og niðursveiflan kemur í hverri holskeflunni á fætur annarri.    

Af ráðleysi ríkisstjórnar Geirs Haarde tók við þras og þrætubók Steingríms og Jóhönnu - - blandað  drýldni og hroka Gylfa Magnússonar og Árna Páls.     

Ekkert plan hefur verið teiknað upp - - og enn hefur engin virk aðgerðarstjórn á vettvangi ”stórslyssins”verið sett upp – til að forða frekara tjóni og til að bjarga verðmætum fjölskyldnanna og endurreisa lífvænan rekstur.    

Ríkisstjórnin neitar að viðurkenna afdrifaríkustu mistök hrunsviknanna sem fólust í því að frysta ekki vísitölur og gengisviðmið í lánasamningum og skuldbindingum bankakerfisins.  

Ríkisstjórnin þvingar þúsundir venjulegra fjölskyldna -  saklaust fólk til að glíma persónulega við allar afleiðingar Hrunsins – í gegn um eigin fjárhag og vonlausa skuldastöðu.   Það eina sem er í boði er langvarandi harðindi – í besta falli þvingað skuldafangelsi með greiðsluaðlögun -  ”ef þú ert heppinn” -  eða gjaldþrot og eilíf útskúfun . . . . úr samfélagi efnahagslega sjálfbjarga manna.    

Ekki er enn búið að setja upp farvegi til að rétta hlut þeirra sem hafa orðið fyrir handrukkun fjármálafyrirtækjanna vegna ólögmætra lána - - ekki er heldur búið að setja neinar raunverulegar hömlur á sjálfdæmi bankanna gagnvart þvingunarúrræðum - - ekki er búið að frysta neinar innheimtur eða afturkalla – nema rétt til endurtekinna bráðabirgða.  

Enn stendur ríkisstjórnin í öllum meginatriðum með fjármálaöflunum og þröngt skilgreindum hagsmunum banka og fjármálafyrirtækja - - gengur aftur og aftur erinda kröfuhafanna.     Lífeyrissjóðirnir eru orðnir eina hagsmunamál forystu launþegahreyfingarinnar og ávöxtunarleikir  lífeyrissjóðanna sameina forystu atvinnurekenda með ASÍ í gegn um stefnumót við fjármálaöflin, daður við vænta ávöxtun vegna hrunsins og aðra mismundandi siðlega peningaleiki.  

Erlendir sérfræðingar á sviði bankamála eins og hinn sænski Mats Josefsson hrekjast úr landi vegna þess að ekki er á menn hlustað og ráðleggingar að engu hafðar.  

Ekki er leitað til vinstri sinnaðri hagfræðinga um úrræði og breyttar áherslur til bjargar,  Stieglitz og  Krugman, Hudson og Perkins . . . . tjá sig við vindinn og örsjaldan sleppa viðhorf slíkra í gegn um  hefðbundna fjölmiðla, en ná hvergi eyrum ríkisstjórnar ”jafnaðarmanna og sósíalista” . . .  . . sem hafa völdin.  

Ráðgjöf Eva Joly slapp inn í farvegi sérstaks saksóknara fyrir hálfgerð kraftaverk, en er nú á enda þannig að ”áhrif útlendinga” gætu hvað úr hverju verið úr sögunni að því er varðar framvindu málann hér á landi ”eftir-hrunsins”

Sjötta:

Morfís-æfingar halda áfram og  flestir stjórnmálamenn og fjölmiðlar halda okkur í þrætuhjólfarinu; -   þar sem menn ”takast á” eins og segir í kynningum Kastljóssþáttanna . . .

Ríkisstjórn veitir enga jákvæða forystu, ber ekki fram framtíðarmiðaða aðgerðaráætlun eða neina framsækni eða róttæk úrræði sem rofið gætu sjálfhelduna og skuldakreppan herðir að æ fleirum.   

Aðgerðir sem eru þó í alltof litlum mæli miðast bara við þá ”sem eru MEST DRUKKNAÐIR” en alls ekki að því að forða fjöldanum frá drukknun og draga menn í land sem enn er viðbjargandi.    

Ríkisstjórnin neitar enn að leggja á borðið neina viðhlítandi greiningu á eignastöðu heimilanna og skuldastöðu, greiðslugetu og framfærslu þannig að unnt sé að rökræða og glíma við það í jákvæðu bróðerni að finna ásættanleg stig fyrir nauðsynlegar aðgerðir. 

 

Aðgerðir eru óumflýjanlegar

 

Leggja þarf upp ALMENNA EFNAHAGSAÐGERÐ, - fyrir hagkerfið í heild og allan rekstur - - - en ekki þröngblína á björgun fyrir einstaklinga eða sértækar leiðir fyrir alla . . Sértæk þrotameðferð tugþúsund er ófær leið - bæði siðferðilega rangt og algerlega útilokað að taka kannski 25-30 þúsund fjölskyldur í gegn um ferl uppboða og greiðsluaðlögunar og tjón einstaklinga, bankanna og samfélagsins alls heldur áfram og mun eyða verðmætum og brjóta niður framleiðslugetu fólksins og draga kraftinn úr hagkerfinu.

 

Ljóst er samt að færa þarf  allar verðtryggðar skuldir niður - - til þess að þær verði greiðanlegar fyrir lántakann og innheimtanlegar fyrir skuldareiganda - - og létti það mikið á nægilega mörgum þúsundum fjölskyldna að þeir sem útaf standa geti farið í gegn um siðferðilega boðlega og skilvirka vinnslu sérúrræða – á ásættanlegum tíma. 

 

Meginmarkmið verður að vera að framkalla markaðsvirkni í viðskiptum með íbúðir og skapa veltu í neytendhagkerfinu, auka ativnnustigið og með því létta á framfærslu hins opinbera og auka launaveltu og tekjur fólks - - drífa neyslu og með því skapa tekjugrunn fyrir ríki og sveitarfélög.    Slíkt er virkast leiðin til að gera fólki kleift að selja sig frá of þungri greiðslubyrði - með lágmarkstjóni. 

 

Eftir á má stilla aðgerðina af  - - með vaxtabótakerfinu annars vegar og  með því að skattleggja leiðréttingu til þeirra sem eru stóreignamenn og spila þeirri skattlagningu saman við ”auðlegðarskattinn” sem hefur verið innleiddur.    Þeir sem eiga skuldlausar eignir yfir 30-50-80 milljónir mundu bera stighækkandi skatta af leiðréttingu lána - - kannski 60-80% skipt á næstu 3 árin. 

en . . . . .

 

Bankarnir fara sínu fram - - og svamla ennþá meira og minna í því sérkennilega siðferði og þeim eyðileggjandi fyrirgangi sem áður leiddi til hrunsins; - sjálflæg græðgi, hofmóður og hrein heimska virðist ekki eiga sér nokkur takmörk.   Fjöldinn af almennum starfsmönnum bankakerfisins þráir tiltekt og grundvallar stefnubreytingu - - vill ekki þurfa að framkvæma ruglið - - sér að skuldakreppan er hinn raunverulegi vandi efnahagslífsins. 

 

 

Sjöunda;

 

 Jóhanna og Steingrímur hafa ekki burði né njóta þau trausts til að geta héðan af innleitt breytt orðræðusiði í stjórnmálin - - þau kunna ekki annað en gömlu sjálflægu þrætuna.    Þau hafa reynst afar óskynsöm í vali á ráðgjöfum sínum og handgengnum og eins ólíklegt og það hefði einhvern tíma virst þá sést ekki að við völd séu ”vinstri menn” – af gamla skólanum - - því beitt er öllum sömu úrræðum og ráðum og settu þjóðfélagið í klessuna.   

Ráðgjafarnir virðast allir koma úr sömu þröngsýnu hópum hagfræðinga og lögfræðinga og ólu upp valdastétt Sjálfstæðisflokksins og þeirra viðskiptamógúla sem höfðu öll völd á Davíðstímanum.    

Stjórnarforystan lemur í burtu sitt eigið fólk sem vill breyttar áherslur og áður en við vitum af birtast hópar af áður loyal flokksmönnum Samfylkingarinnar og VG á mótmælavöllum við tunnubarning.   

Minnihlutaflokkar á alþingi hafa endurtekið hert flokkslínur sínar - - og þverpólitísk samstaða - - þvert á flokka – reynist ómöguleg meðan núverandi formenn sitja í fyrirúmi.  

Ekkert traust er til staðar hjá almenningi gagnvart sitjandi alþingi og nánast öll samtalin stjórnmálaframlínan er meira og minna fyrirlitin.   

Ákæra fyrir Landsdómi á hendur Geir H Haarde er ekki tilefni til aukins trausts – og meðan stórleikendur af stjórnmálasviði Hrunsins eins og Davíð Oddsson eru valdaðir af fjármálaklíku sem nýtir þekkt sérréttindi sín með óprúttnum hætti og beitir afrakstri af ókeypis aðgangi að auðlindum þjóðarinnar til að halda úti linnulausum áróðri skekkir það augljóslega mjög hlutföll í fjölmiðlaumfjöllun.  

Hlutlæg umfjöllun blaðamanna á mjög í vök að verjast - - þrátt fyrir allt kannski næstum eins á ríkisfjölmiðlum eins og einkareknum miðlum.    

Að lokum . . . . Þrautaráð í neyðarástandi;

 

 Algerlega óraunsæ hugmynd um utanþingsstjórn mun ekki geta leyst neinn vanda - - alþingi verður að geta afgreitt lagafrumvörp með skilvirkum hætti og þess vegna verður að vera virkur meirihluti eða víðtækt samkomulag til staðar.   

Kosningar strax munu heldur ekki leysa hin brýnu mál - - nú og strax. 

Ekkert er því í spilum annað en að sitjandi Alþingi takist á við lausn mála - - með víðtæku samkomulagi.    Slíkt samkomulag þarf að brúa tímabilið fram yfir stjórnlagaþing og síðan boðað til kosninga  á árinu 2011, til að staðfesta um leið væntanlegar stjórnarskrárbreytingar

Það er bara tvennt til:

  • Annað hvort stíga Jóhanna og Steingrímur til hliðar og mynduð verður þjóðstjórn allra þingflokkanna - - með engum formanni flokkanna innanborðs en þó þingmönnum og öðrum fulltrúum þingflokka - - mögulega samt undir forsæti valinkunns einstaklings sem er utan þings.   Slíkt stjórn byggðist á víðtæku íhlutandi inngripi til skuldaleiðréttingar almennings og fyrirtækjanna og hófstilltari niðurskurðar á velferðarkerfum og menntamálum.    Kosningar færu síðan fram þegar stjórnlagaþing hefði skilað af sér og alþingi afgreitt málin með hófsamri umfjöllun . . . eftir nokkuð margra mánaða ”vopnahlé.”

 

eða

 

  • Sitjandi ríkisstjórn fær liðsinni Framsóknarflokks og Hreyfingar  - - um róttækar skuldaleiðréttingar hjá almenningi og fyrirtækjum – og skiptir út ”gömlum andlitum” – og gefur nýjum einstaklingum tækifæri til að bera fram brýnar lausnir og tala fyrir þeim.   Leggja þarf upp áætlun um samstilltar efnhags- og samfélagslegar aðgerðir  - - með nokkurs konar þjóðarsáttarsniði. Kosningar yrðu óhjákvæmilegar á næsta ári.
 

Það er stjórnmálakrísa og sjálfhelda sem þarf að komast úr.  

 

Það er efnahagslegt neyðarástand sem þarf að bregðast við með róttækum og íhlutandi hætti - - undir forystu og jákvæðri leiðsögn á ábyrgð Alþingis.   

 

 Það stefnir í samfélagslegt hrun og efnahagslegt hrun og landflótta með varanlegum harðindum fyrir þá sem sitja innilokaðir á Íslandi fátæktarinnar og neikvæðra lífsskilyrða.

 

Þetta verða þingmenn að skilja og stilla sínum sjálflæga metnaði til þrætunnar í hóf.  

 

 

Formenn verða að stíga til hliðar úr hefðbundnum hjólförum og gamlir hundar og gæslumenn sérhagsmuna verða að víkja fyrir opnum huga nýs fólks - - -

 

 . . hér þarf jákvæða nálgun,  kjark og vitsmuni, en umfram allt hugmyndaauðgi og framtíðarsýn stjórnenda sem vilja leiða menn til sameiginlegrar niðurstöðu fyrir almannahag. 

Fyrir almannahag!