Slysfarasaga Samfylkingarinnar

 

Slysfarasaga Samfylkingarinnar (sem aldrei varð “samfylking” jafnaðarmanna í raun)

 

1.       Flokkurinn var stofnaður sem sambræðingur af klíkum úr smábrotahefð vinstri hreyfingar á Íslandi.   Klíkurnar héldu áfram að “efla sjálfar sig” – og tókst að komast hjá góðviljaðri samræðu og  efnislegri stefnumörkun sem hefði getað lagt grunn að samstöðu og sameiginlegu vali í áherslum og nýsköpun félagshyggjunnar miðað við breyttan tíma.

2.       Fólk sem var meira og minna flokkslaust -  en hafði tekið vel við sér ma. með stuðningi við R-listann í Reykjavík - og jafnvel með stuðningi landsbyggðarfólks við Ingibjörgu Sólrúnu  sem merkisbera skynsemispólitíkur – þessi hópur vænti þess að finna farveg fyrir þáttöku og reiknaði með að verða viðurkenndir aðilar að samræðu og samstöðu.    Þessi hópur upplifði á endanum að hafa ekki fengið neitt marktækt rými  -  og varð það endanlega og algerlega ljóst þegar Ingibjörg Sólrún hafði verið hrakin af vettvangi 2009.

3.       

Forysta  Össurar Skarphéðinssonar reyndist ekki nægilega burðug til að koma flokknum á kortið og sinna metnaðarfullu stefnumótunarstarfi sem límdi flokkinn saman.    Óþol gagnvart áhrifaleysi leiddi til þess að Ingibjörg Sólrún var mokkuð út úr hlutverki sínu sem borgarstjóri í Reykjavík – og skilin eftir án umboðs og verkefna 2003.   Auðvitað kallaði hún síðan eftir umboði flokksmanna sem hún sannarlega hlaut í glæsilegri allsherjarkosningu 2005.

4.       Fylgisgrunnur Samfylkingarinnar frá 1999-2007 var meðal menntaðra kvenna og fólks úr fagstéttum heilbrigðis og menntakerfis ekki síst.    Þessi breiði hópur vænti þess að áherslur félagslegsréttlætis, velferðar, menntunar og tækifæra fyrir alla mundi bjóða frjálshyggju og markaðsáherslum Sjálfstæðisflokksins og bankavæðingararms Framsóknarflokksins byrginn og leggja upp plan um mannvænlegra samfélag.    Þess vegna reyndist “kosningastefnuskrá SF” fyrir kosningarnar 2007 sem að réttu hefði átt að bera yfirskriftina “til móts við samstarf við Sjálfstæðisflokkinn” – augljóst fyrsta skref í hnignunarferli flokksins.

5.       Samstarfið í ríkisstjórn Geirs H Haarde var þannig algert skipbrot fyrir pólitík jafnaðarmanna -  og það að Ingibjörg Sólrún “færi úr landi pólitískt” -  með fáránlega hugmynd um framboð til Öryggisráðsins – gerði það ennþá tilfinnanlegra að flokkurinn sat eftir með ráðherra í tómu tjóni.  Þegar svo í ljós kom að þeir Jón Sigurðsson og Jón Þór Sturluson sem áttu að halda á snertiflötum SF gagnvart hræringum og heilbrigði fjármálakerfisins  - voru á innihaldslausu EGÓ-FLIPPI  og virðast varla hafa verið með fullri meðvitund hvað þá meir  -  þá varð tilgangsleysi jafnaðarmannaflokksins algert gagnvart sprungnu græðgishagkerfi sem hannað var eftir öfga-uppskrift Viðskiptaráðs Íslands.

6.       Þegar Ingibjörg Sólrún var slegin flöt af sjúkdómi sínum -  rétt í aðfara Hrunsins -  þá dingluðu ráðherrar og flokksbroddar greinilega “utan þjónustusvæðis” – og létu sér það vel lynda að vera haldið frá vettvangi hinna alvarlegu ráða -  þótt Björgvin G Sigurðsson sýndist  borginmannlegur fyrir myndavélum á blaðamannafundum með Geir H Haarde.

7.       Jóhanna Sigurðardóttir hafði lykilstöðu á Hrundögunum í október og nóvember 2008 -  þegar ljóst mátti vera að fall krónunnar væri varanlegt og verðbólguskriðan yrði tröllaukin.  Hún virtist vilja aftengja vísitölu lána -  en lét plata sig af forseta ASÍ og persónum tengdum afleggjurum frá “stormsveit Gamla Alþýðuflokksins” til varnar verðtryggingunni.  Eftir það var meira að segja Jóhanna komin í mótsögn við sjálfa sig  -  hún sem áður hafði fengið menn til að trúa því með endurteknum tillöguflutningi að Samfylkingin stæði heil gegn verðtryggingu íbúðalána og neytendalána.

8.       Landsfundur SF 2009 setti tón fyrir kosningar um vorið -  þar sem samþykkt var ma. að leggja upp aðgerðir til að leysa vanda stökkbreyttra lána  -  og skala niður hagnað fjármálakerfisins.   Með óskiljanlegum hætti og fyllilega ólýðræðislegum  var öllum slíkum samþykktum skákað útaf borðinu og þingmenn og frambjóðendur flokksins meira og minna gengu gegn stefnumörkun Landsfundarins (eins og reyndar var einnig gert í aðdraganda kosninganna 2007 með því stórskrítna “Jóns-plaggi”).   Lagt var upp með “ósamþykktu” og furðulegu plaggi sem átti að “brúa bilið” þannig að allir gætu borgað sem mest af stökkbreyttum og gengismargfölduðum kröfum hins hrunda bankakerfis.

9.       Á tíma minnihlutastjórnar Jóhönnu í boði Framsóknarflokksins  -  eyddi SF gríðarlegu púðri á að slást við og rífast við Framsókn – og skýldu Steingrími J sem lék lausum hala á sama tíma við að afhenda kröfuhöfum endurreistu bankana  -  án þess að slíkt væri gert í opnu ferli og með ítarlegum greiningum og rökstuðningi.   Var reyndar ekki formfest fyrr en rétt fyrir jól og þá að kröfu Ríkisendurskoðunar -  eins og lesa má í alþingistíðindum.    Rifrildið gekk út á að SF ætlaði sko ekki að sinna samþykktum eigin landsfundar varðandi skuldaleiðréttingu og takmörkun á tjónum einstaklinga með gengislán.   Hrun gengisvísitölunnar í mars 2009 er til staðfestingar á því að “hinir andlitslausu” kröfuhafar föttuðu á einum degi -  að með því að þeir hefðu eignast lykilstöðu gagnvart bönkunum  - þá væri Ísland að nýju vettvangur fyrir “hrægammana” með verulegri hagnaðarvogun.

10.   Að loknum kosningum 2009 lagði Jóhanna af stað -  eins og í taumi Steingríms J og Árna Páls -  með Gylfa Magnússon sem “sérfræðing” í endurreisn fjármálakerfis.  Mats Josefsson sem var ráðinn til að gefa áætlun íslands gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum trúverðugleika  - hafði áður lagt til að farin yrði allt önnur leið við endurreisn banka.  MJ lagði ma. til að gjaldþrota fyrirtæki yrðu tekin út úr nýju bönkunum og sett í umsýslufélag sem hefði gagnsætt stjórnkerfi í armslengdarfjarlægð við ríkisstjórn og skýr markmið um að koma fyrirtækjum með heilbrigðum hætti  úr opinberri eigu.    Svo tóku við Bankasýsla -  Hilda/ESÍ og – Vestía og fleira og fleira -  en umfram allt fór það svo að bankarnir tóku yfir gríðarlegan fjölda af fyrirtækjum og hafa skuldhreinsað sum og selt með ógagnsæjum hætti og býsna ótrúverðugum skýringum.   Íbúðalánasjóður hrifsaði til sín mikinn fjölda íbúða -  og hefur reynst mjög óviljugur til að túlka reglur sínar og tilgang í þágu lántaka  -  og hefur klárlega hagað sér afar ruddalega í mörgum tilfellum farið offari gagnvart lántökum.   Að lokum hrökklaðist Mats Josefson úr landi og “út um bakdyrnar” og hefur neitað að svara spurningum fjölmiðla um hlutverk sitt og ráðgjöf hér á Íslandi.

11.   Gengislánavandræðin -  dómar og úrlausn mála  -  áður en til kom að þau reyndust ólögleg og féllu í Hæstarétti – þá gekk ríkisstjónin fram til að bakka upp ítrustu kröfur bankanna og innheimtukerfisins -  og síðan áframhald með hinum hroðalegu Árna Páls-lögum sem voru rekin til baka í Hæstarétti.  Eftir situr fjöldi fólks sem missti heimili og fyrirtæki – á grundvelli innheimtu og aðgerða banka og sýslumanna vegna ólöglegra mála  -  og ríkisstjórnin gerði ekkert  -  EKKERT til að rétta hlut þessa fólks sem varð undir vegna löglausra gerninga.

12.   Stofnun embættis með því hroðalega niðurlægjandi nafni “Umboðsmaður skuldara” og allt bixið í kring um það – þar sem embættið var kortlagt og hannað eftir pípu bankanna og starfið miðaðist að mörgu leyti mest að því að innheimta sem mest fyrir bankana af meira og minna vonlausum og illa grunduðum kröfum og vanskilakostnaði.    Lengi vel snerist öll vinna þessa embættis gegn lántakendum og var í þágu bankanna og enda “kostuð/fjármögnuð” – af kröfuhöfum.  Gamall jafnaðarmaður af Suðurlandi hafði orð á því að þessi stofnun embættis væri að sínu mati eins og versta tegund af endurvakningu á gömlu “fátækralögunum” sem félagshyggjufólk á fjórða og fimmta áratugnum barðist við að fá afnumin.

13.   Ráðherrar og þingmenn SF slógu  skjaldborg sína um hagsmuni kröfuhafa – og innheimtukerfi bankanna.  Leiðréttingartilburðir þeirra voru hannaðir af samtökum fjármálafyrirtækja/Ingvi Örn Kristinsson – og gengu í langmestu leyti til fólks sem var skuldsett uppfyrir haus og tilheyrði vildarvinum bankanna.   110% leiðin fór þess vegna til mest-skuldsettra og “greiðsluaðlögun” var leið bankanna til að stýra því hvert afskriftir gengu - og auðvitað fóru þær einkum til vildarvina frá því fyrir Hrun.

14.   Engin jákvæð málafylgja fór fram á alþjóðavettvangi á tíma ríkisstjórnar Jóhönnu -  ekki fyrir hagsmunum Íslands í ICE-save deilunni og alls ekki gagnvart ESB umsókninni.    Hvergi voru málin rædd á forsætisráðherraplani.  Jóhanna fundaði ekki opinberlega með einum einasta þjóðarleiðtoga vegna málanna.   ICE-SAVE fór í hendur Steingríms J og Svavars Gestssonar og það virtist næstum að það væri þeirra markmið “að fella kostnaðinn” að sem mesti leyti á almenning í landinu – og lauma honum óséðum í gegn um ALþingi.   Allur sá málatilbúnaður var slysaslóð - og eiginlega verri en það – en í boði og skjóli Samfylkingarinnar.  

15.   Það varð að mjög fölskum tóni að ekki sé sterkar kveðið að orði að SF skyldi berjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslum um ICESAVE og óskiljanleg rökleysa alla leið.  Þetta var alveg sérstaklega taktlaust þegar litið er til að í raun og veru var Jóhann Sigurðardóttir áhugasöm um að koma stjórnarskrábreytingum í gegn um ALþingi.

16.   Stjórnarskrármálið varð að vandræðagangi -  fyrir skort á verkstjórn og greinilegt undirferli í hópi þingmanna stjórnarliðsins.

17.   Mjög slysalega framkoma SF í Landsdómsmálinu – og vanheilagt bandalag við Atla Gíslason og fulltrúa Frmsóknar um lögsókn ráðherranna fyrrverandi  - varð að fleini í holdi mjög margra jafnaðarmanna -  ekki síst af því að með því var reynt að skilja Ingibjörgu Sólrúnu eina eftir með “Svarta Pétur” Hrunsins.   Þetta var áberandi og ódrengilegt við þær aðstæður að ISG hafði bókstaflega enga möguleika á að verja sig sjálf í opinberri orðræðu á þeim tíma og enginn framlínumaður SF virtist hafa döngun til að ganga gegn nokkuð augljósu plotti Össurar og klíkunnar hans (eins og lesa má ma. úr orðréttum vitnisburði ÖS í skýrslu RNA).

18.   Það komu upp mjög alvarlegir brestir í stuðning við Samfylkinguna þegar ljóst varð að flokkurinn stóð ekki heill að baki hugmyndum um innköllun veiðiheimilda og uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu.  Enginn vafi er á að fyrifram var mjög víðtækur stuðningur þjóðarinnar að baki yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar.

19.   Hroðaleg vonbrigði komu fram með aðgerðaleysi SF í húsnæðismálum -  ekki bara  gagnvart úrlausn skuldamála og niðurskrift stökkbreyttra lána -  heldur og ekki síður að ekkert jákvætt fékkst þokað til að greiða fyrir leigumarkaði eða auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að skapa hagkvæman valkost.   Tilraun Guðbjarts Hannessonar til að leggja upp jákvæð plön sem nýr ráðherra  -  voru bókstaflega eyðilagðar með því að Steingrímur J og Jóhanna yfirtóku þær hugmyndir og hentu út í horn um leið og þau stigu fram fyrir Guðbjart -  eins og skoða má af einum af hinum endemislegu blaðamannafundum þeirra skötu-hjóna frá þessum tíma.

20.   Alveg sérstaklega urðu margir stuðningsmenn flokksins fyrir miklum vonbrigðum með það hversu lítið var hlustað á flokksmenn -  og hversu litlar undirtektir almenningur fékk við áhyggjum sínum og óskum.   Þar var alls ekki bara við ráðherra SF að sakast  -  þótt það hafi verið sérlega og aumkunarlega vandræðalegt hvernig Hrannar B Arnarsson og helstu hliðverðir Jóhönnu einangruðu hana og útilokuðu hana frá því að ræða beint við stuðningsmenn flokksins.   Þingmenn urðu á endalausum flótta undan framkvæmd og framkomu -  og á endanum varð það þeim eina metnaðarmál að hanga á þingsætum sínum og ráðherrastólum til loka kjörtímabilsins  - sama þótt engu jákvæðu yrði áorkað.

21.   Formannskosning 2013 var óskaplega sérkennileg – í því andrúmslofti að meira og minna allur þungavigtarhópur fólks sem hafði lýst vonbrigðum og kallað eftir skarpari félagshyggjuvinkli á SF hafði formlega sagt skilið við flokkinn -  eða treysti sér alls ekki til að koma til liðs við Guðbjart mótframbjóðanda Árna Páls.  Reyndar virtist GH meira og minna sannfæringarlaus um að það væri framtíð í flokknum við svo búið eða að hann væri rétti maðurinn til að fara með flokkinn eða leiða áherslur hans í neina átt.   Þáttakan var léleg og engin stemming -  og maskína lögfræðistofanna átti auðveldan leik.  Árni Páll var kosinn.   Það er tiltölulega auðvelt að reikna út að Össurargengið hafi lagt sín lóð ÁPÁ megin í þeim kosningum – sem jafnframt gerir það ennþá flóknari stöðu fyrir uppgjörið sem er þegar komið af stað.

22.   Brotthlaup Árna Páls nýkjörins formanns frá frumvarpi um stjórnarskrá var síðan ofboðslega mikil undirstrikun á því að forysta flokksins væri staðaráðin í því að fara sínu fram og hafa vilja kjósenda að engu.

23.   Ekkert í áherslum SF á tímabilinu frá 2007-2013 – getur staðfest að flokkurinn hafi í raun haft heildstæða stefnumörkun eða málefnagrunn sem mögulegt er að kenna við jafnaðarmennsku eða neina klassíska félagshyggju.   Allar aðgerðir í bankamálum og sá forgangur kröfuhafa – lífeyrissjóða og gróðapunga – sem SF stóð fyrir – voru gerðar á forsendum ný-markaðshyggjunnar og eins og allir sem á vettvangi voru væru búnir að gleyma rótum sínum.   Þótt hamrað væri á því að “velferðarstjórnin”  - og “fyrsta vinstri-stjórnin” án Framsóknar væri sko stjórn vinnandi fólks og þeirra sem minna mega -  þá bera allar aðgerðir skýr merki þeirra leiðsagnar hægri sinnaðrar markaðshyggju sem áður réði öllum ríkjum og gerir enn.

24.   Engu var breytt í þeim forsendum sem unnið er útfrá  - engar kerfisbreytingar gagnvart fjármálakerfinu – og slagurinn um Seðlabankann reyndist alls ekki slagur um stefnu og áherslur – heldur einungis innihaldslaus þræta við Davíð Oddsson og trúarheitustu fylgismenn  hans eins og  HHG.    Vaxtastefna Seðlabankans og algert aðhaldsleysi Fjármálaeftirlitsins – eru nú virkilega búin að sanna sig – og meira að segja fjölmörgum stuðningsmönnum núverandi ríkisstjórnar er farið að blöskra.

25.   Málflutningur fv.ráðherra og þeirra þingmanna sem enn eru frá Hrunsamstarfi ríkisstjórnar Geirs Haarde getur aldrei orðið trúverðugur -  meðan enginn segir svo mikið sem “sorry”  Vitandi að Kristján Möller situr að svikráðum við yfirlýsta stefnu SF bæði í umhverfismálum og fiskveiðistjórnunarmálum -  og líklega líka í stjórnarskrármálinu.  Vitandi að Össur seldi SPRON-bréfin með ofurgróða -  bréf sem hann kom höndum á nánast gefins við það að verða framlínumaður í Alþýðuflokki/Samfylkingu -  og vitandi að Össur var næstum “meðvitunarlaus” á vettvangi hrunsins og eftirkastanna.

26.   Vitandi að slegin var skjaldborg um Jón Sigurðsson sem fór með allt pund flokksins á vettvangi FME og hélt ekki einu sinni stjórnarfund mánuðum saman í aðdraganda hrunsins.  Vitandi að flokkurinn lagði kapp á að Björgvin G Sigurðsson héldi embættum og þingsæti  og málflutningur Össurar fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis bar með sér að Björgvin hefði  verið alveg að nær “meðvitundarlaus á vettvangi” og hefði ekkert vitað og ekkert getað gert á því stigi.    Með því var greinilega verið að fríkenna BGS en um leið auðvitað að lýsa því yfir að hann “hafi verið þvílíkur auli og aukvisi” að ekki verði fært að kalla hann til neinnar ábyrgðar gerða eða afleiðinga á aðgerðaleysi.

27.   Þingkosningar fóru fram og við 17% burthorfinna kjósenda og flokksmanna urðum stærri hópur en þeir tæplega 13% sem kusu flokkinn.   

28.   Áhrifaleysi gamalla og óspennandi þingmanna Samfylkingarinnar – sem höfðu ekki upp á neitt að bjóða annað en þrætu og þras við Framsókn um leiðréttinguna og lengi vel til varnar verðtryggingunni – er nú algert.

29.   Á landsfundi 2015 sauð svo uppúr með því að Sigríður Ingibjörg bauð sig fram til formanns og  Árni Páll situr eftir gersamlega án raunverulegs baklands  - eftir að  hafa hangið í embætti formanns á sínu eigin atkvæði einu.

30.   Sigríður Ingibjörg er auðvitað ekki raunverulegur valkostur við Árna Pál – og á þeim sést ekki pólitískur munur þótt þau tilheyri eflaust mismunandi umgengnishópum/klíkum flokksins.  Á fyrra kjörtímabili og ríkissjórnartímanum frá 2007 er ekkert á ferli þeirra tveggja sem bendir til að SII mundi reka annars konar pólitík en Árni Páll – í neinum þeim atriðum sem skipta máli.  Bæði eru þau sjálflæg í málflutningi og ósympatísk – og jafnvel góðar hugmyndir eða málefni hljóma ótrúverðug þegar þau birtast í ræðustóli.   Hvorugt þeirra getur unnið traust flokksmanna og alls ekki sótt nýja kjósendur í þennan nýja veruleika flokksleysingjanna sem engum treysta.

Niðurstaðan;

Að mínu mati á Samfylkingin engan möguleika til að ná fylgi og áhrifum með óbreytta framlínu á Alþingi og með Árna Pál sem formann.  

·         Best væri sennilega að að alþingismenn flokksins segðu af sér þingmennsku flestir eða allir og varamenn tækju sæti. Með ferskum formanni gæti það tekið tiltölulega stuttan tíma fyrir flokkinn að ná málefnalegri stöðu með vandaðri stefnumótun og samræðu útfrá grunngildum vinstri stefnu og nýsköpunar og með því að leitast eftir að verða farvegur fjölþjóðlegra strauma sem nú ganga á hólm við yfirgang fjármálakerfis og vaxandi misréttis.

 

·         Hinn möguleikinn er að leita beinlínis eftir því að flokkurinn endurnýi sig með því að kalla á okkur þessa einstaklinga sem gengum í burtu og höfum skilið við flokkinn á grundvelli málefnalegra augljósra ágreiningsmála.    Við erum stærri hópur en þeir sem eftir sitja og því gæti það verið vænlega leið fyrir SF að verða með því aftur farvegur og deigla fyrir pólitíska samræðu og breiðari stefnumótun.

Hvort að það væri mögulegt að framkalla endursköpun orðræðu í líkingu við það sem Nýja vinstrið í suðurEvrópu er að gera  eða hvort flokkurinn gæti laðað að sér nýja og gamla flokksmenn og kjósendur eins og nú er í gangi í kring um breska Verkamannaflokkinn og Jeremy Corbyn og hjá Demókratanum Bernie Sanders í USA  - er svo annað mál -  en við fáum ekki svör við því nema eitthvað slíkt verði reynt.

AÐ öllu óbreyttu er SF ekki aðlaðandi vettvangur og alls ekki meðan Árni Páll er þar í forsvari.   Þarna er amatörismi og sjálfshyggja formanns og fámennrar klíku viðhlæjenda hans alltof ráðandi og þarna eru örfáir einmana þingmenn með svo þröngt bakland hver og einn að þar skapast ekki málefnalegur grundvöllur eða stemming.

Samfylkingin þarf sennilega einhvers konar kraftaverk til að verða nothæfur stjórnmálaflokkur  - og verður aldrei burðarafl í stjórnmálum eða leiðandi í ríkisstjórn - nema skipt verði um framlínu og stefnumál hreinsuð upp til að verða valkostur gagnvart tómhyggju markaðsaflanna og sérhagsmunaflokkanna.

Verst af öllu væri þó ef lífeyrissjóða-armur verkalýðshreyfingarinnar yfirtæki Samfylkinguna í sárum og misbeitti henni ennfrekar en orðið er í þágu “ósjálfbærs og háskalegs” fjármálaskrímslis lífeyrissjóðanna.   

Mundi  Benedikt Sigurðarson íhuga það í alvöru að ganga í Samfylkinguna að nýju og bjóða sig fram til formanns flokksins?  

Eða er einhver annar þarna úti sem er líklegur til að skora ábyrgðarmenn niðurlægingar og fylgisleysis á hólm?

 

Með jákvæðum huga en þó verulegri eftirsjá vegna brostinna væntinga til “samfylkingar jafnaðarmanna”

17.febrúar 2016

Benedikt Sigurðarson fv. flokksfélagi í Samfylkingunni