Um samvinnufélög, gagnkvæm félög, sjálfseignarfélög/stofnanir og önnur möguleg form fyrir almannafélög sem rekin eru á kostnaðargrunni (non-profit) og/eða með lágmarkshagnað (low-profit), en skýran hagsmunatilgang fyrir félagsmenn og fyrir almenning eftir atvikum.
Nú hafa hlutafélögin og græðgisvædd hagnaðartengd starfsemi farið eyðandi um hagkerfi vesturlanda.
Þess vegna er þörf að leita hagstæðari leiða til að tryggja hagsmuni almennings gagnvart þeim leiða sið að "einkavæða hagnaðartækifæri" - en varpa tapinu á hinn almenna skattborgara sem ekki getur varið sig sjálfur
Minnispunktar 20.febrúar 2010 Benedikt Sigurðarson á Akureyri
Þróun í átt til aukningar markaðsáherslna og markaðshyggju og síðan öfgafullrar Frjálshyggju á sér langan aðdraganda. Pólitík frjálslyndrar hægristefnu náði fótfestu í Sjálfstæðisflokknum á dögum Viðreisnarstjórnarinnar og fékk talsrými í Morgunblaðinu með Eyjólfi Konráð Jónssyni. Um sama leyti fór að gæta áhrifa af markaðstrúboðun af hálfu OECD, EFTA og fleiri fjölþjóðasamtaka. Gylfi Þ Gíslason mótaði áherslur í viðskiptamálum og stjórnmálum gamla Alþýðuflokksins – með skarpan núning við samvinnufélög bænda og með því Framsóknarflokksins.
Hefðbundin blönduð kaupfélög misstu allt rekstrarforskot sitt á áttunda áratugnum og af þeim var tekið sértækt svigrúm gagnvart skattlagningu, fjármögnun og uppgjörsreglum. Sérhagsmunir og einokunar þvingað starfsrými landbúnaðarins – hefur komið óorði á rekstur samvinnufélaga á sviði úrvinnslu afurða og pólitískt spillingarorð liggur á öllum arfi gömlu samvinnuhreyfingarinnar undir merkjum SÍS. Slíkar breytingar urðu með beinum og óbeinum hætti með samþykki Framsóknarflokksins.
Ekki hefur enn tekist að loka á rekstrarsögu samvinnuarfsins með þrotameðferð SÍS og síðar Samvinnutrygginga/Giftar og slá með því striki undir umdeilanlega ráðstöfun, meðferð og umsýslu félaga sem stóðu eftir við þrotalok gamla SÍS.
Umfangsmikill og víðtækur áróður gegn rekstri almannafélaga svo sem sparisjóða og gagnkvæmra félaga leiddi til þess að lagalegt og rekstrarlegt umhverfi félaganna var allt fært til þess horfs að lokum voru sparisjóðirnir nær allir einkavæddir – með hörmulegum afleiðingum. Hugtakið ”fé án hirðis” var innleitt – sem skammaryrði og á alla lund neikvætt hugtak um eignir og fjármagn sem stóð að baki rekstri sem ekki var ætlað að skila beinum hagnaði í vasa einstakra eigenda sinna.
Almannaeignarhald, opinbert eignarhald, gagnkvæm félög og samvinnufélög (kaupfélög og sparisjóðir) voru meira og minna ”útmáluð” sem úrelt form og fortíðarvandi. Undan þeim fjaraði samfara gríðarlegri röskun á rakstrarumhverfi sjávarútvegs og landbúnaðar í dreifbýlinu – og með því tókst ekki að endurnýja skipulagsgrunn og starfshætti þeirra þannig að þau gætu sannað sig að nýju og varið sig sjálf með góðum árangri sínum.
Hnignun kommúnísku ríkjanna undir einræði Sovétskipulagsins gerði formælendum félagslegs eignarhalds og opinbers rekstrar hvarvetna á Vesturlöndum erfiðara um vik. Eflaust má halda því fram að hrun Berlínarmúrsins og Sovétsins – samfara áróðurslegum yfirburðum lærisveina Ronald Reagans og Margareth Thatcher – hafi slegið jafnvel ákafamenn jafnt sem hófsömustu formælendur félagslegs eignarhalds og samvinnurekstrar út af laginu.
Ólíkt systursamtökum á Norðurlöndum og víðast um Evrópu höfðu samtök launþega á Íslandi engin jákvæð hliðarkerfi samvinnufélaga í verslun, sparisjóðarekstri, þjónustu eða í rekstri húsnæðis á sínum snærum. Þessi staða leiddi til þess að lítill eða enginn pólitískur bakfiskur var til staðar til að takast á við endurnýjun og þróun samvinnuhreyfingar þegar SÍS var að hrynja – og meira að segja Framsóknarflokkurinn gaf þessa hugmyndafræði félagshyggjunnar algerlega upp á bátinn.
Leifarnar af hrundu SÍS nýttu síðan forkólfar Framsóknar til að skáka mikilvægum almannahagsmunum í hendur vildarvina sem tóku virkan þátt í að ræna einkavædda bankakerfið og fella það að lokum á kostnað almennings.
Kvótavæðing í sjávarútvegi og landbúnaði reyndist eiga sér hugmyndafræðilegar forsendur eins og krafan um einka-hagnaðarvæðingu sparisjóða og gagnkvæmra félaga.
Áróðursbylgjan kristallaðist með skýrum hætti í útgáfustarfi og áróðri Verslunarráðsins gamla og seinna Viðskiptaráðs og margvíslegra samtaka á vettvangi verslunar og þjónustu og ekki síður í þrautskipulögðum málflutningi og pólitískri málafylgju Péturs Blöndal og margra Sjálfstæðismanna úr Eimreiðarhópnum sæla. Eimreiðarhópurinn varð valdasetur "Flokksins" í stjórnmálum og stjórnkerfi og tengslanet þessa hóps og skyldra spilafélaga náði víða um hagsmunasamtök og teygði sig inn í valdakerfi fleiri stjórnmálaafla og félaga sem starfa áttu í þágu almennings og launþega.
Einkavæðing nær allra fjármálafyrirtækja á síðustu 10 árum, ríkjandi markaðshyggja og nokkurs konar heilaþvottur af hálfu áhrifamikilla aðila hefur einnig leitt til verulega umfangsmiklar tilrauna í átt til aukins einkarekstrar með hagnaðardrifnum viðmiðunum á sviðum opinberrar þjónustu. Þar hefur verið gengið lengra en með venjulegri og hófsamri “útvistun þjónustuverkefna” á sérgreindum sviðum tækni eða afmarkaðra verkþátta.
-------------------------------------
Staðan í ársbyrjun 2010
Augljóst er að í upptakti þenslunnar og aðdraganda hrunsins reyndust starfshættir margra eignarhaldsfélaga og skráðra hlutafélaga verulega ámælisverðir og verulegar líkur á að saknæmt athæfi hafi verið talsvert útbreitt meðal stjórnenda í fjármála- og atvinnulífi.
Þensluhagkerfið, með lánadrifinni hlutabréfabólu, hrundi með alvarlegum afleiðingum fyrir íslenskan almenning. Efnahagskerfið er lamað – einkum vegna skuldavanda fyrirtækja og heimila sem skýrist öðru fremur af verðtryggingu krónulána og gengisviðmiðunum lánasamninga.
Langflestir sem höfðu lagt fjármuni í hlutabréf og önnur verðbréf hafa tapað mestu af sínum eignum. Almenningur situr jafnframt uppi með stórtjón á persónulegum fjárhag sínum vegna verðtryggingar lána og vegna umtalsverðra skattahækkana og verðbólgu af völdum bankahrunsins og viðvarandi gengisfalls krónunnar. Auk þess eru eignir í íbúðarhúsnæði hrundar í verði og fyrirtæki í annars meira og minna heilbrigðum rekstri eru sliguð af stökkbreyttum skuldum.
Vantraust á lífeyrissjóðum og umsvifum þeirra í fjármálalífinu hafa aukist með viku hverri eftir að ljóst varð að hlutur þeirra í bóluvæðingunni virðist hafa verið jafnvel afgerandi um þá þróun sem teymdi okkur fram af hengiflugi lánadrifinnar áhættu. Áframhaldandi sérkennileg frammistaða einstakra forystumanna launþegafélaga og stjórnarmanna í lífeyrissjóðum, í umboði launamanna, vekur spurningar um framhaldið og raunverulegar afkomuforsendur og ávöxtun lífeyrissjóða til lengri framtíðar.
Við þessar aðstæður er eðlilegt að pólitískir aktívistar og stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna og hófsamrar félagshyggju leiti allra leiða til að leiða hagsmuni almennings – og afkomuþarfir og lífsgæði hins breiða fjölda til ráðandi vegs að nýju – eftir hugmyndafræðilega niðurlægingu og hrun græðgishagkerfisins.
Hér á eftir verður reynt að draga upp helstu möguleika og takmarkanir sem samfélagslega sjálfbær og ábyrg rekstrarform bjóða upp á. Um er að ræða eftirfarandi rekstur sem gerir ráð fyrir að óheimilt sé að taka beinan fjármagnsarð út úr fyrirtækjum;
- opinbert eignarhald með ábyrgri og lýðræðislegri stjórnun: samningsstjórnun, vettvangsábyrgð (SiteBasedManagement), verktökurekstur (chartering)
- samvinnufélög, samvinnuhlutafélög og gagnkvæm félög í verslun og þjónustu og fjármálastarfsemi (kaupfélög og sparisjóðir og gagnkvæm tryggingafélög)
- húsnæðissamvinnufélög – búsetufélög með sameignarsniði
- sjálfseignarfélög og sjálfseignarstofnanir ( í eigu eða á stofnábyrgð opinberra aðila)
Til þess að gera rekstur slíkra félaga eftirsóknarverðan og raunhæfan þarf að styrkja lagagrunn allra þessarra rekstrarforma.
Einföldun laga nr. 22/1991 og laga um sparisjóði er mikilvægt skref. Almenni lagarammi slíkrar starfsemi þarf að uppfylla tiltekin skilyrði
- félögin þurfa að vera öllum opin í tiltekinni starfsgrein, starfssvæði eða starfsemi
- félögin þurfa að fela í sér að í meginatriðum sé lýðræðisreglan ”einn maður eitt atkvæði”
- skýrar takmarkanir séu gerðar á viðskiptum með stofn-hlutafé og innlausn stofnsjóðseignar
- félögin séu tryggð fyrir því að afrakstur af starfsemi gangi með skýrum hætti til neytenda/notenda og deilist í hlutfalli við þátttöku í félaginu
- félögin séu lagalega varin gegn einkavæðingu eða því að arður og hagsmunir séu fluttir í vasa einstaklinga á ómálefnalegum forsendum
- félögin séu sett undir stranga ramma um gangsæi og opna starfshætti – og málefnalegt eftirlit af hálfu opinberra aðila
- tryggja þarf félögum sem ekki taka hagnað út úr starfseminni tilteknar ívilnanir gagnvart skattlagningu sem eru málefnalegar og styðja almannahagsmuni
- skýra lagaákvæði verða að ramma inn form og ferli félagsslita og uppgjörs félaga við slit sem komi í veg fyrir að félög séu hagnýtt í þágu sérhagsmuna
Að læra af reynslu frá öðrum ríkjum og landsvæðum
Við vinnslu og greiningu á lagagrunni slíkrar samvinnu- og sjálfseignarforma er mikilvægt að draga saman efni og þekkingu frá nágrannalöndum – bæði á Norðurlöndum, Bretlandi, Spáni, Frakklandi og í Bandaríkjum, Kanada og Ástralíu.
Ívar Jónsson dósent í Háskólanum á Bifröst gerði umfangsmikla samantekt um samvinnustarf í nágrannalöndum í samstarfi við Hrannar Magnússon, Signýju Sigurðardóttur og fleiri. (Bifröst)
http://www.felagshyggja.net/Felagar/Samvinnnuhreyfingar.pdf
Í flestum Vestur-Evrópulöndum er víðtækt starf samvinnufélaga og gagnkvæmra félaga.
- Sparisjóðir í almennri neytendaþjónustu eru verulega umsvifamiklir
- Sérhæfðir sjóðir og félagslegir “húsnæðisbankar/íbúðalánasjóðir” starfa með non-profit/low-profit fyrirkomulagi
- Kaupfélög (cooperative) eiga og reka verulega umsvifamikil verslunarfyrirtæki og grunnvinnslu verslana – bæði í Danmörku, Sviþjóð, Bretlandi, Spáni og Frakklandi og víðar.
- Samvinnusambönd eru skipulagslega mikilvæg stuðningskerfi í öllum löndum þar sem samvinnustarf er útbreitt.
- Húsnæðissamvinnufélög og búseturéttarfélög eru víðtæk form íbúðarekstrar í Skandínavíu og á Spáni. Félagslegt eignarhald á húsnæði t.d. í Þýskalandi og Bretlandi og í sumum hlutum Canada er rekið í sjálfseignarfélögum og sameignarfélögum - með low-profit/non-profit viðmiðunum.
- Framleiðslusamvinnufélög iðnaðarmann og fagmanna í hönnun, ráðgjöf margvíslegri þjónustu eru talsvert útbreidd í Ameríku og í Bretlandi
- Andalúsía á Spáni lifði af einræðistíma Franco með víðtæku samábyrgðarkerfi borgaranna - sem ráku flesta þætti verslunar og viðskipta í formi samvinnufélaga. Þar er nú sterkasti grunnur Sósíalistaflokks Zappatero – og enginn sérstakur áhugi á að einkavæða fyrirtæki almennings – í þágu sérhagsmuna.
- Samvinnuflokkurinn (Cooperative-Party) í Bretlandi er sjálfstæð stjórnmálahreyfing, en hefur verið samstæður hluti af þingflokki Verkamannaflokks (New-Labour) frá því Tony Blair kom til valda. Þingmenn Coop-party eru nú 19 og þar af einn ráðherra í ríkisstjórn Gordon Brown.
- “Blönduð kaupfélög” eins og gamla KEA og KÞ hafa almennt ekki lifað/þróast til lengdar í nágrannalöndum – heldur virðast einsleit félög og félagseiningar – innan samvinnusambanda – orðið einkennandi/ráðandi form. Með því eru bein tengsl milli afkomu og hagsmuna félagsmanna og rekstrar-/viðskipta tiltekinna félagseininga.
- Gríðarlega öflug flóra sjálfstæðra skóla í V-Evrópu og Ameríku er rekin sem sjálfseignarstofnanir - - og langflestir kostaðir af opinberi fé til jafns við skóla ríkis og sveitarfélaga. (Þannig eru 20-25% grunnskóla í Danmörku sjálfstæðir og enn hærra hlutfall t.d. í Hollandi og Belgíu)
- Langflestir stærri háskólar í Ameríku og um allan hinn Enskumælandi heim eru sjálfseignarstofnanir/sjálfseignarfélög (not for-profit). Víða eru ríkisháskólarnir einnig sjálfseignarstofnanir - með sjálfstæða stjórn og fulla ábyrgð á fjárhag og samningsfrelsi gagnvart ríkisvaldinu.
- Sjálfstæðar heilbrigðisstofnanir víða um hinn Vestræna heim eru sjálfseignarstofnanir - - óháð stofnendaábyrgð einstaklinga eða hins opinbera.
- Sparisjóðir – sem skilgreind samvinnufélög eða gagnkvæm félög – eru víða býsna umsvifamiklar fjármálastofnanir í almennri bankaþjónustu (Samvinnubankar/coop-banks/Loans and Savings)
- Gagnkvæm tryggingafélög eru víðtækasta tryggingaform í mörgum löndum – stundum í hreinni eign tryggjenda og stundum í blandaðri sameign með fjárfestum
Eftir að ég skrifaði þessa hugleiðingu og birti las ég á vef Ármanns Jakobssonar áhugaverðan pistil um Alræðiskapítalismann og "einkafyrirtæki"