Dögun – hvað?
Dögun, samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, er stofnuð til að bera fram hagsmuni og hjartans mál almennings í landinu.
Þeir hópar sem upphaflega standa að flokknum komu frá Borgarahreyfingunni/Hreyfingunni og uppreisn almennings í kjölfar Hrunsins og frá Frjálslyndaflokknum. Áberandi einstaklingar úr Stjórnlagaráði og frá Hagsmunasamtökum Heimilanna lögðu lóð á vogarskálar auk þess sem áhugafólk um samfélagslegt réttlæti hefur komið til liðs við flokkinn af ýmsum ástæðum.
Kjarnastefna flokksins lýsir skuldbindingu stofnenda Dögunar gagnvart lýðræðisumbótum og nýrri stjórnarskrá, bættri stöðu neytenda gagnvart lánveitendum og afnámi verðtryggingar og fyrir gerbreytingu á fiskveiðistjórnun með innköllun veiðiheimilda og afnámi kvótakerfisins.
Dögun vill verða áhrifamikið umbótaafl og farvegur fyrir breytingar í samfélaginu. Flokkurinn leggur áherslu á skapandi stjórnmál og vill vera vettvangur kjarkmikillar og góðviljaðrar leitar að lausnum.
Dögun vill stuðla að málefnalegri samræðu og efla skilning og umburðalyndi milli hópa og einstaklinga. Flokkurinn mun kappkosta að leiða fram sjónarmið og hugmyndir og kalla sem allra flesta óháða aðila að borði við undirbúning mikilvægra ákvarðana.
Dögun leggur áherslu á upplýsingafrelsi og vandaða umgjörð um fjölmiðlun til að vernda lýðræðislega ákvarðanatöku þar sem fjársterkum hagsmunaaðilum eru settar eðlilegar skorður, m.a. með banni við pólitískum áróðursauglýsingum í blöðum.
Dögun vill að netfrelsi ríki og persónuvernd verði efld í þágu almannahagsmuna og heimildum lögreglu varðandi eftirlit eða forvirkar rannsóknarheimildir verði mjög takmarkað og undir eftirliti dómstóla og Alþingis.
Dögun staðsetur sig hvorki til hægri né vinstri í hefðbundnum skilningi. Flokkurinn leggur áherslu á frelsi einstaklingsins og ábyrgð samfélagsins, frjáls viðskipti þar sem neytendavernd og samkeppnisaðhald er virkt. Dögun vill um leið sjá öflugt og hagkvæmt velferðarkerfi þar sem gjaldfrítt aðgengi og jöfn tækifæri einstaklinga eru í forgrunn. Flokkurinn telur að blandað hagkerfi með öfluga starfsemi neytendadrifinna samvinnufélaga og sjálfseignarfélaga - veiti einkarekstri heilbrigt aðhald og leiði til hagkvæmni og aukinnar framleiðni í hagkerfinu.
Dögun vill stuðla að valddreifingu, auknu sjálfstæði og fjölbreytni í rekstri skóla og heilbrigðisstofnana en telur að hagnaðardrifin einkavæðing hafi algerlega brugðist væntingum og einungis leitt til aukins kostnaðar, minna jafnræðis og lakara aðgengis.
Til að Dögun takist að skila árangri í þágu almennings er mikilvægt að áhugafólk taki þátt í málefnastarfi og góðviljaðri samræðu á vettvangi flokksins. Þannig getur skapast samstaða og kraftmikið afl sem er líklegt til að leggja grunn að bjartari og betri framtíð komandi kynslóða.
Benedikt Sigurðarson er formaður framkvæmdaráðs Dögunar