Setti saman hugleiðingar vegna reynslunnar af undirbúningi og framkvæmd prófkjörs Samfylkiingarinnar í NA kjördæmi.
Hugleiðingarnar voru senda öllum frambjóðendum og kosningastjóra flokksins í kjördæminu.
Þar sem starf flokksins í NA kjördæmi er afar mikið í brotum og virðist ná til mjög þröngs hóps kýs ég að deila þessum þanka með þeim kjósendum og vinum mínum sem vilja og velja að líta inn hjá www.bensi.is
Vegna prófkjörs Samfylkingarinnar 5.-7. mars 2009
Viðhorf/reynsla þátttakanda - Um kjördæmisþing 14. febrúar og annan aðdraganda og ákvörðun, tímasetningu og kynningar prófkjörsins
- Tímrammi og aðdragandi að ákvörðun um fyrirkomulag og tillögugerð frá hendi stjórnar kjördæmisráðsins lenti í ákveðnum uppnámi. Tillögugerðin var afar veikt römmuð inn og kynning tillögunnar og bakland var ekki nægilega öflugt til samstöðu.
- Mæting á kjördæmisþingið var langt frá því að vera viðunandi og þannig var þátttaka flokksmanna ekki nærri nógu viðtæk til að byggja upp jákvæða stemmingu.
- Framvindan á kjöræmisþinginu var erfið og spennustigið hafði næstum yfirbugað skynsamlega ákvarðanatöku. Afgreiðsla og fundarsköp og með því niðurstaðan fór algerlega á jaðar þess sem að mínu mati getur kallast ásættanlegt fyrir stjórnmálaflokk sem vill vera burðarás í íslenskum stjórnmálum.
- Alltof margir af þeim tiltölulega fáu sem mættu á kjördæmisþingið yfirgáfu samkomuna – án þess að ganga þaðan út með jákvæðan takt.
- Tímasetning prófkjörs með 7. mars sem prófkjörsdag - gaf styttri undirbúning en nokkur þörf var á og með því miklu erfiðari tíma til kynningar og pólitískrar orðræðu að frumkvæði frambjóðenda í prófkjörinu.
- Um upplegg kjörstjórnar og kynningu á framboðum og kynningu frambjóðenda og skipulag á ábyrgð stjórnar kjördæmisráðs og kjörstjórnar.
- Útfærsla kjörstjórnar á samþykktum kjördæmisráðs mætti þeim meginsjónarmiðum sem lögð voru upp; - með kosningu á kjörstöðum og með utankjörfundarkosningu sem bæði byggði á þjónustu trúnaðarmann og í gegn um netkosningu með öryggi heimabankans.
- Reglur kjörstjórnar virkuðu sem raunsæ tilraun til að útfæra fyrirmæli og ákvarðanir kjördæmisráðsins frá 14.febrúar.
- Bann við kostnaðarsömum kynningum bitnaði á nýjum og yngri frambjóðendum öðrum fremur – en setti ekki nein takmörk á ”dagskrárgerð” sitjandi þingmanna og ráðherra á sama tíma. Jafnvel var óvitandi spilað upp í ”ókeypis forsíðuauglýsingar” einstakra frambjóðenda.
- Samflot með framkvæmd prófkjörs Samfylkingarinnar með öðrum kjördæmum – með mismunandi útfærslum, reglum, þátttöku (opið-lokað) og tímasetningum virkaði ruglandi. Lesnar auglýsingar í RÚV frá Suðurkjördæmi – sem lauk kosningu kl. 18 á laugardag 7.mars gat allt eins átt við NA kjördæmi.
- Kynningarfundir á Dalvík, Akureyri og Egilstöðum voru alltof lítið eða illa auglýstir til að koma að gagni sem kynning – en í staðinn tóku þeir upp dýrmætan tíma einstakra frambjóðenda. Fundarboðin náðu nær eingöngu til þröngs hóps sem tæplega eða ekki sótti fundina til að gera þar upp hug sinn.
- Vinnsla kynningarblaðs var alveg á mörkum þess að geta talist forsvaranleg – um ritstjórn og uppsetningu. Dreifing bæklings var alltof, alltof seint á ferðinni til þess að koma að gagni sem kynning á frambjóðendum og málefnagrunni nokkurra þeirra – og gat þannig ekki skapað neina aðfarastemmingu fyrir prófkjörið. Samfylkinguna skorti þannig algerlega upp á að það væri eftirspurn eftir þátttöku í prófkjörinu - nema hjá afmörkuðum og jafnvel staðbundnum hópum.
- Framkvæmd – og eftirlit með kynningu og kosningu:
- Fjöldi kjósenda gerði sér alls ekki grein fyrir að prófkjörið væri opið.
- Í ljós kemur að fjöldi þeirra sem er með virkan heimabanka í NA kjördæmi er býsna takmarkaður. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér geri ég ráð fyrir að minna en 1/3 viðskiptamanna þeirra hafi í raun virkan heimabanka á eigin kennitölu. Margir hafa heimabanka á kennitölu fyrirtækis, einkahlutafélags eða félagsbús – og höfðu ekki þann aðgang sem þátttakendur. Hjón og heilar fjölskyldur hafa heimabankann á einni kennitölu. Í sumum sveitum kjördæmisins segja margir kjósendur að netsamband sé svo óstöðugt að það taki því ekki að ætla sér að nota heimabankann.
- Einstökum kjósendum þótti aðkoman og uppstillingin í Lárusarhúsi hvorki nógu aðgengileg né aðlaðandi – og mikið skorti á að þar væru kjósendur nægilega varðir fyrir umgengni og áreiti óviðkomandi. Það skorti á prívat-næði kjósendanna meðan þeir kusu. Heyri sömu orð frá fleiri stöðum.
- Forsíðan virðist ekki hafa verið með nægilega skýrum fyrirmælum fyrir alla – eða amk. Þannig að það ”vafðist fyrir” – fólki sem var jafnvel þokkalega tölvufært.
- Að það var lokað á net-kosningu í gegn um Íslandsbanka fram undir kvöld á fyrsta degi fældi frá – og spurðist afar illa út á fyrsta degi netkosningar.
- Heyrði af fólki sem taldi sig ekki geta staðfest svo afdráttarlausa stuðningsyfirlýsingu við ”framboð SF” – í kjördæminu – óháð niðurstöðu prófkjörsins – og sneri frá á því stigi.
- Fleiri kjósendur segja mér að þeir hafi ekki komist áleiðis af síðu 2 (eftir að staðfesta stuðning við framboð) – þar sem þeir væru ekki á skrá hjá Samfylkingunni . . . . átta mig ekki á þeirri athugasemdum en sannort fólk á í hlut sem gafst upp sjálft.
- Það er óviðunandi að hver sem er geti slegið inn kennitölu og fengið svar um hvort viðkomandi hafi kosið eða ekki . . . . Slíkt hlið/svar verður að vera aftan við síðuna þar sem lykilorð er búið að leyfa aðgang . . . þannig að engir óviðkomandi geti kannað stöðu einstaklinga.
- Einn áhugasamur kjósandi benti á það sem ótvíræðari leið og í framtíðinni mögulega traustari að sækja aðgangsorð á persónulegan vef hvers og eins hjá Ríkisskattsjóra – þar sem öllum er úthlutað veflykli. Þó margir framselji sína veflykla til bókhaldara sinna eða þjónustustarfsmanna/endurskoðenda – þá væntanlega eru slíkir aðilar trausts verðir.
- Til framtíðar: rétt að setja ekki þrengri tímafresti en óhjákvæmilegt er og alveg ástæðulaust að takmark tímann sem netkosning stendur yfir svo mikið sem hér var gert. Það var t.d. hiklaust allt í lagi að net-kosning stæði alla helgina og allt til kl. 20:00 á sunnudagskvöldi.
Málefni og staða SF í kjördæminu - Þátttaka reyndist langt undir mínum væntingum í opnu prófkjöri. Met það svo á viðbrögðum og kosningunni að víða í kjördæminu vanti mikið upp á að það liggi stemming með Samfylkingunni. AÐ fá rétt ríflega helming þess kjörfylgis sem SF fékk í kosningum 2007 getur bent til veikrar stöðu flokksins.
- Reynslusaga Samfylkingarinnar af prófkjörum kjördæminu og Alþýðuflokksins þar á undan í gamla Norðurlandskj. eystra vinnur á móti flokknum - bæði í prófkjöri og líklega í kosningum einnig.
- Samfylkingin hefur óskýra ímynd gagnvart mörgum – og forystukreppa sveif yfir vötnum á meðan prófkjörið stóð yfir. Frambjóðendur juku á þá misvísun með því að tala óskýrt eða í mismunandi áttir.
- Prófkjör sem háð er á grundvelli liðssafnaðar og mismunandi óskýrra bandalaga frambjóðenda ruglar málefnagrunn flokksins fremur en að sameina hann um meginlínur.
- Met það svo að það sé megingjá á milli þeirra sjónarmiða að ráðherra-ræði og fyrirgreiðslupólitík (kjördæmapot) skuli vera inntak stjórmálanna – og langt umfram árangur í meginmálum sem snerta jafnræði og réttlæti fyrir einstaklingana og fjölskyldurnar og gagnsæi í starfsramma viðskipta og atvinnulífs.
- Núverandi ríkisstjórn með VG – undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur – virkar á kjósendur frekar sem biðleikur heldur en spennandi framtíðarsýn. Augljóst aðgerðaleysi og ráðleysi í lánamálefnum heimilanna og afkomu og fyrirséð þrot fyrirtækja í mikilvægum atvinnugreinum með stórauknu atvinnuleysi – gerir Samfylkingunni erfitt að fá fólk til liðs.
- Óþol gagnvart stjórnarskrárbreytingum og breytingum á kosningalögum með auknu persónukjöri – hvatti síður en svo til þátttöku.
- Mikill fjöldi frambjóðenda gaf þeim kjósendum sem lögðu megináherslu á breytingar mögulega þá tilfinningu að ekki væri líklegt að rótað yrði við ráðandi/sitjandi hópi - - og kann þannig að hafa dregið úr þátttöku.
- Starf Samfylkingarfélaganna í kjördæminu er greinilega í talsverðum molum - þar sem flokkurinn getur ekki mannað sínar eigin samkomur í samræmi við starfsreglur – um fulltrúafjölda. Einnig er augljóst að í einhverjum tilfellum skortir upp á að góðar venjur um fundahöld og form séu í heiðri hafðar. Áhugasamir finna jafnvel ekki neinn farveg til stefnumóts við samherja sína - með hjálp samfylkingarfélaganna og/eða þingmanna og starfsmanna flokksins.
Almenn niðurstaða: Samfylkingin á í sérstökum vanda í kjördæminu. Flokkurinn hefur verið með kjörfylgi hér í NA kjördæmi langt undir landsfylgi og miklar áherslubreytingar þarf að mínu mati til að það breytist 25. apríl nk. Forystukreppan sem komin er upp eykur á vanda flokksins í NA kjördæmi og mikilvægt að nýr formaður SF leggi verulega að mörkum til að safna liði - um leið og starfsmenn flokksins og gangverk allt þarf að endurnýja félagsstarfið og frelsa það úr viðjum flokkadrátta og almennrar deyfðar. Frambjóðendur SF í kjördæminu þurfa að taka sig á og efla sígild sjónarmið jafnaðarmanna og endurnýjaða framtíðarsýn – sem skýran valkost til breytinga frá hinu fallna viðskiptalíkani Frjálshyggjunnar í Viðskiptaráði og Sjálfstðisflokknum. Fjarlægi SF sig ekki skýrt og málefnalega frá Sjálfstæðisflokknum er hætta á að flokknum verði ekki treyst fyrir stjórnarforystu næstu 4 árin. Eftir þessa prófkjörsreynslu og samskipti við frambjóðendur og flokksmenn - auk almennra kjósenda – tel ég að við ættum öll að skilja betur þann vanda sem felst í því að hafa 20,8% kjörfylgi í kosningum 2007 og sjá ekki fram á nein örugg né skýr vísbendi um að Samfylkingin verði ekki minnsti flokkurinn í kjördæminu við kosningar í næsta mánuði. Uppstilling listans og mannval hefur nú verið ákveðið af afar fámennu auka-kjördæmisþingi á Akureyri 14. mars. Uppstillingarnefndin lagði fram lista sem bætti við nöfnum einstaklinga – sem valin eru á grundvelli búsetu í kjördæminu – eingöngu. Það er meira en umdeilanleg leið að þrengja frambjóðendahópinn með ”póstnúmeravali.” Betra hefði verið að útvíkka listann og sækja flokknum lið og aukinn trúverðugleika með því að leita markvisst eftir víðtækari skírskotun í þann málaefnagrunn sem frambjóðendur í prófkjöri og virkir flokksmenn og þátttakendur í pólitískri orðræðu geta gefið. Formaður uppstillingarnefndarinnar; Sr. Gunnlaugur Heydalaklerkur – var auðvitað fyrirsjáalegur málsvari slíkrar aðferðar sem valin var – en ekki gefið að hann væri endilega manna líklegastur til að hjálpa Samfylkingunni í kjördæminu til að yfirvinna gamaldags klíkupólitík frá niðurlægingartíma Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins – frá tíma sem er að baki og Samfylkingunni er bráðnauðsynlegt að þroskast frá. Slæmt er ef helsta von Samfylkingarinnar um árangur NA kjördæmi byggist á því að öðrum flokkum í kjödæminu verði verulega á við uppstillingu á framboðslista eða klúðri með öðrum hætti sinni kosningabaráttu.
Frambjóðendur Samfylkingarinnar eiga mikið verk og erfitt verk fyrir höndum ef þeim á að takast að sækja sér verulega aukinn stuðning fyrir hönd Samfylkingarinnar.
Ég óska Samfylkingunni í NA kjördæmi góðs gengis