Yfirlýsing Benedikt Sigurðarson
Einhver misskilningur hefur komið upp varðandi stöðu undirritaðs í stjórn Samvinnutrygginga og ákvörðun um slit þess félags með stofnun Gift ehf sem meiningin var að gengi beint til rétthafa tryggingastofn hins gamla móðurfélags.
Undirritaður var formaður í Akureyrardeild KEA frá 1998-2004 og stjórnarformaður KEA 2002-2006. Þar með átti ég virka aðild að umbreytingarferli KEA árin 1998-2003 - þar sem félaginu var skipt upp, bændum afhentur virkur eignarhlutur í Mjólkursamlagi KEA og félagsmönnum greitt út mismunandi stór eign sem safnast hafði í stofnsjóð - - með hlutabréfum í Kaldbaki hf. Kaldbakur var stofnaður um eignir KEA í samstarfi við Samherja og Lífeyrissjóð Norðurlands (Stapa).
Kaldbakur var skráður á markað og verðmæti félagsins spannst upp í bólunni – og fjöldi félagsmanna KEA innleysti umtalsverðan hagnað með sölu á hlutabréfum sínum þar til félagið var yfirtekið af Burðarás(Björgólfunum) – með viðskiptafléttu Samherja og Baugs – sem forsvarsmenn KEA áttu enga aðild að, en sátu uppi með (þó í fyrstu liti út fyrir að félagsmenn KEA hefðu hagnast á öllum saman).
Við þessa umbreytingu KEA varð það yfirlýst og staðfest markmið að félagið stefndi á að leysa út eignarréttindi félagsins í Samvinnutryggingum með slitum þess félags og koma jafnframt hinum beinu eignarréttindum fyrrum viðskiptavina Samvinnutrygginga GT beint til þeirra.
Við einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka staðfestist að KEA var ekki hluti af viðskiptablokkinni sem kennd hefur verið við S-Hópinn - þar sem KEA/Kaldbakur og Samherji voru samkeppnisaðilar við Ólaf Ólafsson og Samskip, Kaupfélag Skagfirðinga/Skinney Þinganes sem hefur verið kjölfestan í því sem kallað var S-Hópur og „fékk að kaupa Búnaðarbanka Íslands“ með þekktum afleiðingum. KEA/Kaldbakur-Samherji áttu einu tilboðin í ríkisbankana sem augljóslega voru gerð á beinum viðskiptalegum forsendum - með samstarfi við erlenda aðila (Svenska Enskilda), en fengu ekki málefnalega vinnslu hjá ríkisstjórninni á þeim tíma - illu heilli.
Á þessu tíma eimdi verulega eftir af þeim ágreiningi milli valdahópa kaupfélaganna sem átt sinn þátt í falli SÍS á sínum tíma (Valur Arnþórsson/Guðjón B Ólafsson). KEA var útilokað frá nánasta viðskiptabandalaginu sem nefnt hefur verið S-Hópurinn og tilheyrði á engum tíma þeirri pólitísku blokk sem studdi valdakjarna Halldórs Ásgrímssonar. Undirritaður átti aldrei pólitískt heimaland í Framsóknarflokknum - - og líklega eini stjórnarformaður KEA frá 1931 sem ekki var flokksbundinn Framsóknarmaður.
Árið 2003 var undirritaður kjörinn í stjórn EHF Samvinnutrygginga. Markmið okkar í KEA var að Samvinnutryggingar skyldu leystar upp og skipt milli eigenda sinna. Stjórnarstörf mín helguðust því markmiði, með endurteknum kröfum um að fundir félagsins yrðu opnaðir, að rétthöfum og fyrri viðskiptamönnum yrði gert aðvart um mögulegan eignarrétt sinn og að félagið mundi setja í gang skipulagt slitaferli. Jafnframt lagði ég áherslu á að Aðalfundur SÍS sem kaus Fulltrúaráð fyrir Samvinnutryggingar mundi sinna því ábyrgðarhlutverki að hlutast til að þessi slit færu fram með gagnsæu ferli. Ég lagði áherslu á að stjórn setti sér formlega fjárfestingarstefnu og siðareglur eins og eðlilegt er með stjórnir sem vinna í almannaþágu.
Þegar ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum í maí 2007 urðu þær breytingar í viðskiptaráðuneytinu sem gáfu vissulega vonir um að Björgvin G Sigurðsson viðskiptaráðherra mundi beita sér fyrir því að félög eins og Samvinnutryggingar kæmust beint til rétthafa, þar sem þau höfðu hætt tryggingastarfsemi en starfsleyfi þeirra byggðist á slíkri starfsemi.
Í júní 2007 var ákveðið á aðalfundi EHF Samvinnutrygginga að slíta félaginu og stofna ehf Gift um allar eignir félagsins. Þarna töldum við sem höfðum barist fyrir því markmiði að slíta Samvinnutryggingum að við værum að nálgast mikilvæga niðurstöðu. Skilanefnd var skipuð og var henni falið að láta vinna frumvarp að skiptingu eigna Samvinnutrygginga þar sem hverjum og einum aðila yrði síðan afhent tilsvarandi verðmæti í hlutabréfum í Gift.
Eigið fé Giftar – í hámarki hlutabréfabólunnar 2007 - var metið á nálega 30 milljarða. Mest af eignnum var í formi hlutabréfa í bönkunum og í Exista.
Því miður dróst allt starf skilanefndarinnar – og á sama tíma virðast stóru bankarnir hafa verið á fullu í að manípúlera verðmæti eigin bréfa með aðferðum sem hafa sætt rannsóknum Sérstaks Saksóknara. Stjórnarmenn Samvinnutrygginga/Giftar á árinu 2007-2008 höfðu nýtt sér ráðgjöf fagaðila og banka varðandi fjárstýringu og megnið af eignum félagsins var í skráðum hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum.
Það var ekki ljóst fyrr en kom fram á árið 2008 að hrun væri í aðsigi – og svigrúm Samvinnutrygginga/Giftar til að selja frá sér hlutabréf í fallandi bönkum og fjárfestingarfélögum var ekki lengur til staðar.
Undirritaður hefur margsinnis gert opinberlega grein fyrir þátttöku sinni í stjórn Samvinnutrygginga/Giftar og þeirri skyldu að freista þess að innleysa eignarhlut KEA og félagsmanna KEA og allra annarra viðskiptamanna Samvinnutrygginga.
Stjórnarseta mín í Samvinnutryggingum frá 2003-2008 og í Gift frá 2007-2008 hefur hvorki verið leyndarmál - né feimnismál.
Í Kastljóssþætti hjá Helga Seljan 2.desember 2008 gerði ég ítarlega grein fyrir þessum málum (og má nálgast þá upptöku á síðu Láru Hönnu Einarsdóttur). http://www.youtube.com/watch?v=uI-RY_P8eu4
Einnig hef ég gert ítarlega grein fyrir þessum störfum á opinberum fundum hjá KEA og í bloggpistlum á heimasíðu minni (www.bensi.is). http://bensi.is/?m=news&f=viewItem&id=87 (1.des.2009).
Því miður hefur Rannsóknarnefnd Alþingis ruglað nafni mínu saman við nafn Benedikts Sigurðssonar lögmanns sem var framkvæmdastjóri Samvinnutrygginga árin 2004-2008 og prókúruhafi.
Ég var óbreyttur stjórnarmaður Samvinnutrygginga/Gift 2003-2008 allan tímann.
KEA var ekki hluti af viðskiptablokk Kaupfélags Skagfirðinga og Skinneyjar Þinganess – og Benedikt Sigurðarson ekki heldur.
Benedikt Sigurðarson stjórnarformaður KEA var ekki hluti af valdakjarna Framsóknarflokksins og á engum tíma handgenginn Halldóri Ásgrímssyni (og ekki flokksbundinn Framsóknarmaður).
Benedikt Sigurðarson á Akureyri er ekki þátttakandi í viðskiptum með neinum af þeim sem kenndir hafa verið við S-Hópinn.
Hefur hins vegar lagt að mörkum til að ljúka því verki sem hófst með ákvörðun um slit Samvinnutrygginga 2007 - og hefur unnið að því að ljúka slitum EHF Andvöku sem er um það bil að ljúka um þessar mundir með því að rétthöfum verður afhent sú eign sem þeim ber skv. skipulagsskrá og slitafrumvarpi.
(Ritað 14.1príl 2013)