Virðulegi formaður Samfylkingarinnar/Varaformaður Samfylkingarinnar.
Mér er það sérstakt sorgarefni að skrifa þetta bréf eftir að hafa verið upplyftur af bjartsýni og vongóður talsmaður Samfylkingar jafnaðarmanna allt frá stofnun flokksfélags hér á Akureyri snemma ársins 2000. Barátta hugsjóna réttlætis, lýðræðis, valddreifingar og samvinnu hafa átt athygli mína svo lengi sem ég man.
Ég undirritaður hef verið einlægur áhugamaður um „sameiningu jafnaðarmanna“ og jafnvel allra vinstri- og félagshyggjuafla í einum öflugum, víðsýnum og umburðarlyndum stjórnmálaflokki. Ég batt vonir við að Samfylkingin gæti með tíð og tíma orðið slíkur flokkur - - með því að þar yrðu leidd til vegs meginsjónarmið frjálslyndrar jafnaðarstefnu og jákvæð samræðupólitík.
Því miður lagði Samfylkingin upp í skelfilega vegferð með kosningastefnuskrá sinni 2007 - - þar sem úrelt og háskalegt daður við markaðshyggjuna varð að aðgöngumiða fyrir samstarf við Sjálfstæðisflokkinn – undir þröngsýnni og kreddublandinni leiðsögn örfárra klíkuforingja sem voru þóknanlegir fjármálaelítu landsins. Í ríkisstjórn og til samstarfs við ráðherrana var síðan handvalinn þröngur hópur fyrir hönd flokksins - - og margvísleg þekking flokksmanna útilokuð frá áhrifum og leiðsögn fyrir flokksbrodda og ráðherra. Því fór sem fór í samstarfinu - - og ráðherrar og þingmenn – gengu áhrifalausir og ábyrgðarlausir fyrir björg með Geir H Haarde - - og að því er virtist eftir á að hyggja blindaðir af sjálfsupphafinni ánægju yfir því að vera komnir í valdastólana.
Eftir skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hafa margvíslegar heitingar verið uppi af hálfu forystumanna Samfylkingarinnar um að bæta starf flokksins og „læra af skýrslum og gangrýni“ - - - Það er því alveg sérstakt vonbrigðatilefni að slíkir lærdómar hafi látið á sér standa.
· Þú ágæti formaður; sast sem lykilráðherra í ríkisstjórn Geirs H Haarde og áttir afgerandi hlutdeild í þeim mistökum sem gerðu Hrunið stærra og verra en auðvelt er að vinna úr.
· Í framlínu flokksins sitja enn á Alþingi og í ríkisstjórn fjórir ráðherrar sem sátu í ríkisstjórn Geirs H Haarde - - og nokkur hópur þingmanna sem var á vettvangi Hrunsins.
· Stærstu mistök Hrunsins og fyrstu viðbragða eftir-Hrun voru ótvírætt að taka ekki til frystinga á vísitölum og öðrum viðmiðum til verðtrygginga á fjárskuldbindingum almennings og fyrirtækjanna. Í því efni lékst þú ágæti formaður ábyrgðarmesta hlutverkið með skipan ráðgjafanefndar undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ og síðan með því að leggja fram frumvarp og greinargerð um „greiðslujöfnun fasteignaveðlána“ í nóvember 2008. Á grundvelli þeirra ákvarðana varð skuldakrísan og afleiðingar hrunsins handfluttar inn í persónulegan fjárhag meirihluta fjölskyldnanna í landinu og langflest fyrirtæki eru enn ósjálfbjarga og undir oki bankanna - - þeirra sömu og felldu hagkerfið allt.
Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að Landsfundur Samfylkingarinnar í síðasta mánuði - - og málatilbúnaður ríkisstjórnarinnari allur - viðurkennir í engu þau mistök sem gerð voru - - og víkur sér undan allri ábyrgð á Hruninu og þeirri ríkisstjórn sem þá sat.
Það virðist augljóst að forysta Samfylkingarinnar - - sem var á vettvangi í aðdraganda og í gegn um Hrunið – neitar að axla ábyrgð með því að hverfa af vettvangi og opna leið fyrir óhjákvæmilega endurnýjun - ef flokkurinn á annað borð á að verskulda traust kjósenda.
Það er bókstaflega ömurlegt að verða vitni að því að stjórnmálaflokkur sem kallar sig Samfylkingu jafnaðarmanna skuli hafa gengið í lið með endurreisn þess fjármálakerfis sem reyndist bókstaflega eitrað - siðlaust og eyðileggjandi - - með því að endurreisa bankana óbreytta og færa þá í hendur andlitslausra kröfuhafa. Ömurlegast þó að ríkisstjórn jafnaðarmanna og sósíalist þverskallast við öllum bænum og áskorunum varðandi það að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð lán - - og vinda ofan af óraunsæjum ávöxtunarkröfum fjármálakerfisins - - gera með því áhættufíkna lífeyrissjóðafursta að sérstökum dekurkálfum sínum.
Mikilvæg framfaramál sem bundnar hafa verið vonir við hafa orðið að meira og minna engu undir stjórnarforystu Samfylkingarinnar;
· Stjórnarskrárumbætur og lýðræðisvæðing er í erfiðum farvegi - - - af því að þar er engin jákvæð og uppbyggjandi málafylgja sem ríkisstjórnin virðist geta flutt fram.
· Enginn talar fyrir aðildarviðræðum að ESB með þeim jákvæða og hvetjandi hætti sem þarf til að kraftur geti orðið í viðræðum og þekking og hagsmunir Íslands og íslendinga geti sameinast þannig að til verði samningur sem íslenska þjóðin verðskuldar að taka upplýsta ákvörðun um í þjóðaratkvæðagreiðslu.
· Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og regluverk um aðra auðlindanýtingu eru í leyndar farvegi þar sem ekkert er ljóst að muni geta leitt til víðtækrar sáttar og samstöðu til lengri og skemmri tíma - - þar sem yfirgangi sérhagsmuna verður stillt til hófs en réttlátum arði skilað til almennings.
· Fjármálakerfið er í óbreyttum fasa leyndar og duttlunga, þar sem bónusar og vinahygli og annað gerræði ræður ríkjum - - verðtryggingin heldur áfram ósjálfbærum og sjálfvirkum tilflutningi fjármuna langt umfram áður þekkt viðmið.
· Almenningur kveinkar sér undan ósanngjörnum og siðlausum afskriftum milljarðatuga hjá kvótakóngum og útrásarþjófum - - og horfir á að svokölluðu „afskriftasvigrúmi“ er öllu stýrt til þeirra sem bankarnir skuldsettu til Helvítís eða komið hafa sér upp velheppnuðum vanskilum - - á meðan hinir hófsömu og ráðdeildarsömu sem öllu héldu í skilum fá enga úrlausn.
Við þessar aðstæður tel ég fullreynt: Samfylkingin er ekki fær um að standa undir nafni sem flokkur jafnaðarmanna, flokkur réttlætis og jöfnuðar - - með núverandi forystu og með þeim málatilbúnaði sem hefur orðið ofan á nánast allt frá því 2007.
Af þeim ástæðum er ég neyddur til að segja mig úr flokknum og biðja jafnframt um að nafn mitt verði fjarlægt af samskiptalistum flokksmanna.
Mér er einnig nauðugt að biðja landsmenn alla afsökunar á að hafa trúað á „drauminn um samfylkingu jafnaðarmanna – í þessum flokki“ - - og hafa tekið þátt í – hafa staðið að og stutt framboð og frambjóðendur flokksins.
Að þessu gerðu lýsi ég því yfir að ég mun gera allt sem ég get og má til að vinna að því að til verði stjórnmálaafl sem verður fært um að taka við því merki sem Samfylkingin reyndist ófær um að halda á lofti undir þeirri forystu sem þar hefur meira og minna öll framsætin og ræður ferðinni.
Með eftirsjá.
Akureyri 25.nóvember 2011
Benedikt Sigurðarson jafnaðarmaður