Forsætisráðherra skemmir fyrir sér . . .

 

Hef verið verulega hugsi yfir því hvernig forsætisráðherra kaus að ræða veikleika ríkisstjórnarinnar.

Katta-kenningin (að smala köttum) er að sjálfsögðu tekin illa upp hjá Vinstri Grænum  - og slíkt átti ekki að koma á óvart.   Þarna féll forsætisráðherra í þá gryfju að tala digurt í "hópi innvígðra" og freistaði þess að slá keilur (þar sem þess þurfti kannski ekki).

Veikleiki ríkisstjórnarinnar felst í því að ná ekki að vinna málefni til samstöðu og árangurs fyrir þjóð og almenning - og einhvern veginn er eins og þessi ríkisstjórn jafnaðarmanna og sósíalista sæki helst ráð og undirbúning í smiðju þeirra sem unnu fyrir valdhafana á Gamla Íslandi - þar sem viðskiptalífið naut leiðsögn Viðskiptaráðs.

Það getur átt vel við að taka í lurginn á LÍÚ  - og fylgispekt Samtaka Atvinnulífsins - en það þarf að fara afar hóflega í það að svara sóðakjöftum úr hópi útgerðarmanna með því að rífa kjaft - og uppnefna þá - - í slíku sóðaverki munu útgerðarmenn alltaf vinna . . . .- - þeim þarf þess vegna að sýna yfirmáta umræðukurteisi úr ræðustóli forsætisráðherrans . . jafnvel upphafna kurteisi og vinsemd í garð verkefnisins þannig að sóðalegt orðbragð og yfirgangur þeirra gengisfelli þeirra eigin málstað.

Forsætisráðherrann þarf að leiða þá sem saman geta átt til sameiginlegrar niðurstöðu - það gera ábyrgðarmenn og flokksleiðtogar ekki með því að senda skæting og hótfyndni yfir garðinn . . . og flæma fýlusprengjum yfir á lóðina við hliðina.    Sama hvort nágrannarnir þykja leiðitamir eða ekki . .

Það er erindi Samfylkingarinnar við samtímann að leiða samstöðu - og Jóhanna Sigurðardóttir heldur á umboði flokksins til þess að vinna farveg fyrir lausnir í vandamálum dagsin.      Ekki bara í vandamálum sem skópust við hrunið og í framhaldi af því - heldur einnig vandamálum sem hlaðist hafa upp á blómatíma Frjálshyggju og siðleysisins sem Viðskiptaráð, LÍÚ og XD og XB hlóðu á þjóðina.

Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að Samfylkingin eigi undir högg að sækja hjá kjósendum - og reyndar ríkisstjórnin í heild.

Sérstaklega er ástæða til að hafa áhyggjur af því að Samfylkingin fór halloka í skoðanakönnun í Reykjavík - - þar sem "Besti flokkurinn" og Jón Gnarr eru komnir á blað hjá kjósendum.

Við þær aðstæður að Samfylking og VG fái samanlagt einungis 6 eða kannski 7 borgarfulltrúa þá er hætt við að Dagur B Eggertsson fái ekki tækifæri til að verða Borgarstjóri í Reykjavík  - í sterkum meirihluta.  

Degi B Eggertssyni varaformanni Samfylkingarinnar er nauðsynlegt að fá tækifæri til að þroskast og efla sig sem stjórnmálamann og framtíðarleiðtoga og efni í formann Samfylkingarinnar - í gegn um það að verða borgarstjóri og óumdeildur leiðtogi sameiningar gegn ofríki og öfgum Sjálfstæðisflokksins og spillingu undir leiðsögn Viðskiptaráðs. 

Slíkt tækifæri skapast því miður ekki fyrir Dag  - undir ónýtri ríkisstjórn sem starfar í veikleika - og nær ekki víðtækri samstöðu eða framgangi fyrir nokkrum sköpuðum hlut.

Það er skylda Samfylkingarinnar og erindi við samtímann að leiða víðtæka samstöðu - miðju, félagshyggju og vinstri - sem valkost gagvart hinu hrunda kerfi - -

- - Jóhönnu er ekki að ganga með Steingrími - og því er brýnt að framlínuskipti komist á dagskrá - - fyrir sveitarstjórnarkosningar en ekki eftir að borgarstjórnarmeirihluti er genginn úr greipum varaformannsins og ríkisstjórnarflokkanna . . .

Jóhanna gerði illt ástand verra - með kjánalegum tilburðum til að vera fyndin á kostnað Vinstri Grænna.  Hún - ein í Samfylkingunni - sem formaður og forsætisráðherra - mátti ekki orðinu halla . . . .  og allra síst núna . . . .

- - við hin sem erum án hlutverka og án ábyrgðar fyrir hönd Samfylkingarinnar megum kalla þá öllum illum nöfnum - - því þeir í VG þurfa ekki að látast heyra í okkur . . . .

Framlínuskipti þurfa að komast á dagskrá tafarlaust í Samfylkingunni - - og það þarf að sækja breikkaðan grundvöll fyrir starfi ríkisstjórnar - og styðja það auknum meirihluta á Alþingi - - með aðild Framsóknarflokksins og með tilstyrk Hreyfingarinnar og Þráins . .

- - - með sterkasta mögulega meirihluta - - um aðgerðir í skuldamálum heimilanna og með stjórnlagaþingi og stjórnarskrárbreytingum - og með virku aðgerðum í endurnýjaðri atvinnustefnu . . .  og markvissum undirbúningi að ESB aðildarviðræðum . . .  þannig getum við siglt okkur skást í gegn um næstu 8-18 mánuði -  fram að nýjum kosningum og nýrri stjórnarskrá.

Með nýju fólki í ríkisstjórn . . . . fólki sem tekur völdin úr höndum formanna sem ekki eru að landa samstöðu og árangri fyrir almenning. .

. . . einhvern vegin þannig verður unnt að koma í veg fyrir allherjar upplausn og samfélagslegt hrun ofan á hið efnahagslega . . .