Forystuvandi vinstri og félagshyggju – máttvana reiði almennings
Nú hefur fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan farið fram. Sorglegt að það skuli hafa vafið utan um sig eins og raunin varð - - með því að forystufólk ríkisstjórnarinnar fór í fýlu og brást þannig með öllu í því mikilvæga hlutverki allra ríkisstjórna að leika landsfeður og mæður. Jóhanna og steingrímur voru neikvæð og þvældu vondu máli framan í sína eigin pólitísku félaga og stuðningsmenn eins og skítugri og illa lyktandi tusku.
Með heimasetu sinni og fúlum yrðingum og aðdróttunum hafa formenn ríkisstjórnarflokkanna endanlega staðfest að þau eru heillum horfin. Þau hafa um leið ennfrekar grafið undan trausti almennings á stórnmálastéttinni þar sem þessi afstaða þeirra stangast algerlega á við allan þeirra málflutning.
Hverjum hefði t.d. getað dottið í hug að Jóhanna Sigurðardóttir snerist gegn þjóðaratkvæðagreiðslu og gerði lítið úr aðkomu almennings í beinu lýðræði?
Var það ekki einmitt Jóhanna sem öllum öðrum stjórmálamönnum fremur hefur haldið vakandi tilburðum til að endurskoða stjórnarskrá og setja stjórnlagaþing, aðgreina valdþætti og koma á föstum farvegum fyrir þjóðaratkvæði og beint lýðræði?
Og var það ekki steingrímur j Sigfússon sem öllum harðar barðist gegn ICESAVE-samningaferli og heimild til ríkisstjórnar að semja yfirleitt í desember 2008? Og hefur ekki þessi sami steingrímur viljað láta líta út eins og hann sé maður lýðræðisins - - með beinni aðkomu fólksins – þjóðaratkvæðagreiðslum?
Öllu er snúið á haus. Forsprakkar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru nú formælendur beins lýðræðis og tala um mikilvægi þess að þjóðin láti til sín taka. Sömu flokkar og menn og hafa þvælst fyrir öllum tilraunum til að koma á stjórnlagaþingi og stjórnarskrárbreytingum síðustu missirin og lengi áður.
Fólk veit betur en nokkru sinni að stjórnmálastéttinni er ekki hægt að treysta.
Jafnvel sú Jóhanna sem áður og fyrrum naut ótvíræðs og almenns trausts og viðurkenningar á því að vera ”sjálfri sér samkvæm” og vera álitin ”óspillt” – sú Jóhanna hefur nú afhjúpast sem ráðalaus og líklega áhrifalaus.
Jóhanna er umkringd slæmum ráðgjöfum og þröngsýnni klíku og verður því aftur og aftur fórnarlamb eigin spunameistara – og missir þess vegna aftur og aftur þá einlægni sem er nauðsynleg til að koma skilaboðum til þjóðarinnar og sinna eigin stuðningsmanna.
Jóhanna og steingrímur j andskotast enn og aftur á forseta Íslands og embættisfærslu ÓRG. Með því er enn ein mótsögnin reist og í raun og veru óskiljanlegt hvers vegna lykilmenn Samfylkingarinnar tóku þann pólinn að snúa vonbrigðum sínum með eigin vandræðagang í ICESAVE gegn forseta og gegn embætti sem vinstri menn hafa ráðið og ráðstafað allan lýðveldistímann.
Forsetaembættið hefur einmitt verið táknmynd þess að þrátt fyrir allt hafi stjórmálastéttin ekki haft einskorað alræðisvald og almenningur getað ráðstafað þessu embætti til einstaklinga sem ekki hafa verið í uppáhaldi ríkjandi stjórnvalda.
Það er von að fólk ruglist í ríminu – og finni fyrir máttvana reiði – viti ekki sitt rjúkandi ráð.
Þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram.
Almenningur skildi þrátt fyrir allt að það kom ekki annað til greina en að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og mæting upp á 62% hlýtur að teljast nokkuð gott – þrátt fyrir að enginn hafi reiknað með því að já-menn yrðu margir. Það er þannig einhver 15-20% þjóðarinnar sem hafa farið að fordæmi Jóhönnu og steingríms . . . .og ekki mætt . . . því varla er hægt að ímynda sér að meira en kannski 75-80% þjóðarinnar yfirleitt tækju þátt í atkvæðagreiðslu um lagagildi máls sem hér um ræddi.
Nokkrir dálkahöfundar og bloggarar sem vilja vera ríkisstjórninni velviljaðir hafa farið mikinn.
Verðlaunablaðamaðurinn Jóhann Hauksson hefur tekið harða stöðu í ICESAVE-málinu og lagt upp mikinn stuðning við sjónarmið Jóhönnu Sigurðardóttur - um að okkur bæri að semja og samþykkja samninga á hverju því stigi sem þeir hafa legið fyrir. Jóhann hefur gert mikið úr því að veikleiki ríkisstjórnarinnar hafi legið í gegn um VG og þannig hafi ekki verið meirihlutastjórn í landinu.
Ég hef verið sammála því sjónarmiði að veikleiki ríkisstjórnarinnar í ICESAVE-málinu hafi einmitt legið í því að VG skaffar ekki meirihluta– við nokkurn skapaðan hlut. Þess vegna verður leikaraskapur minnihlutans á Alþingi að afgerandi þætti í framvindunni. Ríkisstjórn sem starfar í veikleika - með gervimeirihluta – getur aldrei mætt minnihlutanum á þingi og lagt upp víðtæka samstöðu.
Minnihluti þingsins veit að ríkisstjórnin getur ekki ráðið framvindunni í sínum forsendum og þess vegna þarf stjórnarandstaðan ekkert að hafa fyrir því að slá niður alla tilburði stjórnarinnar til frumkvæðis.
Á sama hátt stjórnast ríkisstjórn við þær aðstæður alltof mikið af þeim augljósa tilgangi að halda völdum – sitja í ráðherrastólum og verja vini sína við jötuna.Það er inn í þetta tómarúm sem forseti Íslands stígur - og bregst við með því að vísa lögum til þjóðaratkvæðis og taka upp málsvörn með því að ræða við erlenda fjölmiðla - fær þannig athygli sem ríkisstjórnin getur ekki tekið til sín - en virðist skipta miklu máli fyrir úrvinnslu úr hagsmunum Íslands. Og ráðherrarnir verða bara önugir og pirraðir . .
Veikleikinn í VG er að sönnu vandamál ríkisstjórnarinnar eins og hún er skipuð, en átti alls ekki að koma á óvart.
Það var ótrúleg skammsýn græðgi til valdsins sem réði því að Jóhanna Sigurðardóttir og hennar handgengin klíka í Samfylkingunni kaus að hengja sig með steingrími j – og nota ekki jákvætt samstarf við Sigmund Davíð og Framsóknarflokk hans á tímabili minnihlutastjórnarinnar til að gera endurnýjun í Framsókn meðábyrga fyrir umbreytingunni.
Þannig hefði verið auðvelt að einangra Sjálfstæðisflokkinn og gera Hádegismóra erfiðara fyrir að ná samstöðu með Ögmundi Jónassyni og þeim ábyrgðarfælna hluta VG sem með honum dinglast.
Um þversagnir og bandalög út á jaðranan er Jón Ólafsson með áhugaverða bollaleggingu á sínum vef þann 6. mars sl. http://www.jonolafs.bifrost.is/2010/03/07/afrakstur-byltingarinnar/
Þegar Samfylkingin og VG höfðu síðan fengið meirihlutafylgi í kosningum í apríl 2009 þá var það einmitt aftur ekki síður mistök að freista þess ekki að víkka út bakland fyrir hinum erfiðu lausnum – bæði gagnvart bráðum afleiðingum hrunsins eins og ICESAVE og endurreisn banka og aðgerðir gegn skuldavanda heimila og fyrirtækja – og einnig gagnvart hinum stóru málum inn á við og útávið eins og ESB, gjaldmiðillinn, kvótamálin og auðlindamálin í heild.
Það hefði verið skynsamlegt að leita samstöðu um ríkisstjórn – með Framsókn og Borgarahreyfingu á þeim tíma. Þá var það mjög vel hægt og hefði sennilega bæði breytt þróun Borgarahreyfingarinnar - og mögulega bjargað þeim frá pólitískum afglöpum sínum – og það hefði einnig getað tekið hinn lítt þroskaða formann Framsóknarflokksins inn í pólitísk ábyrgðarhlutverk þar sem hann hefði væntanlega neyðst til rökrænnar yfirvegunar og málsvarnar – í stað hins illskeytta hrokaflóðs sem hefur greinilega blandast við persónulega óvild milli SDG og steingríms og Jóhönnu.
Veikleiki þessarrarr ríkisstjórnar birtist á fyrstu dögum minnihlutastjórnar Jóhönnu og steingríms – með því að þau tóku EKKI við því kefli sem Ingibjörg Sólrún rétti þeim, með samstöðu yfir til Framsóknar. Jóhanna og steingrímur byrjuðu strax að þræta við Framsóknarmenn og útilokuðu úrvinnslu einfaldra hugmynda – með spunaviðbrögðum og ”arfavitlausum” sleggjudómum.
Þessi veikleiki liggur því miður miklu meira innan Samfylkingarinnar heldur en nokkru sinni í VG vegna þess að Samfylkingin átti að geta tekið sér stöðu ”hins þroskaða” í samstarfinu og átti að geta verið ”stór” flokkur og engin smásál.
Það varð hins vegar fljótt alveg ljóst að fámennur hópur í kring um Jóhönnu Sigurðar notaði þetta óvænta tækifæri til að hrifsa til sín aðstöðu og áhrif langt umfram það bakfylgi sem þessi hópur stendur undir. Til þess naut ”klíkan” stuðnings örfárra annarra skipulagðra hópa – sem nú hafa í heilt ár setið að meiri tækifærum til áhrifa en þeir hafa unnið fyrir eða sótt sér stuðning til innan Samfylkingarinnar. Nægir bara að benda á skipan embætta á stuttum valdatíma Jóhönnu til að sjá hversu langt hún hefur gengið að hampa sínum vinum og völdum klíkum sem nú hafa kosið að gerast henni handgengnar.
Á sama hátt er sérkennilegt að einstakir þingmenn flokksins sem takmarkaðan stuðning fá frá flokksstofnunum – taka til sín framgang í ríkisstjórn og mannvirðingum – í umboði Jóhönnu – sem er langt umfram það sem reynist hollt fyrir flokkinn. Þannig hafa t.d. Össur Skarphéðinsson sem kemur aftur og aftur laskaður í gegn um prófkjör - sem fallinn formaður – og Ásta Ragnheiður sem var nánast hent út úr ráðherrasæti í prófkjöri fyrir kosningarnar - haldið pólitísku lífi sínu.
Árni Páll var kolfelldur í kjöri varaformanns og hrifsar endurtekið til sín orðræðu þar sem hann virðist ganga erinda stórkapítals og kröfuhafa og setja sig gegn allri málafylgju fyrir hönd almennra skuldara - með augljósum og skaðvænum afleiðingum. Þröngur hópur þingmanna fær að setjast að fundarborðum félagsmálaráðherrans - - og þar sitja jafnvel ráðgjafar sem seint verða taldir vænlegir til að útfæra lausnir í anda jafnaðarstefnunnar.
Svo er enn annar kapítuli hvernig handgengnir menn Jóhönnu og einstökum ráðherrum hafa verið settir til áhrifa. Þar vekur alveg sérstaka undrun hvernig Hrannar B Arnarsson hefur komist upp með að umkringja Jóhönnu og einangra hana og sem er að mínu mati eitt og sér orðið hennar mesti háski. Svo er um fleiri og sérstaklega er ferilli Einars Karls Haraldssonar á framfæri flokksins orðið skotspónn til athlægis.
Stóri vandi stjórnmála dagsins virðist þannig vera að Samfylkingin er ekki sá burðarflokkur í ríkisstjórn sem hann þarf að vera og stærsti flokkur á Alþingi verður að vera til að vel takist að sigla stjórnmálum á sannarlega erfiðum tímum. Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætiráðherraefni Samfylkingarinnar - og síðan forsætisráðherra - án þess að það hafi átt sér nein aðdraganda innan flokksins.
Snjall leikur á þeim tíma – en alltaf millileikur í stjórnmálum og viðbragð við ofboðslega harmrænum aðstæðum sem sköpuðust með veikindum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þegar Ingibjörg Sólrún reyndist veikari en svo að hún ætti augljósa mögleika á að taka fullan þátt í pólitík var það eflaust rökrétt að kjósa Jóhönnu sem formann Samfylkingarinnar, vitandi þó að það var einnig pólitískur millileikur. Jóhanna fékk umboð flokksins og Samfylkingin náði rétt viðunandi árangir í kosningum.
Stjórnarhættir Jóhönnu og handgenginna innan og í kring um ríkisstjórnina og inn á við í Samfylkinguna hefur verið með þeim hætti að þar ríkir ”þöggun” og jafnvel áður orðhvatir þingmenn hafa ekki látið í sér heyra. Það lítur út eins og allir þingmenn Samfylkingarinnar séu samstiga og samhljóða í öllum málum, en það skýrist einkum og aðallega af því að þar eru þingmennirnir ekki að gera neitt sem máli skiptir.
Agerðarleysi og ráðleysi ráðherra og ríkisstjórnarforystunnar í heild hefur orðið til þess að afar margir þingmenns, varaþingmenn og oddvitar flokksins í flokksstofnunum eru ekki með í ráðum varðandi eitt né neitt. Það er orðin mjög almenn og bjargföst tilfinning hjá almennum flokksmönnum Samfylkingarinnar að það sé raunverulega ekkert að gerast.
Enginn þorir að opna sig gagnrýnið og við sem höfum enga pólitíska ábyrgð en reynum að láta í okkur heyra og til okkar taka – við erum dissuð og ”barin í höfuðið” – jafnvel þora veltengdir vinir okkar úr framlínunni ekki að láta sjá sig setjast til borðs með okkur á mannamótum. Alþingismaður sem tjáir sig gegn ráðandi klíkum – að ég nú ekki tali um – gegn Jóhönnu – eiga einungis von á verða setti ”á ís” – eða jafnvel jarðaðir pólitískt.
Frammistaða Gylfa Magnússonar og drýldni hans og ósnertanleiki leiðir til þess að hann virðist með öllu ábyrgðarlaus. Gylfi tekur út á pólitíska innistæðu Jóhönnu og Samfylkingarinnar – en leggur ekkert inn í staðinn.
Vegferð ríkisstjórnarinnar og reynslan af forystu þeirra steingríms og Jóhönnu er því miður ekki nægilega jákvæð til þess að hægt verði að fela þeim forræði fyrir óbreyttri ríkisstjórn.
Frammistaða þeirra í sjónvarpi Egils Helgasonar í dag – sunnudag 7.mars 2010 var skelfilega sorgleg. Þau munu ekki leggja upp vinnuplön sem hægt verður að byggja á víðtækari pólitíska framvindu.
Óbreytt ríkisstjórn getur ekki setið og sinnt gagni fyrir almenning og fyrirtækin í landinu – og getur ekki leyst nein mál.
Afsögn ríkisstjórnarinnar verður ekki umflúin ef þau hyggjast halda áfram á sömu braut – einstrengings, en samt í minnihluta – innan eigin meirihluta. Stjórnarsamstarf Samfylkingar með VG er þannig komið á leiðarenda, undir formennsku Jóhönnu og með steingrími j.
”Tími Jóhönnu er farinn” og spurningin er héðan af eingöngu hversu hratt hún hverfur af hinu pólitíska sviði.
Væntanlega hverfur Jóhanna samt ekki út af sviðinu – nema fyrst hafi farið fram kosningar og að flokkurinn hafi haldið Landsfund og látið fara fram allsherjarkosningu formanns líkt og gert var 2005. Samfylkingin þarf þess vegna að setja í gang formlega ferla til að skipa framtíðarformann sinn – til næsta kjörtímabils og til að bera merki jafnaðarstefnunnar fram til árangurs í næstu kosningum. Til þess þarf að framkalla formannskosningar.
Framboð til formanns í Samfylkingunni
Ég hef íhugað alvarlega að bjóða mig fram til formanns í Samfylkingunni. Ekki vegna þess að ég sé endilega viss um að ég yrði besti formaður - eða eini mögulegi formaður flokksins – heldur þvert á móti vegna þess að nauðsynlegt er að skipta algerlega um snið á forystu fyrir Samfylkingu jafnaðarmanna.
Forysta og starfsáherslur sem eru sameinandi og lausnamiðaðar, - þar sem kallað er á breiðan hóp fólks með þekkingu og hugmyndir til að leggja upp víðtæka og árangursríka samstöðu um almannaheill – og jafnræði og lýðræði til framtíðar.
Ég hef því miður orðið var við að einstakir líklegir stuðningsmenn til framboðs míns í formannssætið veigra sér við að koma fram opinberlega. Þeir óttast líklega að verða settir á ís – verða útilokaðir frá samfélagi hinna innvígðu í Samfylkingunni – og fá engan framgang í flokki Jóhönnu, Hrannars og Árna Páls.
Ný forysta þarf að geta sýnt nægilega hógværð til að kalla aðra inn á sviðið og til að geta gefið mörgum hlutdeild í ákvörðunum og ávinningi.
Varaformaður flokksins Dagur B Eggertsson á að geta lagt að mörkum í þá veru og verður að gera það.
Hins vegar þarf Dagur B Eggertsson að fá tækifæri til að vaxa og þroskast sem stjórnmálamaður og leiðtogi – sem Borgarstjóri í Reykjavík.
Þess vegna er skynsamlegt að velja formann í flokknum sem kemur úr annarri átt en borgarpólitíkin í Reykjavík – og kemur ekki úr elítunni sem nú er við völd.
Ákvörðunin um að setja formannskjör í farveg er brýn – og hana þarf að tímasetja.
Þetta er mitt framlag til þess að knýja á um að rjúfa þessa sjálfheldu stjórnmála dagsins.
Ég mun hins vegar draga framboð mitt til baka strax og betri frambjóðandi gefur sig fram.