Ágætu vinir.
Árið 2019 gengur í garð. Tækifærin bíða eftir því að við berum gæfu til að nýta þau.
Það er jákvætt hljóð í forystu hinnar nýju verkalýðshreyfingar og virkilega von um að jákvæðar lausnir verði dregnar upp á borðið í kjarasamningum - einkum að því er varðar neytendamál gagnvart fjármálakerfinu og hinum illa skortselda húsnæðismarkaði. Samvinnulausnir í sjálfbærum neytendafélögum eru hiklaust svarið við húsnæðiskrísunni - - um leið og bannað verður að verðtryggja lán til neytenda. Samfélagsbankalausnir að fyrir þýska Sparkasse-kerfisins mundu mjög fljótt umbreyta fjármálamarkaðinum á okkar litla landi - almenningi til hagsbóta og auðvelda stofnun og rekstur nýrra og smærri fyrirtækja.
Það eru líka mörg jákvæð teikn um vaxandi umhverfisvitund landsmanna - - gegn plastúrgangi og hroðalegum yfirgangi stóriðjunnnar þar sem skítafjárfestar úr aflandsheimum læðast inn til að arðræna þau landsvæði sem ekki eiga sér sterka sjálfsmynd og lýðræðisvitund til að verja sig.
Það er heldur ekki útilokað að lýðræðisumbótum á grunni Stjórnarskrártillögu Stjórnlagaráðs frá 2011 sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 muni þoka áleiðis.
Það gæti jafnvel gerst að yfirgangi gjafakvótaþega í LÍÚ og Sjálfstæðisflokki Vg muni sett einhver takmörk áður en árið verður á enda - því varla mun ríkisstjórnin hanga til loka þessa árs - nema með algerri stefnubreytingu.
Samt kann þetta að vera byggt á bjartsýni eldri manns á nýársdag - þegar sólin er sýnilega farin að hækka á lofti og spáð er góðviðri á NA-landi alla næstu daga.
Megið þið njóta alls hins besta og vaxa að gæsku og velvilja - og ekki bara gagnvart ykkar allra nánustu.
Bensi