Nýting og náttúruvernd

Jafnvægi milli nýtingarsjónarmiða og náttúruverndar; álver á Húsavík

Í meira en 30 ár hef ég verið áhugamaður um nýtingu jarðvarma og sérstaklega háhitasvæðanna til raforkuframleiðslu. Nú hillir undir verulega aukna möguleika á nýtingu þessarrar orku með þróun djúpborana. Slík aðferð býður væntanlega upp á ennþá meir varkárni í umgengni við umhverfið – og gæti dregið verulega úr sýnilegu raski. Einmitt þessvegna er nýting háhitasvæða ákjósanleg leið til að sætta sjónarmið – sem rekist hafa harkalega á síðustu árin.

Nýting auðlinda er afar mikilvægur hluti af framtíðarstjórnmálum á Íslandi. Hins vegar er þannig komið árið 2006 að reynt hefur verulega og etv. um of á þanþol efnahagslífins – og stöðuleikinn hefur vikið fyrir þenslu – sem rekja má að nokkru leyti til of stórra framkvæmda sem keyrðar voru of hratt inn í hagkerfið. Einnig hefur reynt veruleg á þanþol fjölmennra hópa fólks gagnvart framkvæmdum sem ekki er mögulegt að treysta að feli í sér viðunandi arðsemi. Risastórar fórnir á umhverfi og víðernum hafa kallað fram efasemdir – sem mikilvægt er að virða og vinna sig frá. Jákvæð og opinská umræða – byggð á gögnum sem frjálsir vísindamenn geta látið í té – þarf að koma til í stað þeirra reiði og gremju sem ríkir í samskiptum formælenda risa-framkvæmdanna og þeirra sem telja sig mæla fyrir hagsmunum náttúruverndar og framtíðartækifæra.

Álver á Húsavík

Það er ljóst að álver við Húsavík er komið á dagskrá. Því miður er nú hætta á að það hafi lent aftur fyrir í röðinni og Grundartangi, Straumsvík og Helguvík séu nær því að komast á framkvæmdastig ef marka má stöðu orkuöflunar. Þessi framkvæmdaröð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er auðvitað ekki í neinu samræmi við það þensluástand sem varanlega virðist til staðar á SV-landi – en enginn hefur orðið var við staðbundna þenslu í Þingeyjarsýslum. Eftir sem áður er nokkuð í land í rannsóknum og endanlegum undirbúningi varðandi orkuöflun áður en líklegt er að framkvæmdaaðilar vilji skuldbinda sig til að hefja byggingu álvers. Einnig þarf að liggja ljóst fyrir að viðunandi orkuverð verði í boði. Nú er ekki líklegt að á næstu 5-8 árum verði pláss fyrir fleiri en 1 álver á Íslandi og auðvitað er mikilvægt að það álver rísi á okkar landshluta og þá er Húsavík komin á kortið og ástæða til að fylkja landsbyggðarfólki um þá staðsetningu.

Samfylkingin talar skýrt

Skýrar áherslur Samfylkingarinnar í umhverfismálum – þar sem frekari stóriðjuuppbygging er sett í bið og jafnvægi gagnvart nátturuverndarsjónarmiðum er sett í forgang – kann að koma einstökum forystumönnum flokksins í opna skjöldu. Það er slæmt fyrir flokkinn þegar talsmenn hans verða tvísaga og ganga ekki í takt – en það er umfram allt slæmt fyrir kjósendur ef einstakir forystumenn og frambjóðendur reynast ótrúverðugir. Undirbúningur og rannsóknir halda áfram fyrir álver á Húsavík – og þegar að því kemur að tekin verði endanleg ákvörðun þá er mikilvægt að forystumenn og íbúar annars staðar í kjördæminu – einkum á Akureyri og við Eyjafjörð – vinni með Húsvíkingum til að tryggja hagfellda niðurstöðu og í sátt við heildstæða stefnumótun.

Fyrir Austan

Það er auðvitað búin að vera mikil framkvæmdagleði á Austurlandi síðustu 3 árin. Senn sér fyrir endann á byggingu virkjunar og álvers og þá er stærsta spurningin fyrir það svæði hvernig mönnum tekst að ná jafnvægi þegar þenslunni lýkur og nýjar aðstæður skapast. Slíkt gerist ekki sjálfkrafa – og því er brýnt að stjórnvöld komi skipulega inn með virkri atvinnuþróun og uppbyggingu á heilbrigðisþjónustu, framhaldsskólum og háskóla-aðgengi – um leið og samgöngur milli byggðarlaga verða kerfisbundið byggðar upp á næstu 5-10 árum. Það getur ekki verið viðunandi að innfæddum Íslendingum haldi áfram að fækka á Austurlandi. Samfylkingin hefur forystuhlutverki að gegna í þeirri uppbyggingu innviðanna sem verður að setja í gang strax.

Þjóðarsátt – jafnvægi sjónarmiða

Samfylkingin hefur hlutverki að gegna við að skapa þá þjóðarsátt sem þarf að koma til – í stað yfirgangsins og þeirra ítrekuðu tilrauna til umræðubanns – með leyndarskjölum – sem Valgerður Sverrisdóttir og Halldór Ásgrímsson lögðu upp undir verndarvæng Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins. Við ætlum auðvitað að nýta auðlindir Íslands til hagsbóta fyrir framtíðar tækifæri uppvaxandi Íslendinga – en við ætlum líka að stunda ábyrga verndun mikilvægra svæða til langrar framtíðar. Þetta jafnvægi getum við skapað – en til þess þarf að takast á við mikilvægt heilunarferli – sem Samfylkingin ein getur leitt. Að þessu vil ég vinna innan Samfylkingarinnar.