Sveitarfélög; umboðsvandi samtaka sveitarfélaga og ráðinna starfsmanna við stjórnsýslu á þeirra vegum.
Ísland sker sig úr hvað varðar smæð meðal sjálfstæðra ríkja. Á Íslandi eru líka margvíslegar „sér-íslenskar“ lausnir, túlkanir og skipulag verkefna. Í gegn um tíðina hafa markmið slíkra sérlausna alltof oft virst vera að tryggja hagsmuni valdamanna – sérhagsmuni fárra - og varðveita forréttindi ráðandi hópa.
Á sjöunda áratug síðustu aldar og fram yfir þann níunda voru rædd ýmis tilbrigði við aukna dreifstýringu í opinberri stjórnsýslu - jafnvel að koma á einhvers konar þriðja-stjórnsýslustiginu, með landshlutavaldi og verkefnastjórnsýslu skólamála, heilbrigðismála og félagsmála. Því miður náðu þessar hugmyndir ekki að þróast til framkvæmda, og eftir að Jóhanna Sigurðardóttir var komin með sérstakan verkefnishóp (Sveitarfélaganefnd) sem skilaði áliti 1992, varð hugmynd dreifstýrðrar byggðastefnu og landshlutastjórnsýslu að mestu lögð að velli.
Í framhaldinu hefur síðan þróast sérkennileg valdaskipting milli ráðuneyta og bæjarstjóra. Fyrst með því að grunnskólinn var færður til sveitarstjórna (en ekki til foreldra og aukins nándarvalds) – og pólitísk íhlutun og afskipti stórlega aukin og síðan sömdu sveitarstjórarnir við félaga sína í Alþingisflokkunum um að heimamenn (sveitarstjórnir) skyldu hætt að taka fulla ábyrgð á stjórnarþáttöku í heilbrigðisstofnunum og hætta að vera að skipta sér af skipulagi og þjónustu þeirra mála.
Með lagabreytingu var síðan innleitt allsherjar forstjóraeinræði í heilbrigðisstofnunum undir valdboði ráðuneytisins í Reykjavík. Slík breyting gengur gegn flestum þekktum lögmálum varðandi skilvirkni og árangur í þjónustu og nú sjáum við ótvírætt að heilbrigðiskerfið hefur molnað samfara niðurskurði og þjónusta er skert vítt um landið.
Þessa dagana funda klúbbar sveitarstjórnarmanna og embættismanna þeirra um rekstrarmál sveitarfélaga. Áberandi umboðsvandi birtist í slíkum fundahöldum þar sem Samband Íslenskra sveitarfélaga er farið að haga sér eins og einhvers konar þriðja stig stjórnsýslunnar - án þess að hafa stjórnskipulegt umboð af neinu tagi. Deiling skatttekna til sveitarfélaga – til að kosta þjónustuverkefni - í gegn um svokallaðan Jöfnunarsjóð sveitarfélaga - með reglugerð ráðherra er óþægilega ógagnsæ aðferð og ögrar jafnræði aðila.
Auðvitað eru aðstæður varðandi skattheimtu gerbreyttar með nútíma samgöngum og viðskiptaháttum. Fyrirtæki og einstaklingar búa ekki við sams konar átthagafjötra og á árunum fyrir tækniöld. Flest stórfyrirtæki í verslun og þjónustu starfa á landsvísu – en gera upp í Reykjavík. Samþjöppun í sjávarútvegi gerir að verkum að veltutekjur af þeirri grein dreifast á æ færri sveitarfélög. Innheimta beinna og óbeinna skatta er á einni hendi ríkisins. Þess vegna væri nú eðlilegt að endurskilgreina skattheimtuna - óháð búsetu eða heimilisfangi fólks og fyrirækja. Deiling skatttekna til að kosta þjónustuverkefni t.d. í menntun og félagsþjónustu ætti þannig að verða algerlega óháð afkomunni í rekstri skólphreinsunar og snjómokstri.
Einn gallinn við það kerfi sem bæjarstjóraklúbburinn hefur byggt upp í gegn um Samband Íslenskra sveitarfélaga er einmitt umboðsvandi. Við kjósum almennt ekki bæjarstjóra eða sveitarstjóra sem eru framkvæmdastjórar rekstrar á vegum sveitarfélaganna. Við kjósum heldur ekki fulltrúa borgaranna til að setjast á rökstóla á fundum SSvfél - þar kjósa sveitarstjórnarmenn og bæjarstjórar hver annan.
Aðskilnaður á rekstri skóla, heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustunnar frá rekstri hita og vatnsveitu eða skolphreinsunar og snjómoksturs er verkefni sem við ættum að skoða - - og læra þar af reynslu annarra þjóða. Við ættum að færa þjónustuna nær notendum - auka lýðræði og valddreifingu og sjálfstæði rekstraraðila - -án þess að hleypa inn gróðalöngun einkarekstrar í hagnaðarskyni.
Við gætum með slíku virkjað sköpun og frumkvæði og mjög líklega bætt árangur. Um leið verða til forsendur til þess að létta af miðstýringu og valdbeitingu ráðuneyta í Reykjavík – en koma þess í stað á virkri hvatningu til að ná fram hagkvæmni og gjöfulla starfi.
Ég held að það sé tímabært að ræða kerfisbreytingu - með innleiðingu á millistjórnsýslu á sviði menntamála, heilbrigðismála og félagsmála - - óháð rekstri gatna og fráveitu.
Ég held að það sé tímabært að auka lýðræði í landshlutum og sveitarfélögum og koma á virkari nándarstjórn á öllum sviðum.
Til þess að leysa þann umboðsvanda sem við er að glíma í gegn um ólýðræðisleg samtök sveitarfélag væri mögulega ráð að kjósa bæjarstjóra/sveitarstjóra beinni kosningu - - og staðsetja rekstrarlegt umboð hjá þeim með skýrari hætti en nú er. Um leið yrði þá viðfangsefni kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum fyrst og fremst að ramma inn verklag og útfæra stefnu í skipulagi og gagnvart framkvæmdum. Varla mundu menn þá vera að velta fyrir sér að fulltrúar í sveitarstjórnum ættu að gegna umtalsverðum launuðum störfum í slíku breyttu kerfi. Íbúaþing og beinar kosningar íbúa/notenda mundi einmitt leysa langstæðar fundarsetur fulltrúa og hrossakaup þeirra af hólmi.
Eða er þetta etv. allt of róttæk orðræða fyrir Ísland Eftir-Hrun?