Benedikt Sigurđarson

Benedikt Sigurðarson sækist eftir 1. sætinu á lista Samfylkingarinnar í Alþingiskosningarnar 2007

Flýtilyklar

Fréttir

Eiga bćjarfulltrúar á Akureyri ađ „rífast“ um flugvöll í Vatnsmýrinni?

 

Sveitarstjórnir hafa mörg og margvísleg mál á sinni könnu.  Eitt eru skipulagsmál og annað skóla og félagsmál í víðasta skilningi.   Almennt skipta sveitarstjórnir sér ekki beint af skipulagsmálum í öðrum sveitarfélögum nema með hófsamri kurteisi og þá bókstaflega í kyrrþey frekar en með dólgshætti.

Sannarlega skipta samgöngur flest sveitarfélög á landsbyggðinni og íbúa þeirra miklu máli.  Samskiptin við Höfuðborgina hafa í alltof miklum mæli þróast þannig að sérhæfða þjónustu þurfi að sækja þangað og samþjöppun stjórnarstofnana hefur aldrei verið meiri en einmitt allra síðustu árin.  Við erum því mörg þvinguð til að ferðast til Reykjavíkur – þótt við hefðum fremur kosið að spara okkur slíka fyrirhöfn og tilheyrandi kostnað.

Niðurskurður á heilbrigðisstofnunum út um allt land -  og líka á Akureyri – og lokun skurðstofu og fæðingarþjónustu  hefur leitt til þess að fjöldi verðandi mæðra og sjúklinga sem áður var unnt að þjónusta nærri heimabyggð er nú þvingaður til ferðalaga um langan veg.     Verst er að sjúkraflutningar yfir fjallvegi og í gegn um illa þjónustaða flugvelli skapa mikla og aukna áhættu fyrir björgunarsveitir, sjúkraflutningamenn, flugmenn sjúkraflugvéla og lækna sem sinna þeirri þjónustu.

Nú er næstum öllu sjúkraflugi stefnt til Reykjavíkur þar sem sérfræðiþjónustan er byggð upp á einu sjúkrahúsi.  Til Akureyrar er stefnt auknum  sjúkraflutningum af Norður og Austurlandi  - og mikið álag virðist vera á sjúkraflugi þaðan til Reykjavíkur.

Hjartnæmar frásagnir af farsælu sjúkraflugi

Þess eru bókstaflega þekkt dæmi að líf einstaklinga hefur oltið á því að ná í tæka tíð inn á bráðadeildir LSH við Hringbraut eða í Fossvogi.   Þeir einstaklingar sem koma á þær deildir koma langflestir með sjúkrabílum – og næstum allir síðasta spölinn.    Það er eflaust svo að einhverjir sem fluttir eru með sjúkraflugi af landsbyggðinni eiga það nánd flugvallar í Vatnsmýri við Landspítala á Hringbraut að þakka að þeir halda lífi og komust til heilsu.   Hitt megum við ekki vanmet að skerðing á heilbrigðisþjónustu og afturhvarf frá því að byggja upp og reka skurðstofur og sérfræðilækningar í landsbyggðum leiðir til þess að miklu fleiri þurfa að leggja í áhættu vegna ferðalaga og sjúkraflutninga í viðsjálum veðrum – og kalla þarf út sjúkraflug í fleiri tilfellum en gott getur talist.    Af þessum sökum verður til kostnaður og mjög umtalsverð áhætta fyrir fjölda fólks sem að málum kemur við flutninga og einnig fyrir fjölskyldurnar.  Við megum samt aldrei horfa framhjá því að við slysfarir og  bráðsjúkdóma vítt um landið – byggjast lífslíkur margra á því að fyrsta hjálp og farsæll flutningur á sjúkrahús sé yfirleitt mögulegur – því fáir eru þeir sem veikjast nákvæmlega inni á sjúkrahúsi eða á færum flugvelli í dreifbýlinu.

Sjúkrahús á landsbyggðinni

Ég vil auðvitað eiga aðgengi að sérhæfðri og öflugri sjúkrahúsþjónustu á Akureyri.  Ég tel að það sé röng stefna - sem raunar hefur aldrei verið formlega samþykkt - að hætta að byggja FSA upp sem raunverulegt „varasjúkrahús“ – sem getur sinnt viðlagahlutverki ef stórslys blokkera sjúkrahús á Höfuðborgarsvæðinu.   Það getur sannarlega verið umdeilanleg stefna að setja „öll dýrmætustu egg heilbrigðiskerfisins í sömu körfu“- LSH við Hringbraut.

Ég vil að íbúar NA-lands og NV lands -  líkt og Vestmannaeyingar og Sunnlendingar - eigi öruggt aðgengi að breiðri heilbrigðisþjónustu, fæðingarþjónustu  og sérfræðilækningum nær heimili sínu.   Ég vil draga úr þörf fyrir sjúkraflutninga fram og aftur um fjallvegi og minnka álag og áhættu í  sjúkraflugi  – bókstaflega með því að endurnýja að einhverju marki fyrri getu sjúkrahúsa á landsbyggðinni.    Það er t.d. ekki hægt að halda úti öruggu sjúkraflugi sé því stefnt á litla og illa þjónustaða flugvelli í þorpum og fjörðum – þar sem aurbleyta, ljósleysi og alger skortur á snjómokstri og hálkuvörnum  er staðreynd.   

Dýrt að fljúga – endurstaðsetning innanlandsflugsins

Frá 1998 hef ég þurft að vera mikið í förum milli Akureyrar og Reykjavíkur og þekki til þjónustu Flugfélags Íslands og aðstöðuna á Reykjavíkur- og Akureyrarflugvelli.  Ég þekki líka verðlagið á flugleiðinni – og hversu miklu munar ef unnt er að skipuleggja og greiða fargjaldið með löngum fyrirvara.

Það er dýrt að fljúga innanlands; - alltof dýrt fyrir almenning.  Það er hroðalegt viðbótarálag sem skiptar fjölskyldur þurfa að leggja í vegna kostnaðar við að ferja börn á milli foreldra.    Það er gríðarlega mikill og að því er virðist dulinn kostnaður sem sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa að leggja í vegna þess að sérhæfða heilbrigðisþjónustan er að mestu leyti veitt í Reykjavík og þótt Sjúkratryggingar greiði tiltekinn beinan kostnað sjúlinga þá er alltof lítið tillit tekið til þess að sjúklingar og aðstandendur skreppa ekki á einum degi á milli heimilis á landsbyggðinni og þurfa oft að vera langdvölum í Höfuðborginni til að fylgja eftir meðferð eða bíða eftir greiningum.

Ég met það svo að það séu ekki mínir brýnustu hagsmunir að flugvöllur Höfuðborgarinnar fyrir sjúkraflug sé bókstaflega í Vatnsmýrinni, en það kann að vera hentugt engu síður.  

Ég tel alveg augljóst að það eru ekki mínir brýnustu hagsmunir að viðhalda þeirri næstum einokunarstöðu sem Flugfélag Íslands hefur á Reykjavíkurflugvelli.   Meira áríðandi væri að ná fram verulegri lækkun á fargjöldum fyrir almenning – ekkert síður ef það næðist með því að innanlandsflug flytjist á annan völl og heilbrigð samkeppni komist á.

Ég tel engan vafa leika á að það má koma fyrir öruggum og jafnvel umtalsvert betri flugvelli á Bessastaðanesi/Álftanesi – sem gæti staðið ein 30 ár eða jafnvel lengur.  Kannski má byggja flugvöll á Lönguskerjum eða út í Skerjafjörðinn eftir allt saman – þannig að hagkvæmt geti orðið.  

Einnig kann að vera afar mikið hagsmunamál fyrir alla sem starfa í ferðaþjónustu á landsbyggðinni að innanlandsflug verði rekið frá Keflavík.    Með tækniþróun og aukinni veltu ferðamanna verður raunsærra að byggja upp og hagkvæmara að reka lestakerfi milli Höfuðborgarmiðju og Keflavíkur og þess vegna getur verið að bygging nýs flugvallar fyrir almennt flug á Höfuðborgarsvæðinu verði einungis til tímabundinna nota.    Eftir sem áður kann að vera rétt að reka öryggisflugvöll fyrir sjúkraflug og kannski kennslu og neyðarlendingar nærri miðju Reykjavíkur.

Miðað við ferðaþarfir mínar og þeirra sem oft sækja fundi til Reykjavíkur þá fer oft allur dagurinn í verkið – og skiptir þá ekki öllu máli upp á tímann hvort menn mundu þurfa að bæta við ferðalegg til og frá Keflavíkurflugvelli ef við mundum reka þar og þaðan hagkvæmt innanlandsflug.   Svo mættu flestar stjórnarstofnanir breyta um starfshætti   - virkja nýtingu tækninnar með fjarfundum og netsamskiptum – og gera afgreiðslustaði sína á landsbyggðunum þannig burðugri að fleiri geti sótt þangað alla úrlausn sinna mála og sparað sér ferð til Höfuðborgarinnar og ráðuneytanna.

Fyrst af öllu ættum við samt að hætta að rífast um flugvöll í Vatnsmýrinn eða ekki í Vatnsmýrinni; og opna strax flugbraut í Keflavík þar sem brugðist er við áhættu af vindstefnum sem „stutta brautin“ við Hlíðarendann hefur nýst  út af. 

Hvet ég bæjarfulltrúa á Akureyri til að einbeita sér að því að endurnýja heilbrigðisþjónustu í landshlutanum, byggja upp betra Sjúkrahús með húsnæði og tækni og fjölga sérgreinum og viðlagagetu FSA.  Brýnt er að bráðadeild og gjörgæslan ráði við erfiðari tilfelli – og einnig að krabbameinslækningar verði stórlega efldar á svæðinu.   Ekki síst ber að nefna geðlæknisþjónustu fyrir börn og unglinga og greiningar á þroskafrávikum barna – þar sem biðlistar fyrir sunnan gera landsbyggðarfólkinu alveg sérstaklega erfiðara fyrir.

Einnig er löngu tímabært að bæjaryfirvöld á Akureyri og fleiri sveitarstjórnir leggi að mörkum til að koma á líknardeild í tengslum við FSA.

Með því að sífellt fleiri þurfi að sækja langan veg og til Akureyrar eftir fæðingarþjónustu og hverskonar læknisaðstoð – þá er brýnt að koma á rekstri „sjúkrahótels“ á Akureyri og þá þannig að þar geti aðstandendur sjúklinga gist og nýtt sér þjónustu á hóflegum kjörum.   Slíkur rekstur ætti að vera í höndum aðila eins og Rauðakrossins þá án hagnaðarkröfu með stuðningi af sjálfboðastarfi slíkrar hreyfingar.

Að einbeita sér að brýnustu hagsmunum

Svo má í leiðinni nefna við  flugglöðustu bæjarfulltrúana á Akureyri að það er gríðarlega mikilvægt verkefni að kljúfa starfsemi ÍSAVIA þannig upp að Keflavík-Reykjavík séu í sjálfstæðu félagi, í eigu ríkisins, en flugvellir á Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík og Egilsstöðum séu í öðru félagi sem líka væri í eigu ríkisins.   Sveitarstjórnarmenn úr landshlutunum ættu að koma að stjórnun beggja félaga og taka þar fulla ábyrgð.  

Stóra hagsmunamál ferðaþjónustunnar í landshlutanum er auðvitað að koma á reglubundnu flugi til Meginlands Evrópu og Bretlands – allt árið.   Þá verður að viðurkenna að aðflug og fráflug frá Akureyrarflugvelli setur þann völl og uppbyggingamöguleika verulega afturfyrir t.d. Húsvíkurflugvöll.

Að lokum vil ég geta þess að ég dáist að þeirri vinnu við öryggismál, björgun og flutning sjúklinga sem sjálfboðaliðar björgunarsveitanna leggja að mörkum og hefur margfaldast í álagi með auknum sjúkraflutningum frá landsbyggðum.   Á sama hátt hef ég afar óþægilega tilfinningu fyrir því að sjúkraflug eða aðrir sjúkraflutningar séu reknir eða fari í auknum mæli í hagnaðardrifna umgjörð.   Slíkt tel ég galið fyrirkomulag og óhagstætt fyrir alla til lengri tíma litið.   Í því mati mínu felst engin áfellisdómur yfir starfsemi Mýflugs eða ágætra starfsmanna þess félags.     Ég tel að slökkvilið, Rauðakrossdeildir og viðbragðsaðilar í samstarfi við Landhelgisgæsluna séu réttu aðilarnir til að annast þessi öryggismál.

Ég tel mjög tímabært að auka viðbragðsgetu björgunaraðila hér á Akureyri og í landshlutanum  - ma. með því að Landhelgisgæslan verði með stöðuga viðveru eða björgunarteymi, bæði þyrlu og skip,  á Akureyri og Siglufirði/Húsavík – þannig að landshlutanum og hafsvæðinu Norður og NA af landinu verði betur þjónað.

Með þessu er ég að sjálfsögðu að skora á bæjarfulltrúana á Akureyri að vinna með jákvæðum huga með Borgarstjórn Reykjavíkur að því að þróa og endurstaðsetja flugvöll Höfuðborgarsvæðisins þannig að það þjóni hagsmunum okkar allra án slagsmála og innihaldslausra upphrópana sem misjafnlega hófsamir aðilar í hálfgerðum einokunarrekstri kynda undir.  

Og Reykjavíkurflugvöllur er ekki að fara úr Vatnsmýrinni alveg strax – svo bæjarfulltrúar á Akureyri og Sveitarstjóraklúbburinn af landsbyggðinni getur í mörg ár enn reiknað með því að hittast í skjóli Flugfélags Íslands í kumbaldanum  sem reistur var til bráðabirgða.

 Ritað 1.mars 2015

 


Til baka


Mynd augnabliksins

CIMG2114.JPG

Heimsóknir

Í dag: 194
Samtals: 1992519

Innskráning

moya - Útgáfa 1.10 RC1 2006 - Stefna ehf